Grafíski hönnuðurinn frá Þýskalandi Nicole Nicolaus lærði íslensku með barnapössun, sjoppuvinnu og námi. Henni líkar vel hér og hefur kynnst landinu vel. Hún hefur þegar lært að hlutirnir reddast, á íslenska vísu.
Grafíski hönnuðurinn frá Þýskalandi Nicole Nicolaus lærði íslensku með barnapössun, sjoppuvinnu og námi. Henni líkar vel hér og hefur kynnst landinu vel. Hún hefur þegar lært að hlutirnir reddast, á íslenska vísu. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nicole Nicolaus kom til Íslands sem au-pair fyrir nær átta árum. Dvölin varð lengri en til stóð en hún fór í nám, lærði grafíska hönnun við Listaháskóla Íslands og vinnur nú hjá 66° Norður.

Nicole Nicolaus kom til Íslands sem au-pair fyrir nær átta árum. Dvölin varð lengri en til stóð en hún fór í nám, lærði grafíska hönnun við Listaháskóla Íslands og vinnur nú hjá 66° Norður. Ævintýraþráin dró þessa ungu, þýsku konu hingað til lands en hún hefur skemmtilega sýn á landann og veit að hlutirnir eiga það til að reddast.

Eftir Ingu Rún Sigurðardóttur

ingarun@mbl.is

Nicole Nicolaus var að leita sér að áskorun eftir stúdentspróf og langaði að hleypa heimdraganum. „Mig langaði að fara til einhvers sérstaks lands og au-pair var góð leið til að gera það,“ segir Nicole, sem er fædd í Leipzig í þáverandi Austur-Þýskalandi fyrir tæpum 28 árum. Hún komst að því að mögulegt væri að fara til Íslands og eftir að hafa fengið þau svör hjá móður sinni að þar væri mjög kalt og allt á kafi í snjó fékk hún bara meiri áhuga.

„Allir sem ég spurði höfðu neikvæðar skoðanir og það gerði mig bara ákveðnari í að fara. Svo kom landið mér skemmtilega á óvart og hér er ég búin að vera í átta ár með stuttum hléum,“ segir hún.

„Ég ætlaði að vera hér í 11 mánuði en lenti hjá svo yndislegri fjölskyldu, sem hjálpaði mér mikið og styrkti mig í því sem mig langaði til að gera,“ segir Nicole, sem fór í Myndlistaskóla Reykjavíkur og fékk síðar inngöngu í Listaháskóla Íslands.

„Ég sótti líka um skóla í Þýskalandi en þar beið mín að taka inntökupróf með kannski þúsund öðrum,“ segir Nicole, sem ílengdist hér. Til viðbótar komst hún sér til undrunar einnig inn í Listdansskóla Íslands en ákvað að fara frekar í LHÍ. Þótt dansáhuginn væri mikill var draumurinn um að verða grafískur hönnuður sterkari.

Eftir útskrift árið 2006 fékk hún vinnu hjá auglýsingastofunni Fíton, var þar í tvö ár og líkaði vel. „Mömmu fannst þetta reyndar orðið gott. Hún vildi fá stelpuna sína heim,“ segir Nicole, sem er í betri stöðu nú en áður ef hún hefði hug á því að flytja aftur til Þýskalands, þar sem hún hefur safnað áhugaverðri starfsreynslu í ferilskrána sína.

Íslenskunámskeið í sjoppu

Nicole talar fyrirtaks íslensku og auk þess að læra hana af eins og átta ára börnunum, sem hún var að passa þegar hún kom fyrst til landsins, lærði hún málið í hinum ýmsu vinnum sem hún var í samhliða námi.

„Meðan ég var í Myndlistaskólanum þurfti ég að útvega mér pening og vann á vídeóleigusjoppu. Þetta var besta íslenskunámskeið sem ég hefði getað fengið. Þarna þurfti ég virkilega að tala og afgreiða nammi og pulsur. Svo vann ég líka á upplýsingamiðstöðinni niðri í bæ.“

Hún var ennfremur eini útlendingurinn í Myndlistaskólanum og í bekknum sínum í LHÍ. „Það var ekki í boði annað en að tala málið. Ég þurfti að halda kynningarnar mínar á íslensku.“

Síðustu mánuði hefur Nicole starfað hjá 66° Norður en skrifstofur fyrirtækisins eru í Miðhrauni í Garðabæ. Hún er ánægð í vinnunni og er núna að vinna að því að hanna merki og umbúðir fyrir tvær nýjar prjónalínur.

Nicole vann eftir útskrift sem nemi hjá grafíska hönnunarfyritækinu Buero Destruct í Bern í Sviss og var síðan í nokkra mánuði hjá auglýsingastofunni ddb í Berlín í heimalandinu í haust. Hún flutti aftur til Íslands í janúar og fannst mörgum vina hennar það óðs manns æði að koma hingað í kreppuna.

Frá Berlín beint í kreppuna

„Það var þvílík áskorun að reyna að komast aftur inn í samfélagið, að finna vinnu á meðan aðrir voru að missa vinnuna. Ég sótti um á öllum stöðum sem mér þóttu skemmtilegir og fór ekki eftir atvinnuauglýsingum,“ segir Nicole, sem telur að jákvætt viðhorf hafi skipt máli. „Mig langaði til að láta á þetta reyna. Og þetta tókst, ótrúlegt en satt. Það þýðir ekkert að grafa sig ofan í holu og hugsa að allt sé ömurlegt.“

Segja má að 66° Norður sé mjög íslenskt fyrirtæki á sama tíma og það er alþjóðlegt. Hún segir vini sína í Þýskalandi hafa þekkt vörumerkið þegar hún sagði þeim frá nýju vinnunni.

Hún segir að Ísland hafi haft áhrif á hönnun sína. „Ég hugsa minna þýskt en áður,“ segir Nicole, sem jafnframt hefur tileinkað sér vinnubrögðin úr Listaháskólanum, „að hugsa út frá hugmyndum og vinna út frá þeim,“ en önnur vinnubrögð tíðkist jafnan í Þýskalandi.

„Svo hefur það áhrif á mann að vera við sjóinn. Hérna finnst mér heldur ekki of mikið stress í vinnu. Það er vissulega mikið að gera allan daginn en fólk fer heim klukkan fimm eða sex. Í Berlín kynntist ég 14 tíma dögum með óborgaðri yfirvinnu. Ég velti fyrir mér hvenær í ósköpunum ég gæti hitt vini mína eða ætti að njóta þess að vera í Berlín.“

En finnst henni Íslendingar þá ekki eins stressaðir og þeir telja sig sjálfir vera? „Mér finnst Íslendingar mjög óstressaðir. Þeir eru kannski stressaðir milli níu og fimm en það góða við að vera hér er að þú veist að þetta reddast allt á endanum. Ég varð miklu stressaðari í Þýskalandi og vissi að margir hlutir myndu ekki reddast. Hér er fólk opið fyrir því að redda og hjálpa til og finnst það ekkert mál.“

Nicole finnst Íslendingar sumsé ekkert sérstaklega stressaðir en þá víkur hugurinn að annarri mýtu um landann, að það sé svo erfitt að kynnast fólki hér.

Almenningssamgöngur erfiðar

„Það er erfitt því Íslendingar eru frekar lokaðir og erfitt að komast inn í hóp. Ég er að vinna í því að stofna minn eigin saumklúbb og það gengur bara ágætlega! Ég á marga góða vini en samskiptin eru samt öðruvísi en í Þýskalandi. Ef þú ert útlendingur án fjölskyldu og æskuvina er þetta erfitt og gæti verið einmanalegt. Ég vildi að ég gæti sagt að þetta væri ekki satt en þetta er því miður rétt. En maður þekkir hins vegar alla ef maður labbar Laugaveginn! Ég neita því ekki en það er kannski meira á yfirborðinu.“

Nicole hefur kynnst mörgum hliðum landsins og landans sem henni líkar vel við en eitt sem fellur henni ekki eins vel í geð er almenningssamgöngurnar. „Þær geta verið hræðilegar. Ég bjó í Grafarholtinu og var þá tvo og hálfan til þrjá tíma á leiðinni í vinnuna hér í 66° Norður. Ég þurfti að skipta tvisvar og leggja af stað klukkan sjö til að vera kannski komin hálftíu, ef ég hefði ekki misst af einhverri tengingu,“ segir hún en það segir sig sjálft að við þetta ástand var ekki hægt að búa og er Nicole nú flutt í Vesturbæ Reykjavíkur. „Ég er fegin að vera flutt, núna er ég 45 mínútur á leiðinni og skipti einu sinni. Allt annað líf. Ég var á bíl í fyrra og það er vissulega meira frelsi sem fylgir því þegar almenningssamgöngurnar eru svona.“

Fjölbreytilegt starf

Nicole hefur tileinkað sér ákveðna fjölbreytni í vinnu sinni sem grafískur hönnuður eins og sjá má á vef hennar, nicolenicolaus.com. „Mér finnst gott að geta verið fjölbreytt, geta prófað ýmislegt í stað þess að festast í einum stíl. Auðvitað hefur maður vissan stíl en ég er ekki alltaf með sama teikningastílinn. Mér finnst gaman að nálgast verkefni frá mismunandi sjónarhornum og prófa nýjar leiðir. Ég held að með þessu hafi ég meira upp á að bjóða og fái fleiri verkefni,“ segir Nicole, sem sér ekki eftir starfsvalinu. „Ég elska starfið mitt mjög mikið, það er svo fjölbreytt og skapandi. Það er mjög skemmtilegt. Ég held ég hafi ekki séð eftir þessu einu sinni. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og láta reyna á hvar mörkin manns liggja.“

ÍS-fólkið lifnar við

EITT af verkefnum Nicole er barnafatalína fyrir Hagkaup, sem hún vann með vinkonu sinni, fatahönnuðinum Elmu Backman. Línan, sem ber nafnið ÍSlendingar, var gerð í kjölfar þess að þær unnu hönnunarkeppni Hagkaups 2008 fyrir barnafatalínu og er hún nýkomin í verslanir. Línan er skreytt ÍSlendingum, skrautlegum karakterum, sem bera nöfn eins og Álfadís og Rokkís, og líkjast ísi í formi.

„Hugmyndin kom, eins og það er oftast, þegar maður býst alls ekki við því. Ég var í Washington en við hjá Fíton fórum í árshátíðarferð þangað. Ég byrjaði að teikna á fundi en það var mjög heitt úti og mér datt í hug að gera persónur úr ís. Ég geymdi teikningarnar í skissubókinni minni, fannst þetta skemmtileg hugmynd en gerði ekkert meira við hana þá.“

Það breyttist þegar hún lenti í árekstri í fyrra og vantaði 200.000 krónur í viðgerðarkostnað. „Þá auglýsti Hagkaup hönnunarsamkeppni og þar voru 200.000 krónur í verðlaun. Þá fór ég í skissubókina og velti fyrir mér hvort ég ætti eitthvað sem ég gæti notað,“ segir Nicole, sem endurnýjaði kynnin við ÍS-fólkið og vann hugmyndina frekar.

„Fötin eru nýkomin í búðir og mér skilst að viðtökurnar hafi verið góðar. Ég hef aldrei unnið svona langt verkefni áður en þetta tók alveg heilt ár og heilmikið ferli að baki. Það er mjög gaman að geta loksins sýnt fólki þetta,“ segir hún, en fatalínan ÍSlendingar samanstendur m.a. af hettupeysum, buffum, leggings, nærfötum og bolum og fæst bæði sérstök stráka- og stelpulína.

„Ég skapaði karaktera sem ég ímyndaði mér að krakkar á aldrinum 2-7 ára hefðu áhuga á,“ segir hún en fötin koma í stærðum 92-122 cm.

Borða ís í hvaða veðri sem er

Ísinn er bæði notaður lítill í mynstri og stór á sumum flíkunum. „Svo gerðum við líka blöðrur og litabók þar sem karakterunum er lýst.“

Hún segir línuna „snúast ekki síst um hvað Íslendingar eru skemmtilegir og jákvæðir, því þeir borða ís í hvaða veðri sem er, það skiptir ekki máli hvort það er sól, snjór eða rigning! Íslendingar borða alltaf ís. Í Þýskalandi borðar maður bara ís á sumrin. Ég fór um daginn í ísbúðina við Hagamel og það var biðröð út úr dyrum. Þessir Íslendingar, hugsaði ég með mér, þeir eru alltaf að fá sér ís.“