Ungur Agnar Kl. Jónsson á yngri árum.
Ungur Agnar Kl. Jónsson á yngri árum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ólaf Egilsson Öld var í vikunni liðin frá fæðingu Agnars Klemensar Jónssonar – eins af mætustu starfsmönnum Stjórnarráðs Íslands í allri sögu þess.
Eftir Ólaf Egilsson

Öld var í vikunni liðin frá fæðingu Agnars Klemensar Jónssonar – eins af mætustu starfsmönnum Stjórnarráðs Íslands í allri sögu þess. – Agnar gegndi mjög mikilvægu hlutverki við meðferð utanríkismála þjóðarinnar í fjóra áratugi og var jafnframt mikilvirkur söguritari. Öll störf sín vann hann af framúrskarandi trúmennsku, eljusemi og vandvirkni.

Agnar var fæddur í Reykjavík hinn 13. október 1909 og lést þar á 75. aldursári hinn 14. febrúar 1984. Hann var sonur Klemensar Jónssonar sýslumanns, bæjarfógeta og alþingismanns á Akureyri, síðar landritara og ráðherra í Reykjavík, og síðari konu hans, Önnu Maríu Schiöth húsfreyju.

Eftir lagapróf frá Háskóla Íslands árið 1933 vann Agnar fyrst stutta hríð í fjármálaráðuneytinu en 1. febrúar 1934 gekk hann í dönsku utanríkisþjónustuna sem annaðist þá samkvæmt Sambandslögum Íslands og Danmerkur frá 1918 framkvæmd íslenskra utanríkismála í umboði hins fullvalda íslenska ríkis. Var það að ráði mágs hans, Tryggva Þórhallssonar forsætisráðherra, sem sá fyrir sér þann tíma að þjóðin sæi sjálf að öllu leyti um þessi mikilsverðu mál og myndi þá þarfnast manna með þekkingu og reynslu af rekstri þeirra. Þegar hernám Danmerkur í síðari heimsstyrjöldinni leiddi til þess að Íslendingar tóku utanríkismálin alfarið í eigin hendur 10. apríl 1940, hafði Agnar verið við störf í danska sendiráðinu í Washington um 2ja ára skeið. Þótti honum sjálfsagt að ganga til liðs við nýstofnaða utanríkisþjónustu síns eigin lands.

Tvö fyrstu árin starfaði Agnar við aðalræðisskrifstofu Íslands í New York en hún var fyrsta sendiskrifstofan sem sett var á fót. Síðan varð frami hans skjótur. Hann var ráðinn deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu 1. október 1942, fyrstur til að bera það starfsheiti í Stjórnarráðinu, og falið að annast upplýsinga- og kynningarmál. Liðu svo ekki nema 16 mánuðir uns hann í janúarlok 1944 tók við starfi skrifstofustjóra, eins og ráðuneytisstjórar voru þá nefndir. Í mörg horn var að líta og má nærri geta að reynt hefur á hinn 34 ára gamla ráðuneytisstjóra. Framundan var stofnun lýðveldisins þá um sumarið, þar sem samskipti við önnur ríki, heimsóknir háttsettra fulltrúa þeirra og ekki síst öflun viðurkenningar ríkjanna á þessu mikilvæga skrefi í sjálfstæðisgöngu þjóðarinnar, skipti land og þjóð afar miklu. En Agnar reyndist alla tíð þeim vanda vaxinn sem á hans herðar var lagður; kom sér vel gott upplag og menntun, og sú starfsreynsla sem hann hafði öðlast í hinni gamalgrónu dönsku utanríkisþjónustu, bæði ráðuneyti og dönsku sendiráði, sem margt mátti af læra. Auk lýðveldisstofnunarinnar kom til kasta ráðuneytisins á þessu tímabili frekari uppbygging utanríkisþjónustunnar og ýmis mikilvæg mál sem miðuðu að því að styrkja lýðveldið í sessi, m.a. aðild að Sameinuðu þjóðunum og fleiri milliríkjastofnunum, svo og ráðstafanir til að tryggja afkomu og öryggi þjóðarinnar til frambúðar. Með samhentu starfi ráðherra og embættismanna var unnið að mótun sjálfstæðrar utanríkisstefnu hins unga lýðveldis. Ríkti bæði þá og síðar af hálfu ríkisstjórna og ráðherra mikið traust í garð Agnars í því lykilhlutverki sem hann var við undirbúning og framkvæmd margra þessara mála.

Margvísleg nefndarstörf, félags- og trúnaðarstörf, sem Agnari voru falin yrði of langt upp að telja. En til að bregða upp mynd af vægi þeirra og fjölbreytni skal getið formennsku í Stúdentaráði Háskóla Íslands 1930-31, setu í nefnd til að ákveða gerð skjaldarmerkis lýðveldisins 1944, ritarastarfa í utanríkismálanefnd Alþingis 1943-51 og 1961-69, formennsku Knattspyrnusambands Íslands frá stofnun 1947 til hausts árið eftir, formennsku í samninganefndum um viðskiptamál við Færeyinga 1945, Breta 1948 og Dani 1949, svo og setu í fríverslunarnefnd til athugunar á markaðsmálum í Evrópu frá 1961 til 1963 er nefndin var lögð niður, í stjórn Sögufélags 1965-69, orðunefnd Hinnar íslensku fálkaorðu 1968-69 og formennsku í nefnd til að endurskoða lögin um utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis 1968.

Það er órækur vottur um fádæma elju Agnars og sagnfræðilegan áhuga, sem rekja má til Klemensar föður hans og föðurafans Jóns Borgfirðings Jónssonar bóksala og fræðimanns, að samhliða áðurnefndum störfum, sem oft urðu erilsöm, auðnaðist honum að vinna þrekvirki á sviði söguritunar. Þar ber hæst ritverkið „Stjórnarráð Íslands 1904-1964“, tvö bindi mikil að vöxtum, sem hið gamalgróna Sögufélag gaf út 1969 og var þá stærsta rit sinnar tegundar er félagið hafði gefið út á nær sjö áratuga ferli sínum. Ritið samdi Agnar að áeggjan dr. Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra er þekkti vel hæfileika Agnars af löngu samstarfi þeirra. Einnig gaf Agnar þrívegis út Lögfræðingatal (1950, 1963 og 1976), en það hafði einnig gert faðir hans. Fylgir síðustu útgáfunni ritgerð Agnars um þróun laganáms allt frá 10. febrúar 1736, þegar opinbert próf við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla var með konunglegri tilskipun gert að skilyrði fyrir dómaraembætti eða málfærslumannssýslan, og fram til ársins 1975. Af öðrum ritstörfum Agnars er sérstök ástæða til að geta ritgerðar hans um föður sinn í bókinni „Faðir minn“ sem út kom 1950 með þáttum um marga þjóðkunna menn ritaða ýmist af sonum eða dætrum þeirra. Ótal tímaritsgreinar, einkum um utanríkisþjónustuna og efni tengd henni, liggja eftir Agnar. Öll eru skrif hans hin vönduðustu og heimildargildi þeirra mikið.

Engan er fremur hægt að nefna föður íslensku utanríkisþjónustunnar en Agnar Kl. Jónsson, svo margháttað, langt og giftudrjúgt starf sem hann vann að alhliða uppbyggingu hennar og mótun. Hafa þó margir aðrir mætir menn einnig átt þar hlut að máli. Agnar hafði sem ráðuneytisstjóri góða yfirsýn yfir starfsemina, fékk til sín samrit allra bréfa sem send voru út í nafni ráðuneytisins, og lét sig allt skipta sem gat orðið henni til eflingar. Honum var mikið í mun að fylgt væri í hvívetna þeim hefðum og venjum í milliríkjasamskiptum sem myndast hafa í tímans rás og þjóna þeim tilgangi að greiða fyrir árangri og forða misskilningi milli þjóða sem búa við ólíka menningu. En árvekni hans laut líka að þáttum eins og skjalasafni ráðuneytisins sem undir handarjaðri hans og góðra skjalavarða fékk á sig orð í Stjórnarráðinu fyrir að vera öðrum skjalasöfnum skipulegra og traustara; voru þess jafnvel dæmi að fljótlegra þætti að leita þangað en í eigin ranni, ef hafa þurfti upp á skjali sem átti að vera til á báðum stöðum. Þá er vert að nefna að aðhald í fjármálum utanríkisþjónustunnar var Agnari tamt, enda mála sannast að í þann taum er meira haldið en ókunnugir láta stundum í veðri vaka. Er þeim er þetta ritar ekki hvað síst minnisstætt hve hart Agnar gekk fram í sparnaðinum, meðan þjóðin var að vinna sig í gegnum erfiðleikaárin 1967-1969 þegar síldveiðar brugðust og verðfall varð á flestum útflutningsafurðum.

Agnar sýndi starfsfólki sínu traust. Viðhorf hans var það að öllu skipti að hafa á að skipa starfshæfu fólki og væri þá hvorki heppilegt né nauðsynlegt að hafa stöðug afskipti af verkum þess. Lét hann þannig starfsfólki sínu allajafna eftir að meta hvenær það þarnaðist leiðsagnar hans og var þá ávallt viðmótsþýður og fús að fullmóta með því úrlausn máls. Oftast tók það skamma stund, enda var hann ríkur af reynslu og hafði ekki önnur viðmið en réttsýni og sanngirni. En Agnar var hafsjór af fróðleik því áhugasviðið var vítt, athyglisgáfan skörp og minni hans traust. Og hann var sér ugglaust meðvitandi um mikilvægi þess fyrir stofnun á borð við ráðuneyti eða sendiráð að kynslóð geti lært af kynslóð, ekki síst þar sem fordæmi og vitneskjan um þau vegur jafnan þungt, þegar vanda skal meðferð mála og gæta þess að réttur einstaklinga sem á ýmsum tímum eiga skipti við stjórnvöld sín haldist jafn og sanngjarn. Þannig varð oft lengri seta í skrifstofu Agnars en tilefnið krafðist. Leiftrandi frásagnargáfa hans af atvikum, mönnum og málefnum naut sín á óviðjafnanlegan hátt. Vera má að hraðastjórnun nútímans kunni lítt að meta þann tíma sem þannig leið. En þeir sem sjálfir upplifðu hefðu síst viljað hafa farið þessara stunda á mis og geta borið um hve oft, og stundum löngu seinna við óvæntar og erfiðar aðstæður, sú vitneskja sem Agnar þarna miðlaði átti eftir að reynast ómetanlega hagnýt. Það fólst dýrmæt reynsla í því að starfa undir stjórn Agnars Kl. Jónssonar, auk ánægjunnar sem því fylgdi svo oft.

Agnar var mikill hamingjumaður í einkalífi sínu því þau voru afar samrýnd hann og lífsförunautur hans Ólöf Bjarnadóttir vígslubiskups Jónssonar Dómkirkjuprests, fyrsta heiðursborgara Reykjavíkur, og Áslaugar Ágústsdóttur konu hans. Þau gengu að eigast tveimur dögum áður en Agnar tók við ráðuneytisstjórastarfi í fyrra sinnið og höfðu nýlega fagnað 40 ára hjúskaparafmæli sínu þegar hann lést. Framkoma þeirra hjóna var jafnan látlaus en yfir henni glæsibragur. Fallegasta húsið í embættismannagötunni við Tjörnina, Tjarnargata 22, var umgjörðin um fagurt og hlýlegt heimili þeirra. Þau sómdu sér vel hvar sem þau fóru – og unnu ættlandi sínu og þjóð mikið gagn heima og heiman.

Við fráfall Agnars komst Geir Hallgrímsson, sem þá var utanríkisráðherra, svo að orði: „Stefnufastari eða traustari mann en Agnar var í starfi og dagfari öllu gat ekki, enda vann hann sér og landi sínu virðingu allra þeirra sem hann átti skipti við erlendis sem hérlendis ... Samstarfsmenn mátu manninn Agnar Kl. Jónsson mikils, hlýjan, mikinn persónuleika, sagnafróðan og gamansaman, þegar svo bar undir, vandan að virðingu sinni og lands síns.“ Þetta eru orð að sönnu. – Allur ferill Agnars Kl. Jónssonar var með þeim hætti að hans mun ávallt verða minnst sem eins af merkustu embættismönnum Stjórnarráðs Íslands og nýtustu þegnum þessa lands.

Óbilgirni Breta

Fyrsta sendiherrastarfið sem Agnar gegndi var í London (1951-56). Sökum þess vanda sem íslenska þjóðin á nú við að etja er vert að nefna, að í fyrstu sendiherrastörfum Agnars Kl. Jónssonar á erlendri grund komu m.a. til hans kasta samskipti við breska ráðamenn, þ. á m. hinn kunna utanríkisráðherra Anthony Eden, vegna harkalegra viðbragða í Bretlandi við útfærslu íslensku fiskveiðilandhelginnar 1952 úr 3 í 4 sjómílur frá grunnlínum sem dregnar voru þvert fyrir mynni fjarða og flóa. [Áður höfðu breskir togarar getað fiskað hér upp að ströndum í skjóli samnings sem Danir höfðu gert árið 1901 til 50 ára gegn hlunnindum fyrir danskt svínaflesk á Bretlandsmarkaði. Breskir útgerðarmenn reyndu með löndunarbanni að knýja Íslendinga til að hverfa frá útfærslunni. Það sem í húfi var fyrir þjóðina er ljóst af þeirri staðreynd að sjávarafurðir voru nær 95% heildarútflutnings hennar um þetta leyti. En óbilgirni Breta bar ekki árangur, því þá lánaðist að bjarga útflutningshagsmununum í óvæntri átt með verslunarviðskiptum við Sovétríkin. Þau viðskipti áttu eftir að gefast vel og standa í áratugi, þótt um væri að ræða helsta andstæðing Atlantshafsbandalagsins.] Þvínæst varð Agnar sendiherra í París (1956-61), uns hann tók við ráðuneytisstjórastarfi að nýju og gegndi því sem næst út áratuginn. Hann var þannig ráðuneytisstjóri í alls 16 ár, miklum mun lengur en nokkur annar til þessa dags. Að því loknu tóku enn við sendiherrastörf, nú í Oslo (1969-76), og loks Kaupmannahöfn (1976-79). – Auk dvalarlandanna fjögurra sinnti Agnar á starfstíma sínum erlendis sendiherrastörfum í 9 Evrópulöndum öðrum, þ.e. Hollandi, Spáni, Portúgal, Ítalíu, Belgíu, Grikklandi, Póllandi, Tékkóslóvakíu og Tyrklandi, auk svo Ísraels. Var Agnar sæmdur æðstu heiðursviðurkenningum margra þessara landa, auk stjörnu stórriddara Hinnar íslensku fálkaorðu. Það fór einkar vel á því – og gladdi Agnar – að löngum og farsælum embættisferli hans á sviði utanríkismála skyldi ljúka þar sem hann hófst, í hinni gömlu höfuðborg við Eyrarsund.

Höfundur er fyrrverandi sendiherra.