Skjár 1 Ekki nauðsynlegur.
Skjár 1 Ekki nauðsynlegur.
Það eru ekki góðar fréttir að Skjár 1 ætli að fara að selja áskrift að stöðinni, í það minnsta fyrir undirritaðan sem má ekki við því að greiða 2.200 krónur fyrir sjónvarpsstöð ofan á alla reikningasúpuna.
Það eru ekki góðar fréttir að Skjár 1 ætli að fara að selja áskrift að stöðinni, í það minnsta fyrir undirritaðan sem má ekki við því að greiða 2.200 krónur fyrir sjónvarpsstöð ofan á alla reikningasúpuna. Nægur er nú kostnaðurinn af því að hafa síma og internet og borga skylduáskrift að Ríkisútvarpinu.

Það má þó búast við því að margir gerist áskrifendur því í raun eru 2.200 krónur ekki mikill peningur fyrir mánaðaráskrift að sjónvarpsstöð, rétt rúmar fjórar myndbandsspólur. Spurningin er þó hvort stöðin sé þess virði. Nokkrir góðir erlendir þættir eru sýndir á henni, t.d. 30 Rock , Family Guy og af íslenskum þáttum standa þeir Sölvi Tryggvason og Karl Berndsen sig ágætlega í sinni þáttagerð.

En er ekki hætta á því að fólk sleppi hreinlega áskrift og fari þess í stað að hala niður sjónvarpsþáttum af netinu? Varla er nú mikill missir að öllum raunveruleikaþáttunum, t.d. þessum með vælandi unglingsstelpum sem dreymir um að verða ofurfyrirsætur. Vel má vera að áskriftarleiðin bjargi stöðinni og vonandi gerir hún það, starfsfólks hennar vegna. En undirritaður mun ekki finna mikinn mun á sínu daglega lífi við það að missa af Skjá 1.

Helgi Snær Sigurðsson