— Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Fjölnir Geir „Pabbi er mjög sérstakur. Hann er mjög góðhjartaður, góður karl, en þungur og íbygginn. Er alltaf í eigin hugarheimi, alvarlegur.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Fjölnir Geir „Pabbi er mjög sérstakur. Hann er mjög góðhjartaður, góður karl, en þungur og íbygginn. Er alltaf í eigin hugarheimi, alvarlegur. Ég hef farið með honum í margar safna- og skoðunarferðir til útlanda og einu sinni vorum við í London á árlegri sýningu í Royal Academy. Við skrifuðum báðir um þessar sýningar og því vorum við með blaðamannaskírteini. Ég var brosandi á myndinni í mínum passa og það fannst honum afleitt, sagði að ég væri glottandi eins og fífl. Menn áttu að vera alvarlegir og ekki síst listamenn. Samt sem áður hefur hann góðan húmor og slær mikið á létta strengi, hefur frekar tvíræðan og lúmskan húmor eins og gengur og gerist með karla.

Pabbi hefur haft mjög sterka nærveru í öllu mínu lífi en samt kynntist ég honum seint. Þegar ég var barn og unglingur var hann alltaf að vinna, algjör vinnualki, fyrir utan það að vera fjölskyldufaðir og listamaður. Hann var mikil driffjöður í Myndlista- og handíðaskólanum og mikill bógur þar um langa hríð auk þess sem hann skrifaði fyrir Morgunblaðið. Þegar ég var 15 ára skildu mamma og pabbi. Hún tók tvö yngstu systkinin en við Ásgeir urðum eftir hjá pabba og þá byrjaði ég fyrst að kynnast honum af einhverju viti. Fyrir tveimur og hálfu ári tók ég mig saman í andlitinu, hætti að drekka og þá hófst nýr kafli í samskiptum okkar. Við erum mjög góðir vinir og eigum mikil samskipti.“

Viðurkennir tattúið

„Þó ég vinni í tattúinu ólst ég upp í myndlistinni, á göngunum í MHÍ, vinnustofum og á sýningum og söfnum. Allt okkar líf hefur snúist um myndlist, við höfum andað að okkur myndlist og lifað á myndlist. Hann á mikið bókasafn um myndlist og er algjör alfræðibók þegar kemur að faginu.

Ég fór í tattúið vegna þess að það var algerlega nýtt, ferskt og spennandi. Ég óttaðist alltaf að vera borinn saman við pabba í myndlistinni og standa í skugganum af honum enda alltaf setið við fótskör hans. Í seinni tíð hef ég hins vegar áttað mig á hvers virði það hefur verið. Hann er vitinn í myrkrinu, ljósið sem vísar veginn. Því valdi ég ekki listina heldur valdi listin mig.

Pabbi tók því ekki vel þegar ég valdi tattúið og margir sögðu að góður biti hefði farið í hundskjaft. Ég hafði haft stór orð um það að ég ætlaði að verða myndhöggvari en tattúið er hrein og klár list þó handverk sé stór hluti hennar, eins og í mörgum öðrum listgreinum. Það þarf að læra fagið til þess að geta miðlað listinni en vissulega eru til menn sem eru eingöngu handverksmenn í tattúi. Pabbi sá að ég sem ungur listamaður var allt í einu orðinn sjálfbær, ungur listamaður og það er ekki sjálfgefið. Það hefur orðið algjör bylting í greininni og það er nánast ekki lengur spurning hvort þú fáir þér tattú heldur hvers konar. En pabbi vill ekki tattú. Hann ygglir sig í hvert sinn sem ég býð honum það og segist ekki kunna að meta þetta. Samt hefur hann stutt mig og viðurkennir listformið.

Hluti af lífi listamannsins er þetta bóhemlíf og í nokkur ár lifði ég algjöru bóhemlífi ásamt því að vinna út í eitt. Það hefur eflaust verið jafn erfitt fyrir hann og það var fyrir mig sem barn þegar hann lifði sjálfur slíku lífi. Svona líferni tekur á alla, ekki síst þá sem næst manni standa, en að sama skapi var gott að koma aftur heim og kynnast honum upp á nýtt. Samt átti ég ótrúlega skemmtilega æsku í bóhemlífi pabba, sem einkenndist af sýningum og samvinnu við aðra listamenn. Engu að síður eiga áfengi og uppeldi ekki samleið þó viðurkenndar uppeldisaðferðir virðist ekki alltaf skila betri árangri.“

Síleitandi vinnuþjarkur

„Vinnan hefur alltaf skipt okkur miklu máli. Hún er svo stór hluti af sjálfsmyndinni. Það er mikilvægt að standa sig, vera maður á meðal manna og skila sínu. Pabbi hefur alla tíð verið mikill vinnuþjarkur. Hann mætir í vinnuna á morgnana og vinnur fram að kvöldmat en grúskar síðan í bókunum sínum á kvöldin. Hann er gríðarlega afkastamikill listamaður, alltaf að. Samt hefur hann skilað heilli starfsævi sem kennari og annarri sem gagnrýnandi. Kosturinn við að vera listamaður er að þú ert listamaður en vinnur ekki við það. Þess vegna getur hann haldið áfram að vera listamaður um ókomna tíð.

Pabbi er mjög frjór og hann er enn að þróast sem listamaður. Hann á mörg tímabil og hann hefur verið sterkur í þeim öllum. Það er það sem er svo flott við hann. Það er hrein tilhlökkun að koma á vinnustofuna hans og sjá hvað hann er að gera hverju sinni.

Það er mikil drift í honum. Hann er síleitandi og stöðugt að skora sjálfan sig á hólm. Hann er alltaf að ögra sjálfum sér. Á sýningu hans á Kjarvalsstöðum á dögunum þurfti að taka út að minnsta kosti þrjú verk fyrir hvert eitt sem fór upp en öll áttu þau fullt erindi á sýninguna.

Ég ólst upp í poppinu, með dúkkunum. Ég tók þátt í því með honum að safna dóti í fjörunni í Selsvörinni, þar sem gömlu öskuhaugarnir voru í fyrndinni, og síðan fylgdist ég með því hvernig þetta dót varð hluti af listinni. Að öðru leyti bönnuðu mamma og pabbi okkur að leika okkur í fjörunni og það varð auðvitað til þess að við stálumst oft niður í fjöru en það er önnur saga.

Safnaferðirnar með honum til útlanda eru eftirminnilegar. Það var til dæmis gaman að fara með honum og allri fjölskyldunni til Austur-Þýskalands og fylgjast með honum segja þarlendum listamönnum til syndanna. Þarna voru allir hver annars viðhlæjendur en hann var eftirsóttur vegna þess að hann var óhræddur við að segja skoðanir sínar. Hann var þarna sem fulltrúi Íslands, listamaður, kennari og gagnrýnandi og kom með myndlistarlegt innslag í umræðuna.

Svo er auðvitað með ólíkindum að hafa farið á öll þessi söfn og hafa gengið sig upp að hnjám, en hann þreyttist aldrei. Ef vel á að vera tekur mánuði að skoða mörg þessi söfn.“

Ákveðið hungur

„Pabbi missti heyrnina þegar hann var níu ára. Hann bar út blöð til hermanna og smitaðist af inflúensu af þeim og fékk heilahimnubólgu í kjölfarið. Honum var ekki hugað líf en reis upp og var þá heyrnarlaus. Hann þurfti að berjast við ýmsa fordóma og fyrir vikið hefur hann ákveðið hungur til þess að sanna sig. Hungur, sem við heyrendur þekkjum ekki. Heyrnarleysið markaði hann en gerði hann ekki bitran. Hins vegar hefur hann sínar skoðanir á listinni og er ekki sáttur við allt. Ég segi alltaf við hann að hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af þessu því sagan dæmi þetta með tímanum. Þá talar hann um sögufölsun en ég bendi honum á að enginn falsi Rembrant eða Van Gough eftir á. Í fjarlægð tímans standi það upp úr sem standi upp úr en allt hjóm falli um sjálft sig.

Heyrnarleysi hans hefur ekki haft nein áhrif á samskipti okkar, því hann les lygilega vel af öllum vörum og sérstaklega af vörum barna sinna. Hann kemur mér stöðugt á óvart í hópi ókunnugs fólks með þessari kunnáttu sinni. Það hefur komið upp hjá okkur öllum systkinunum að ætla að læra táknmál, en með fullri virðingu fyrir því þá einangrar það marga heyrnarlausa frekar en að sameina þá öðrum, þó það sé nauðsynlegt fyrir marga sem fæðast heyrnarlausir. Pabbi hefur alltaf lagt áherslu á að heyrnarlausir eigi að reyna eftir bestu getu að læra varamál. Hann hefur gert það og fyrir vikið hefur hann ekki einangrast. Hann hefur aldrei litið á sig sem heyrnarlausan listamann heldur er hann listamaður sem er heyrnarlaus.“

Nýr og sterkur persónuleiki

Bragi „Eins og margur veit er Fjölnir Geir reffilegur maður, sem hefur komið víða við. Hann er þekktur fyrir að láta sér ekki allt fyrir brjósti brenna og hefur frá unga aldri haft yfirmáta mikið aðdráttarafl á hitt kynið. Hvað föðurætt hans snertir er hann kominn af Snæfellingum og Hnappdælum ásamt smásneið af Húnvetningum. Við hæfi er að bæta við að allar líkur benda til þess að lífsneistinn hafi kviknað í skemmtiferð Myndlista- og handíðaskólans kringum Snæfellsjökul vorið 1964, er kynni okkar móður hans voru ný og fersk, ástarbríminn í hæstu hæðum.

Fundum okkar Kolbrúnar, móður hans, bar að á Hótel Borg fyrir óvænta atburðarás og miklar tilviljanir svo kannski var það bókað í himintungl að leiðir okkar skyldu skarast. Fjölni lá á að komast í heiminn og gerðist það 5. febrúar árið eftir. Þetta var kröftugt og kröfuhart barn sem lét í sér heyra ef það var svangt eða eitthvað bjátaði á. Hann var svo nefndur í höfuðið á Fjölnismönnum og hluta til afa sínum.“

Kærar minningar

„Kolbrún hafði meðal annars starfað sem kokkur hjá Landhelgisgæslunni og hóf þar aftur störf þegar við vorum svo lánsöm að fá pláss fyrir drenginn á ungbarnaheimilinu neðst á Dyngjuveginum, í næsta nágrenni við hús foreldra minna. Ég var með annan fótinn á barnaheimilinu og tók drenginn daglangt um helgar. Saga að segja frá því að hann umturnaðist í hvert skipti sem hann kom auga á mig hinum megin við gler í skilrúmi að dagstofunni hvar börnin héldu til. Áttu starfstúlkurnar í mesta basli með að skipta á honum og klæða í föt, því hann barðist um á hæl og hnakka allt þar til hann var kominn til mín. Ekki er laust við að þetta hreyfði við mér og er ein af mínum kærustu minningum frá þessum árum. Uppörvandi eftir að hafa misst fyrsta drenginn yfir í aðra heimsálfu. Til að forðast ranghugmyndir þá var þetta frábært barnaheimili og starfsfólkið hið ljúfasta, hafði sjálft mikið gaman af látunum í stráknum eftir að hann kom auga á mig.

Fljótlega kom fram að eitthvert eirðarleysi fylgdi barninu, sem vildi að hlutirnir gengu hratt fyrir sig. Var hann þó seinn til gangs en fljótur á ferðinni á rassinum. Þegar í ljós kom að hann var flatfóta keypti ég að ráði lækna innlegg í skóna hans og öllum til undrunar reis hann þá upp á augabragði að heita má.

Ár liðu og litla fjölskyldan komin í hús Alliance vestast á Vesturgötunni og áttum við þar dýrleg ár, útsýnið milljón. Þá var Vesturbæjarlaugin ekki mjög langt undan og þangað var jafnan skundað þegar færi gafst. Nýr drengur, Ásgeir Reinar, hafði að auki bankað á. Nú minnist ég þess að þegar ég eitt sinn kom þangað móður og másandi rétt eftir lokun um hádegisbil á aðfangadag með þá báða í fanginu, að sundlaugaverðinum þótti það skondin sjón og skellihló á dyrapallinum. Hleypti okkur inn, og mátti ekki sjá hvor væri ánægðari með þau málalok, en þetta var hvað besta jólagjöfin það árið.“

Góður námsmaður

„Á þeim tíma keypti ég reglulega þýska vikublaðið Stern og í því var jafnaðarlega heil síða með alls kyns myndaþrautum. Skemmst er að segja frá því að Fjölnir tók að fletta í blaðinu og fann síðu með fjölþættum myndagátum. Þá skeði hið óvænta að snáðanum tókst að leysa þær allar, sem var meira en við fullorðnu gátum. Áhuginn kannski minni hjá okkur en þetta var samt frábært.

Um sömu mundir var hann farinn að sækja nokkurs konar forskóla sem var á efstu hæðinni í gamla Stýrimannaskólanum og þar gekk honum mjög vel. Fingurbrjóturinn var þó sá að kennslukonan hafði ekki nema þriggja vikna námskeið í að kenna jafn ungum börnum og eftir tvo mánuði var hún þurrausin og strákurinn hinn óánægðasti. Að öllu samanlögðu afar einkennandi fyrir kennslukerfi sem lengstum hefur lagt áherslu á efri hæðirnar en vanrækt grunnmálin, og gerir víðast enn, einkum hvað sjónmenntir snertir.

Við fluttum svo í raðhús við Ásgarð og þar var barnaskólinn sem betur fer með nýju og heilbrigðara sniði. Fjölni gekk vel í öllum fögum í skóla ef hann á annað borð einbeitti sér. Þó einkum í þeim skapandi, matargerðarlist ekki undanskilin, enda varð hann snemma afbragðs kokkur og var að ég best veit ánægður með kennarana. Seinna varð rof á námi sem seinkaði stúdentsprófinu um nokkur ár.

Hann var og er félagslyndur og eignaðist fljótlega marga vini, einkum meðal kvenþjóðarinnar. Má alveg segja að fegurðardísir hafi svifið á hann. En dömunum gekk ekki nógu vel að fylgja hinni miklu yfirferð hans svo að um löng sambönd var sjaldnast að ræða.“

Tattú hafði vinninginn

„Leið Fjölnis lá í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og þar var hann vel virkur, ekki síst í félagslífinu. Komst hins vegar upp á kant við kennara, með því að hann lét engan vaða yfir sig og svaraði þeim fullum hálsi. Að auki átti hann til að gleyma skólagjöldunum og þar gaf hann höggstað á sér þannig að í lok síðasta námsársins var honum að ófyrirsynju meinuð útskrift, sem hafði afdrifaríkar afleiðingar. Hafði gert áætlanir um framhaldsnám í höggmyndalist ytra sem runnu út í sandinn, og svo þegar hann tók prófið seinna hafði hann einhvern veginn fengið áhuga á tattú og er þar enn blýfastur. Hafði annars áætlanir um að vinna í sígildum miðlum eins og steinhöggi, því honum líkaði ekki að listaskólar voru að ryðja eldri gildum út af borðinu. Engan veginn var um íhaldssemi að ræða hjá Fjölni. Mun frekar var þetta í samræmi við stefnumörk ýmissa framsækinna samtíðarlistamanna, að snúa aftur til eldri tjámiðla. Er það ótvírætt í anda póstmódernískra viðhorfa.

Ég get ekki verið á móti tattú, sem er ein viðbót við þá mörgu geira líkamsskreytinga sem fylgt hafa mannkyninu frá upphafi vega, en verð að viðurkenna að heldur hefði ég viljað sjá Fjölni takast á við skúlptúrinn. En hann er listamaður í sínu fagi. Tattú skarar ekki sérstaklega mitt áhugasvið, í og með vegna þess að athöfninni fylgdu til skamms tíma ýmsar skuggalegar hliðar, og gera að vissu marki enn. Fjölnir ánetjaðist því miður sumum þeirra en hefur nú snúið við blaðinu og tekið upp heilsusamlegt líferni. Kannski er ekki öll nótt úti um að hann snúi sér að skúlptúrnum og öðrum geirum myndlista, nógan hefur hann þróttinn og metnaðinn. Þrengt hefur sér fram nýr og sterkur persónuleiki þótt enn eimi eftir af fljóthuganum. Vel að merkja get ég litið í eigin garð um óþolinmæði og fljótfærni á árum áður, en ég vann bug á hvorutveggja þegar ég glímdi við akademísk vinnubrögð í Kaupmannahöfn, einkum teikninguna. Svo má ekki gleyma taflinu sem ég sótti mikið í, segir kannski sitt að ég komst lítið lengra en í hraðskákina!

Í þá veru sem og fleiru er sitthvað líkt með okkur, þótt í útliti sæki hann um sumt meira í móðurættina. Snæfellingurinn er þó jafnan við næsta horn eins og rækilega sannaðist á síðasta ári er hann átti frumkvæði að velheppnuðu ættarmóti í nágrenni Búðahrauns, sem einmitt var föður mínum svo hugleikið og gekkst á sínum tíma fyrir að yrði friðað.

Þá hefur Fjölnir Geir verið traustur, áhugasamur og góður ferðafélagi utanlands, og þá ekki haldið aftur af sér við safna- og skoðunarferðir, og akkur í honum í samræðunni.“

Bragi Ásgeirsson

Hann fæddist 28. maí 1931.

Hann stundaði nám við MHÍ 1947-1950, Listaháskólann í Kaupmannahöfn 1950-1952 og 1955-1956, Listaháskólann í Osló og Listiðnaðarskólann 1952-1953. Hann vann að list sinni í Róm og Flórenz 1953-1954 og sem styrkþegi DAAD við Listaháskólann í München 1958-1960. Auk þess fór hann í námsferðir víða um Evrópu, Bandaríkin, Kanada, Japan og Kína.

Hann kenndi við MHÍ um 40 ára skeið og var listrýnir, greina- og pistlahöfundur Morgunblaðsins í 42 ár. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga hérlendis og erlendis og tekið þátt í mörgum alþjóðlegum sýningum.

Hann hefur skrifað fjölda listgreina í innlend og erlend rit og fengið margvíslegar viðurkenningar og styrki frá ýmsum löndum.

Fyrri kona hans var Adelheid Weimann og eiga þau Braga Agnar (f. 1961), sem býr í Toronto. Seinni kona hans var Símonía Kolbrún Benediktsdóttir og eru börn þeirra Fjölnir Geir (f. 1965), Ásgeir Reinar (f. 1966), Símon Jóhann (f. 1970) og Kolbrá Þyri (f. 1971).

Fjölnir Geir Bragason

Hann fæddist 5. febrúar 1965.

Hann hóf nám í forskóla í gamla Stýrimannaskólanum, fór síðan í Breiðagerðisskóla, Hlíðaskóla og tók stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1990. Hann útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 2000, þar sem lokaritgerð hans fjallaði um tattú, en hann hefur starfað við greinina í Reykjavík frá 1995.

Hann hefur haldið þó nokkrar tattú-sýningar hérlendis, ýmist einn eða með öðrum.

Hann á tvo syni, Atla Frey (f. 1989) með Öglu Egilsdóttur og Fáfni (f. 1985) með Þóru Björk Ólafsdóttur.