15. apríl 1988 | Innlendar fréttir | 159 orð

Félagsmálaráðuneytið: Berglind Ásgeirsdóttir skipuð ráðuneytisstjóri

Félagsmálaráðuneytið: Berglind Ásgeirsdóttir skipuð ráðuneytisstjóri FORSETI Íslands hefur, samkvæmt tillögu félagsmálaráðherra, skipað Berglindi Ásgeirsdóttur sendiráðunaut, til að vera ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu frá 1. september...

Félagsmálaráðuneytið: Berglind Ásgeirsdóttir skipuð ráðuneytisstjóri

FORSETI Íslands hefur, samkvæmt tillögu félagsmálaráðherra, skipað Berglindi Ásgeirsdóttur sendiráðunaut, til að vera ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu frá 1. september næstkomandi að telja. Þá lætur Hallgrímur Dalberg af embætti fyrir aldurs sakir.

Berglind Ásgeirsdóttir er 33 ára gömul, fædd 15. janúar 1955. Hún útskrifaðist úr lagadeild Háskóla Íslands árið 1978 og hlaut Master of Arts gráðu í alþjóðasamskiptum frá háskólanum í Boston árið 1985. Berglind fékk leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 1986. Hinn 1. janúar 1979 var hún ráðin fulltrúi í utanríkisráðuneytinu, síðan sendiráðsritari í Bonn 1981-1984 og sendiráðunautur í Stokkhólmi frá 1984. Berglind er fyrsta konan sem gegnir embætti ráðuneytisstjóra.

Umsóknarfrestur um embætti ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu rann út 25. mars síðastliðinn. Umsækjendur voru níu og óskaði einn þeirra nafnleyndar. Hinir voru, auk Berglindar, þau Dögg Pálsdóttir, deildarstjóri, Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, deildarstjóri, Húnbogi Þorsteinsson, skrifstofustjóri, Ingimar Sigurðsson, deildarstjóri, Jón Ingimarsson, skrifstofustjóri, Sigríður Ingvarsdóttir, héraðsdómari og Þórhildur Líndal, deildarstjóri.

Berglind Ásgeirsdóttir

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.