Ræða stöðuna „Við hyggjumst á næstunni ræða við bankastjóra nýju bankanna almennt um skuldastöðuna,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS
Ræða stöðuna „Við hyggjumst á næstunni ræða við bankastjóra nýju bankanna almennt um skuldastöðuna,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Eftir Önund Pál Ragnarsson onundur@mbl.is BANKAR hafa að undanförnu boðið eigendum smábáta talsverða niðurfærslu á höfuðstól lána.
Eftir Önund Pál Ragnarsson onundur@mbl.is
BANKAR hafa að undanförnu boðið eigendum smábáta talsverða niðurfærslu á höfuðstól lána. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur Kaupþing boðið nokkrum fjölda smábátaeigenda 35-45% niðurfærslu á höfuðstól gengistryggðra lána, en Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur að undanförnu aðstoðað nokkra tugi manna úr sínum röðum í samningaviðræðum við banka.

Aðspurður neitar Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS, þessu ekki. „Lánastofnanir hafa boðið mönnum leiðréttingu lána, en það er oftast bundið þeim skilyrðum að menn samþykki að lánin verði færð yfir í verðtryggðar íslenskar krónur. Það hugnast mönnum ekki, nema til komi viðunandi vaxtakjör,“ segir Örn.

Vilja þétta raðirnar

Í ræðu sinni á ársfundi LS fyrir helgi sagði formaðurinn, Arthur Bogason, að við gengishrun krónunnar hefðu skuldir sjávarútvegsfyrirtækja breyst í hrein og klár skrímsli.

Á síðustu mánuðum, í tíð Jóns Bjarnasonar sem sjávarútvegsráðherra hefur þrýstingur aukist mjög á smábátaeigendur um að þeir færi lán sín í íslenskar krónur og breyti skilmálum. „Enn er mér ókunnugt um að nokkur smábátaeigandi hafi samþykkt slíkt þrátt fyrir að í boði væri umtalsverð niðurfærsla láns,“ sagði Örn á ársfundinum. Stjórn LS reynir nú að þétta raðir trillukarla gegn bönkum og yfirvöldum, svo þeir standi sterkari sameinaðir en sundraðir gegn þrýstingnum.

„Við hyggjumst á næstunni ræða við bankastjóra nýju bankanna almennt um skuldastöðuna hjá smábátaeigendum og okkar hugmyndir um leiðréttingu,“ segir Örn í samtali við Morgunblaðið. Á ársfundinum útlistaði hann þær: að erlend lán verði leiðrétt, höfuðstóll miðist við 1. mars 2008, mismunur á vaxtagreiðslum, sem greiddar hafa verið í frystingu og leiðréttum höfuðstól, verði notaður til að greiða niður höfuðstólinn enn frekar og að vextirnir verði óbreyttir.

„Ég tel að allir þeir sem ekki voru í vandræðum með afborganir 1. mars 2008 ættu að geta staðið í skilum með þessum hætti,“ segir hann.

Slæm ráðgjöf banka í góðærinu

Í góðærinu var ráðgjöf bankanna til smábátaeigenda oft mjög gölluð og miklu frekar var einblínt á vaxtamun en áhættuþætti. Á ársfundi LS var sýnd niðurstaða könnunar á því hvernig verðvísitala botnfiskaflans hefur á síðustu árum þróast, í samanburði við verð helstu gjaldmiðla sem lánað var í.

Hún sýnir að það var og er mjög áhættusamt að lána í jenum til sjávarútvegsins, en mörgum var þó ráðlagt að taka slík lán. Yfirlitið sýnir 86% fylgni verðvísitölu botnfiskaflans við gengi evrunnar, 77% fylgni við sterlingspundið, en ekki nema 39% fylgni við gengi jensins. „Líklegt er að fáir hafi fengið þessa ráðgjöf þegar ákvörðun um lán var tekin,“ sagði Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS, í ræðu sinni á landsfundinum.