Stemmning á Sweeney Todd hjá Herranótt Blóð í hraðpósti "OKKUR finnst þetta ekkert svo ógeðslegt, húmorinn er aðalatriðið. Jafnvel íhaldssömustu kennarar virðast skemmta sér á Sweeney Todd, þessum blóðugasta gamanleik allra tíma.

Stemmning á Sweeney Todd hjá Herranótt Blóð í hraðpósti "OKKUR finnst þetta ekkert svo ógeðslegt, húmorinn er aðalatriðið. Jafnvel íhaldssömustu kennarar virðast skemmta sér á Sweeney Todd, þessum blóðugasta gamanleik allra tíma. Við áttum nú ekkert endilega von á góðu frá þeim sumum, Herranótt hefur oftast verið með afskaplega virðuleg verk. En leikritið stendur undir nafni, fyrir frumsýningu urðum við uppiskroppa með blóð og þurftum að fá meira í hraðpósti frá útlöndum. Veitti ekki af í morðóða rakarann."

Magnús Ragnarsson formaður Herranætur og Ingólfur Bjarni Sigfússon eru ómyrkir í máli, enda ánægðir með viðtökur enska gamanleiksins Sweeney Todd, morðóða rakarans við Hafnargötu. Þeir félagar og 48 aðrir nemendur Menntaskólans í Reykjavík settu rakarann á svið með leikstjóranum Óskari Jónassyni og nemendum af öðru ári Myndlista- og handíðaskóla Íslands sem útbjuggu leikmyndina. Davíð Þór Jónsson þýddi og staðfærði leikgerð Christofers Bond frá 1969.

Blóði drifna sögu Sweeney Todd má þó rekja miklu lengra aftur. Hún er talin byggjast á atburðum sem raunverulega áttu sér stað á rakarastofum; í Frakklandi undir lok 18. aldar og ef til vill í Skotlandi hundrað árum áður. Sweeney var fyrst getið á prenti í bresku vikublaði 1846. Hann varð höfuðpaur vinsællar framhaldssögu og árið eftir var fyrsta leikgerð hennar frumsýnd. Síðan hefur rakarinn blóðþyrsti birst leikhúsgestum oft, einnig í söngleikjum og meira að segja ballett. En skopið var illa fjarri þar til í útgáfu Bonds. Í meðförum hans varð hryllingssagan svört kómedía, eða rauð ef út í það er farið.

Söngleikurinn um Sweeney hefur í vetur verið sýndur í Royal National Theatre í Lundúnum, en hingað hefur rakarinn ekki komið áður. Magnús kveðst ánægður að Herranótt hafi veðjað á leikrit, ólíkt flestum leikfélögum menntaskólanna sem séu með söngleiki í vetur. Hann segir að blóðslettur og viðlíka tilþrif virðist ekki fara illa í áhorfendur, enda sé mest lagt upp úr spauginu. Kannski sé unga kynslóðin orðin ýmsu vön úr sjónvarpi og bíó. Svokallaðar splattermyndir virðist í tísku um þessar mundir. "En við sitjum ekki heima og horfum á svoleiðis," bætir Ingólfur við, "það er af og frá. Lundúnaþokan heillaði í Sweeney og skuggalegir atburðir eru þar settir í skemmtilegt ljós. Húmorinn höfðaði til okkar fyrst og síðast."

Leikmynd nokkurra myndlistarnema hefur að sögn félaganna vakið athygli. Hún er háreist og með vilja gerð eilítið ótraustleg - til að auka á spennuna. Áhorfendur sjá inn í hús dómarans, bökugerðarkonunnar og rakarans, frá kjallara upp í rjáfur. Með einföldum breytingum verður vistarvera í húsinu að hæli, krá eða markaðstorgi. "Svo eru alls konar tæknibrellur," segir Ingólfur, "fólk hverfur úr rakarastólnum niðrum rennu og hafnar í kjallaranum, við erum svolítið aum í leikfimi daginn eftir sýningu."

Grimmileg iðja rakarans verður leigusala hans til framdráttar. Bökusölukonan frú Lovett fer loks að gera það gott og ekki orð um það meir. Hins vegar má að sögn Herranæturmanna gjarnan koma fram að í hléum sýningarinnar eru seldar bökur sem áhorfendur hafa þrátt fyrir allt verið sólgnir í.

Fjórar sýningar eru eftir í Tjarnarbíói, í gjöktandi leikmynd við undirleik á gamla fótstigna orgelið úr Dómkirkjunni. Sýnt verður í kvöld og á fimmtudag klukkan 20 og á föstudag og laugardag klukkan 23.

Þ.Þ.

Nokkrir leikenda í morðóða rakaranum Sweeney Todd ásamt leikstjóra.