Tæring fannst við skoðun á Eydísi VIÐ ársskoðun sem nú stendur yfir á Eydísi, Boeing 737 þotu Flugleiða, fannst tæring í yfirborði á búk vélarinnar og hefur verið óskað eftir leiðbeiningum verksmiðjanna um hvernig best sé að gera við þann stað þar sem...

Tæring fannst við skoðun á Eydísi

VIÐ ársskoðun sem nú stendur yfir á Eydísi, Boeing 737 þotu Flugleiða, fannst tæring í yfirborði á búk vélarinnar og hefur verið óskað eftir leiðbeiningum verksmiðjanna um hvernig best sé að gera við þann stað þar sem tæringin fannst. Kristinn Halldórsson tæknistjóri Flugleiða sagðist ekki eiga von á að vélin myndi tefjast af þessum sökum, en ársskoðun á henni lýkur að viku liðinni.

Kristinn sagði að þegar ársskoðun á vélunum færi fram væri leitað ítarlega eftir hugsanlegum göllum og við þá leit hefði tæringin fundist. Hann sagði að í gömlu flugvélum Flugleiða hefði tæring af þessu tagi oft fundist.

"Þetta er næstelsta vélin okkar núna, en við áttum hins vegar ekki von á að þetta myndi koma strax. Tæring í áli getur myndast út af mörgu, t.d. vegna mismunandi málmleiðni eða að ekki hafi verið nægilega vel frá vörnum gengið, málningu og öðru. Þegar tæring sést er hún strax hreinsuð út og er þá farið eftir ákveðnum stöðlum, en þar sem þetta er tiltölulega ný flugvél vildum við láta Boeing vita um þetta," sagði hann.