Minning Anna Busk Fædd 20. apríl 1905 Dáin 5. mars 1994 Hún Anna mín er dáin. Þrátt fyrir háan aldur átti ég alls ekki von á því að hún færi svona fljótt. Aðeins nokkrir dagar liðu frá því að hún veiktist alvarlega þar til hún var látin. Ég kynntist Önnu fyrir þremur árum er ég réðst til hennar sem heimilishjálp og hélt áfram sambandi við hana eftir að ég fór í annað starf.

Anna var mér alltaf mjög góð og afskaplega þakklát fyrir allt sem fyrir hana var gert, hversu smávægilegt sem það var. Hún var afar reglusöm og þrifin og vildi hafa alla hluti á hreinu. Anna hafði aldrei skuldað neinum neitt á sinni löngu ævi og var ekki í rónni ef hún hélt að hún skuldaði einhverjum. Hún átti erfitt með að skilja nútíma hugsunarhátt, eins og t.d. að taka lán og kaupa á afborgunum. Ekki var hún heldur ýkja hrifin af nútíma barnauppeldi og fjölskyldulífi almennt.

Við áttum margar góðar stundir við eldhúsborðið þar sem við röbbuðum saman um heima og geima. Anna sagði mér margar sögur frá gömlum dögum, bæði frá æskustöðvum sínum og eftir að hún fór að heiman á unglingsaldri. Þá var hún í fyrstu hjá Ástu systur sinni og mági sínum, Lúðvíki Norðdahl, lækni á Selfossi. Þar hjálpaði hún til á heimilinu og aðstoðaði við uppskurði og ýmiss konar læknisstörf og hafði mikla ánægju af. Anna hefði áreiðanlega orðið góður læknir, enda eru margir læknar í ættinni.

Anna vann mestallan sinn starfsaldur við verslunarstörf, bæði í Reykjavík og í Vestmannaeyjum. Reglusemi hennar og nákvæmni nutu sín áreiðanlega vel í því starfi.

Mestan hluta ævinnar hafði Anna haft margt fólk í kringum sig, sem dvaldi hjá henni í lengri eða skemmri tíma. Því voru það mikil umskipti þegar hún var orðin ein og kunni hún því afar illa að hafa engan til að hugsa um. Eiginmaður hennar, Henning Busk, sem var danskrar ættar, lést fyrir tíu árum. Þá fannst Önnu lífið vera búið. Hún náði sér aldrei að fullu eftir það áfall. Hún átti besta mann í heimi, eins og hún sagði oft.

Þau eignuðust einn son, Eyjólf Þór Busk, tannlækni, sem kvæntur er þýskri konu, Ursulu, og hafa þau búið í Þýskalandi undanfarin sextán ár, ásamt sonum sínum, Henning, Jens og Alexander. Anna var mjög stolt af fjölskyldu sinni og ekki að ástæðulausu. Nýlega bættist svo í hópinn lítill "langömmustrákur", Benjamín, sonur Hennings og Söndru, konu hans. Hún kom í heimsókn fyrir nokkrum vikum með litla soninn og hafði Anna mjög gaman af að sjá hann, sem vonlegt var.

Anna þráði að komast til Þýskalands í heimsókn til fjölskyldu sinnar, en þrjú ár voru síðan hún var þar síðast. Heilsan hafði ekki leyft löng ferðalög en hún var ákveðin í að fara þangað í vor, ef nokkur möguleiki væri. Í þess stað fór hún í ferðina löngu, sem á fyrir okkur öllum að liggja.

Anna mín. Ég þakka þér innilega fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Ég á eftir að sakna þín mikið. Nú ertu komin til hans Hennings þíns, sem þú saknaðir svo mjög. Hann hefur áreiðanlega tekið vel á móti þér.

Því miður gat ég ekki fylgt Önnu síðasta spölinn, þar sem ég lá á sjúkrahúsi, en hugur minn var hjá henni.

Ég votta syni Önnu, tengdadóttur og sonum þeirra, innilega hluttekningu í sorg þeirra.

Hvíli hún í friði. Kær kveðja,

Jóhanna Eyþórsdóttir.