Strandasýsla Glíman kynnt Laugarhóli. RÖGNVALDUR Ólafsson, formaður Glímusambands Íslands, hefur undanfarna viku, 7.­12. mars, ferðast um og kennt glímu í grunnskólum sýslunnar og haldið mót.

Strandasýsla Glíman kynnt Laugarhóli.

RÖGNVALDUR Ólafsson, formaður Glímusambands Íslands, hefur undanfarna viku, 7.­12. mars, ferðast um og kennt glímu í grunnskólum sýslunnar og haldið mót. Auk grunsnkólakynningarinnar sá hann um glímumót á 70 ára afmæli ungmennafélagsisn Neista á Drangsnesi, en það var mjög fjölmennt mót og nær allir íbúar þorpsins mættir til leiks og kaffidrykkju.

Glímusamband Íslands hefir sent formann sinn, Rögnvald Ólafsson, sem sendiherra og kennara í alla grunnskóla Strandasýslu, sem komist varð í vegna færðar, undanfarna viku. Þessi erindrekstur og kennsla er undanfari þess að haldið verður Grunnskólamót í glímu fyrir alla grunnskóla landsins, á Blönduósi 19. mars. Sigurvegarar á því móti verða "Grunnskólameistarar" hver í sínum bekk, frá fjórða til tíunda bekk, og á þetta við bæði um drengi og stúlkur, en þær koma æ sterkar inn í myndina í þessari íþrótt í anda jafnræðis.

Rögnvaldur var í Klúkuskóla í Bjarnarfirði 10. mars og kenndi þar bæði glímu og hélt mót. "Glímukóngur" skólans varð Steinar Þór Baldursson, en hann lagði alla keppinauta sína.

Daginn áður hafði Rögnvaldur verið á Drangsnesi, en þar hafði hann bæði kennt glímu og æft í grunnskólanum, auk þess sem hann hélt mót í skólanum og einnig af tilefni 70 ára afmælis Ungmennafélagsins Neista á Drangsnesi. Í skólanum urðu glímukóngar hinna ýmsu bekkjardeilda sem hér segir: 4.­5. bekkur, Magnús Guðmundsson, 6. bekkur, Aðalbjörg Óskarsdóttir, 7. bekkur, Eva Björg Einarsdóttir, 8. bekkur, Magnús Ómar Erlingsson, og 10. bekk sigraði svo Oddný Ágústa Hávarðardóttir.

Á Neistamótinu varð glímukóngur í hópi fullorðinna, Vignir Barði Einarsson, en í yngri hópi 7.­9. ára varð Anna Guðrún Haraldsdóttir sigurvegari.

Þá hefir Ungmennafélagið Neisti æft körfuknattleik af miklum dugnaði á afmælisárinu. Hafa bæði karlar og konur æft að minnsta kosti tvisvar í viku í íþróttasal Klúkuskóla á Laugarhóli í Bjarnarfirði.

­ S.H.Þ.

Morgunblaðið/Sigurður H. Þorsteinsson

Viðurkenningar veittar

Formaður Glímusambands Íslands afhendir viðurkenningar í Klúkuskóla. Talið frá vinstri: Eysteinn Pálmason 3. bekk, Steinar Þór Baldursson, glímukóngur, Rögnvaldur Ólafsson, formaður Glímusambandsins, Finnur Ólafsson 4. bekk og Sölvi Þór Baldursson 6. bekk.