Ingvi Þór Elliðason
Ingvi Þór Elliðason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingva Þór Elliðason: "Á sama tíma og nauðsynlegt er að lækka ríkisútgjöld og afla meiri tekna verður að gæta þess að skammtímasjónarmið ráði ekki för."
OPINBER stjórnsýsla stendur frammi fyrir miklum áskorunum. Tekjur ríkisins duga ekki lengur fyrir útgjöldum og leitað er logandi ljósi að leiðum til að brúa fjárlagagatið. Augljóst er að verkefnið er ekki einfalt og vanda þarf sérstaklega vel til verka. Á sama tíma og nauðsynlegt er að lækka ríkisútgjöld og afla meiri tekna, verður að gæta þess að skammtímasjónarmið ráði ekki ferðinni. Það er til dæmis skammgóður vermir að draga úr kostnaði við forvarnir í heilbrigðismálum á þessu ári ef það veldur stórauknum kostnaði við meðhöndlun sjúkdóma á næstu árum. Á sama hátt getur verið dýrt þegar upp er staðið að fresta eða falla frá verkefnum sem ljóst þykir að muni skila miklum ávinningi, t.d. fjárfesting í rafrænni stjórnsýslu eða framlög til nýsköpunar. Hér gilda í raun svipuð lögmál og í almennum rekstri fyrirtækja, þótt vissulega séu markmið og forsendur um margt ólíkar.

Við skoðun á útgjöldum ríkisins er skynsamlegt að hafa tvær lykilspurningar í huga. Fyrri spurningin snýst um tilganginn – í hvaða málefni og verkefni setjum við fjármuni ríkisins? Hin spurningin snýst um útkomuna – hvað fáum við fyrir peningana? Ef fjármunum er ráðstafað til verkefna í þágu almennings og þau verkefni eru leyst á skilvirkan hátt er ráðstöfun fjármuna skynsamleg, annars ekki. Þessa hugsun er best að útskýra á myndrænan hátt (sjá mynd 1).

Það ætti ekki að vera markmið í sjálfu sér að minnka ríkisútgjöld ef peningum ríkisins er beint í verðug og arðbær verkefni. Lykilatriðið er að tryggja skynsamlega forgangsröðun og skilvirkni í öllu kerfinu og gæta þess að fjármunum landsmanna sé vel varið. Í dag er þannig augljóst að fjármálakerfið átti að fá meira aðhald frá hinu opinbera á sínum tíma. Niðurskurður á röngum stöðum í dag getur því hugsanlega leitt til margfaldra útgjalda síðar. Fjölmörg dæmi eru til um verkefni sem hafa reynst of dýr og jafnvel óþörf. Eins má segja að kostnaður við svokölluð gæluverkefni, sem og öll óskilvirkni og sóun, séu á engan hátt ásættanleg.

Sem betur fer eru líka til fjölmörg dæmi hjá opinberum aðilum um markvissa og árangursríka vinnu sem hefur skilað betri rekstri og þjónustu. Umferðarstofa hefur til dæmis náð mjög góðum árangri á undanförnum árum og Ríkisskattstjóri hefur unnið markvisst að því að bæta ferli við skattskil og sparað þorra landsmanna þannig mikinn tíma og fyrirhöfn.

Nú er áherslan á að lækka ríkisútgjöld hratt en þá skapast veruleg hætta á að fá einfaldlega aðeins minna af því sama. Skynsamlegra er að horfa ekki eingöngu á kostnaðinn heldur leggja áherslu á betri ríkisrekstur sem felur í sér heildrænni skoðun hluta; markvissa stefnumótun, betri verkferli og skýrari ábyrgð og verkaskiptingu innan stjórnsýslunnar. Ákveða þarf hvaða verkefnum hið opinbera á að sinna og hvaða verkefni eru betur leyst af öðrum. Um leið er mikilvægt að skoða vel hverju má hætta að sinna og leggja af. Í sinni einföldustu mynd má skoða þetta sem tvo valkosti (sjá mynd 2).

Án efa er leið B sú leið sem á að fara. Um það ættu allir að vera sammála. Mikill niðurskurður ríkisútgjalda án nauðsynlegra betrumbóta á rekstri hins opinbera er varhugaverður. Hætt er við því að aðeins sé verið að færa kostnað milli staða eða fresta vandamálum. Það er tiltölulega einfalt að ákveða hversu miklu á að ráðstafa til reksturs hins opinbera, en öllu erfiðara og flóknara er að hámarka það samfélagslega virði sem fæst fyrir fjármagnið. Engar patentlausnir eru til. Ef gera á raunverulegar betrumbætur þarf vilja og kjark, en um leið skipulagningu, þolinmæði og markvissa vinnu starfsmanna ríkisins og utanaðkomandi sérfræðinga á margvíslegum sviðum.

Höfundur er forstjóri Capacent á Íslandi.