Jónsi Er fimur í falsettunni eins og reyndar fleiri dægurlagasöngvarar.
Jónsi Er fimur í falsettunni eins og reyndar fleiri dægurlagasöngvarar. — Morgunblaðið/Eggert
Eftir Árna Matthíasson arnim@mbl.is FALSETTUSÖNGUR er til margs brúklegur; hann kreistir fram tárin á miðaldra konum þegar James Blunt emjar og fær loðna þungarokkara til að vikna þegar Rob Halford skrækir og emjar.
Eftir Árna Matthíasson

arnim@mbl.is

FALSETTUSÖNGUR er til margs brúklegur; hann kreistir fram tárin á miðaldra konum þegar James Blunt emjar og fær loðna þungarokkara til að vikna þegar Rob Halford skrækir og emjar. Fremstur allra rokkara í falsettunni var náttúrlega Roy Orbison, en ýmsir beittu henni líka með góðum árangri, til að mynda Frankie Valli, sem byggði allan sinn feril á efstu þrepum tónstigans, og Yma Sumac, þótt það sé umdeilt hvort konur geti yfirleitt sungið í falsettu.

Jón Þór Birgisson , Jónsi í Sigur Rós, syngur gjarnan í falsettu sem dæmin sanna og allir þekkja. Söngur hans er eitt það helsta sem heillar aðdáendur hljómsveitarinnar.

Margir þekkja líka Antony Hegarthy , sem leiðir Antony and the Johnsons og hefur sungið hér á landi í þrígang. Hann er með eina eftirminnilegustu rödd sem um getur í rokki nú til dags.

Justin Vernon, sem tók sér listamannsnafnið Bon Iver , er frægur fyrir sína lágstemmdu falsettu. Sjá til að mynda plötuna frábæru For Emma, Forever Ago.

Annar framúrskarandi söngvari sem rennir sér títt í falsettuna er Ryan Beattie sem syngur með Himalayan Bear og Chet og spilar á gítar í Frog Eyes. Eins og heyra má á söng hans er hann undir miklum áhrifum af sönghefð á Hawaii.

Í Frog Eyes ræður Carey Mercer ríkjum, semur lög og texta og spilar á gítar og svo syngur hann eins og engill, rennir sér upp og niður tónstigann af mikilli íþrótt.

Thom Yorke , sem er fremstur meðal jafningja í Radiohead, bregður iðulega fyrir sig falsettunni.

Annar indíbolti sem syngur gjarnan í falsettu er Bradford James Cox , sem fer fyrir Deerhunter og heldur að auki úti sólóverkefninu Atlas Sound. Hann lætur sér ekki nægja að syngja heldur leikur hann á flest hljóðfæri sem hægt er að hugsa sér.

Frændi vor, Morten Harket , söngspíra a-ha, er hörkusöngvari og í raun áþekkur Roy Orbison í því hvað hann ferð áreynslulaust upp og niður í söng sínum, en hann nær ekki að toppa áttundirnar þrjár sem Orbison bjó yfir (sumir segja fjórar).