„ÉG treysti því að veðrið verði gott og stefni að því að vera með smá grillveislu fyrir fjölskylduna og nánustu vini,“ segir Gerður Aagot Árnadóttir, heimilislæknir í Garðabæ og formaður Þroskahjálpar, sem fagnar 45 ára afmæli sínu í dag.

„ÉG treysti því að veðrið verði gott og stefni að því að vera með smá grillveislu fyrir fjölskylduna og nánustu vini,“ segir Gerður Aagot Árnadóttir, heimilislæknir í Garðabæ og formaður Þroskahjálpar, sem fagnar 45 ára afmæli sínu í dag.

„Mér hafa alltaf þótt afmæli skemmtileg og er mikið afmælisbarn í mér, þótt ég sé nær aldrei með mikið tilstand. Þetta er hins vegar nokkurs konar hátíð og ástæða til að gleðjast og gera eitthvað skemmtilegt,“ segir Gerður.

Spurð um eftirminnileg afmæli í tímans rás nefnir Gerður fertugsafmæli sitt þegar hún dvaldi með fjölskyldunni í sumarbústað í Danmörku. „Svo hélt ég stóra veislu í góðu veðri þegar ég varð 35 ára sem var ofsalega gaman. Ég bauð þar gömlum vinum sem ég hafði ekki séð lengi,“ segir Gerður og bætir við: „Maður á að nota tækifærið sem gefst á afmælinu til að gera eitthvað skemmtilegt, hóa saman fólki og aðeins að lífga upp á tilveruna. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt, ekki síst á þessum síðustu og verstu tímum.“ Gerður er þegar byrjuð að leggja drög að fimmtugsafmælinu. „Þegar ég verð fimmtug ætla ég að gera eitthvað mjög eftirminnilegt í tilefni dagsins, fara t.d. í heimsreisu.“ silja@mbl.is