Margrét Oddsdóttir fæddist í Hlíð í Kollafirði, Strandasýslu, 7. janúar 1928. Hún lést á Sjúkrahúsi Akureyrar 11. apríl sl. Margrét var áttunda barn hjónanna Sigríðar Jónsdóttur, f. 25. apríl 1889, d. 13. október 1958, og Odds Lýðssonar hreppstjóra, f. 7. nóvember 1884, d. 28. október 1936. Sigríður var frá Tröllatungu í Steingrímsfirði en móðurætt hennar kemur frá Þorskafirði og föðurættin frá Laugabóli við Ísafjörð. Oddur var aftur á móti af kunnri Strandaætt, Ennisættinni frá Skriðnesenni. Börn þeirra hjóna urðu alls tíu, fimm dætur og fimm synir. Yngsta dóttirin, Elín, fædd 1930, er nú ein eftirlifandi þessara systkina. 1934 flytur Oddur með fjölskylduna búferlum úr Strandasýslunni og sest að á Glerá, skammt ofan við Akureyri. Margrét, sem er sex ára er þetta gerist, er því alin þar upp með móður sinni til 18 ára aldurs að hún fer að heiman. Hún nam í Barnaskóla Glerárþorps fram að fermingu en fór síðan í Gagnfræðaskóla Akureyrar og varð gagnfræðingur þaðan. Hún starfaði á myndastofunni Polyfoto þar til hún fór í Húsmæðraskóla Akureyrar. Að því loknu vann hún eitt sumar á Laugarvatni en kom heim og fór að starfa ásamt systrum sínum, Ragnheiði og Elínu, á Hótel KEA. Á þessum árum kynnist hún eftirlifandi eiginmanni sínum, Jóni E. Aspar, loftskeytamanni og síðar skrifstofustjóra Útgerðarfélags Akureyringa í yfir 30 ár. Hann er fæddur Akureyringur en foreldrar hans koma bæði úr Strandasýslu. Margrét og Jón hófu búskap 1950 og giftu sig 19. maí 1951. Þau byggðu sér einbýlishúsið Ásveg 31 og hafa búið þar síðan 1956. Þau eignuðust tvö kjörbörn, Sigríði Oddnýju, f. 10. október 1960, og Halldór, f. 5. júní 1966. Sigríður Oddný er gift Skúla Magnússyni, f. 12. maí 1959, og eiga þau tvö börn, Margréti, hennar sambýlismaður er Bragi Thoroddsen, og Magnús Ágúst, dóttir hans er Emelía Valey. Útför Margrétar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, föstudaginn 24. apríl, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Elsku frænka okkar hún Magga er dáin.

Þessar línur passa eitthvað svo vel á þessari stundu, þegar við minnumst hennar.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Við systur hittumst í mars og komum þá í heimsókn til ykkar Jóns, þá varst þú orðin veik en Jón tók vel á móti okkur. Svo komst þú fram til okkar, meira af vilja en mætti. Við höfðum gert það í nokkur skipti þegar við hittumst á Akureyri að koma í heimsókn og það var farið að dragast á langinn, mikið var það gott að af þessari heimsókn varð.

Ég var svo heppin að fá að njóta þess sem barn að við Soddý þín erum á svipuðum aldri og fékk ég oft að fara með í fjallið á skíði og svo tókuð þið Jón okkur systur líka með á jólaböll. Það var líka gaman að fá að gista hjá ykkur og við Soddý lékum okkur saman.

Ég minnist þess líka þegar ég kom til þín, mig vantaði síðan kjól og ég fékk að máta kjólana þína, við vorum báðar stoltar af því að ég kæmist í kjólana þína og það var auðsótt að fá einn lánaðan.

Elsku frænka það er komið að kveðjustund.

Sigga og Anna þakka fyrir heimsóknir ykkar Jóns og Ragga þakkar fyrir stundirnar á sjúkrahúsinu.

Ferjan hefur festar losað,

farþegi er einn um borð.

Mér er ljúft af mætti veikum

mæla nokkur kveðju orð.

Þakka fyrir heilum huga,

handtak þétt og gleði brag,

þakka fyrir þúsund hlátra,

þakka fyrir liðinn dag.

(Oddný Jónsd.)

Elsku Jón, Halldór, Sjoddý og fjölskylda

Innilegar samúðar kveðjur.

Gugga, Sigga, Ragga, Anna

og fjölskyldur.

Guðbjörg Inga Ragnarsdóttir

Margrét Oddsdóttir eða bara Magga var skörungur, hún var kraftmikil og dugleg, hún átti hvellan og glaðværan hlátur, var hnittin og snögg í tilsvörum, hún Magga var góð kona. Saman stofnuðu þau Jón maður hennar Foreldrafélag barna með sérþarfir hér á Akureyri fyrir margt löngu sem hafði það að markmiði að þjónusta við fólk með fötlun yrði efld og foreldrum gert kleyft að hafa fötluð börn sín heima sem lengst. Jón var formaður í félaginu til margra ára en Magga stóð þétt við bakið á honum og lét sitt ekki eftir liggja og samhent voru þau í öllum málum er lutu að þessu hugðarefni sínu.

Aðdáunarvert var hvað þau Jón lögðu á sig vegna sonar þeirra Halldórs sem er fjölfatlaður og ekki gat Magga hugsað sér að hann flytti á sambýli heldur hugsaði um hann heima til hinstu stundar.

Ég mun sakna Möggu á fundum í félaginu okkar og ég mun sakna samtalanna okkar og ábendinga um hvað mætti betur fara í sambandi við fólk með fötlun. Ég sendi Jóni, Halldóri, Sigríði og fjölskyldu hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Kolbrún Ingólfsdóttir, formaður Þroskahjálpar á Norðurlandi eystra.