Signý Sigurlaug Margrét Þorvaldsdóttir var fædd 27. des. 1916 á Hrollaugsstöðum á Langanesströnd. Hún lést 7. september 2009 á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Foreldrar hennar voru Þorvaldur Kristjánsson, f. 14. janúar 1892, d. 21. mars 1979, sjómaður og bátasmiður og Hallbjörg Daníelsdóttir, húsmóðir, f. 9. júní 1892, d. 12. apríl 1946. Signý var í sambúð með Hallgrími Kristinssyni, f. 6. júlí 1906, d. 9. mars 1980 og eignaðist með honum tvö börn: a) Ara Guðmar f. 24. nóv.1938 í Syðri-Haga í Eyjafirði. Hann er kvæntur Kristínu Ingólfsdóttur f. 5. okt.1941 frá Vatnsdalsgerði í Vopnafirði og eiga þau fjögur börn: Margrét Arna f. 22. nóv.1961, Ingólfur Bragi f. 3. ágúst 1963, Stefanía Hallbjörg f. 18. des. 1969 og Guðmundur Ari f. 4. jan.1977, b) Dórótheu f. 8. maí 1940 í Heiðarhöfn, d. 17. október 2004, var hún ung tekin í fóstur og alin upp af systkinunum Jósef H. Jónssyni og Sigríði A. Jónsdóttur, Skógum, Vopnafirði. Hún var gift Sigurði Magnússyni, d. 2. ágúst 2002. Börn þeirra: Jósef Hjálmar f. 5. ágúst 1961, Magnús Elías f. 17. júlí 1962, Sigríður Aðalborg f. 1. júlí 1963, Hjörtur Þórarinn f. 9. júní 1965, Rósa f. 24. ágúst 1967, Kolbeinn f. 6. júní 1972, Hugrún f. 28. júlí 1973. Signý giftist 12. okt. 1941, Braga Jónssyni verkamanni, f. 26. jan. 1914, d. 26. nóv. 1994. Þau skildu. Þeirra börn: c) Margrét f. 22. maí 1942 á Þórshöfn, maki 29. sept. 1960 Einar Sigurður Sigurfinnsson, d. 19. maí 2004. Þau skildu, þeirra barn Bragi f. 7. júní 1960. Barn hennar með Doil Miller: Grétar Sigurbjörn f. 4. okt.1963. Margrét giftist Kristjáni Arilíussyni f. 12. júní 1946, Stóra-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi. Börn þeirra. Arilíus f. 24. des.1973, Kristín f.22. maí 1981, Jón Þór f. 8. okt.1982. d) Hermann Jónsson f. 5. sept. 1943 á Þórshöfn, börn hans með Dís Guðbjörgu Óskarsdóttur f.10. okt.1943, Signý f. 5. maí 1965, Hafrún f. 31. júní1966. Kona hans Júlíana Kristín Gestsdóttir f. 19. júní 1949, hennar barn: Rúnar Örn Jónsson 5. okt.1967, barn Hermanns og Júlíönu: Dagný Ósk f. 26. júlí 1972, e) Ágúst Þorvaldur, f. 26. feb. 1948, kona Ólína Alda Karlsdóttir, f. 16. mars 1955. Þau skildu. Börn þeirra: Gréta f. 5. des. 1976, Jón Karl f. 8. des. 1978, f) Vilhjálmur Hallbjörn, 4. feb. 1954, kona Fjóla Berglind Helgadóttir f. 21. nóv. 1959. Þau skildu. Börn þeirra: Gréta Björg f. 27. júní 1983, Bragi Freyr 21. okt. 1986. Afkomendur Signýjar eru farnir að nálgast hundrað. Signý ólst að mestu upp á Skálum á Langanesi og Heiðarhöfn í Þistilfirði. Stundaði vinnu og kaupakonustörf á Vopnafirði og víðar. Hún bjó á Neskaupsstað með Braga þar til þau flytjast búferlum í Garðinn á sjötta áratugnum. Þar stundaði hún fiskvinnslustörf og var matráðskona á ýmsum stöðum. Hún flytur til Keflavíkur um 1990 og bjó síðustu æviárin á Suðurgötu 15. Stundaði hún ýmis félagstörf s.s. söng í kór eldri borgara, Eldey, og var lengi í kvenfélaginu Gefn í Garði og var þar heiðursfélagi. Útför hennar fer fram frá Keflavíkurkirkju miðvikudaginn 16. september kl. 11.00.

Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)




Elsku amma mín, takk fyrir allan kærleikann, ástina og hlýjuna.
Minning þín er ljós í lífi mínu.
Þín ömmustelpa,

Gréta Ágústs.

Með þessu ljóði viljum við kveðja elskulega langömmu okkar.

Ljúfi drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni
láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
(Gísli á Uppsölum.)



Sofðu rótt elsku langamma,
Þín,

Viktor Patrik, Katrín Helga Sóldís Kkara og Brynja Dís.

Amma er dáin. Manneskjan sem manni fannst einhvern vegin að yrði eilíf. Og við neyðumst til að kveðja hana fyrir fullt og allt. Það er sárt, en það er hægt að hugga sig við það,að nú líður henni ömmu vel. Hún hefði orðið 93 ára núna í desember, og hafði svo sannarlega lifað tímana tvenna. Maður kom aldrei að tómum kofanum hjá ömmu, og hún þreyttist aldrei á því að segja manni sögur af því, hvernig lífið var, þegar hún var að alast upp. Það var mikil barátta, en amma stóð það af sér með stæl, eins og hún sagði sjálf við mig. Og hló svo. Hún hafði líka rosalega gaman af því að syngja, og ég man eftir því, þegar mamma var með okkur systkinin í heimsókn á Gerðavegi 22, að amma sat við eldhúsborðið og prjónaði, og raulaði með lögunum í útvarpinu. Mér fannst alltaf svo róandi að hlusta á hana. Því að sveitakrakkinn átti oft erfitt með að sofna útfrá bílaumferðinni, og þá var gott að einbeita sér að ömmurauli.

Amma var óskaplega snyrtileg, og ég man aldrei eftir því að hafa séð hana "úfna eins og hænurass í vindi" eins og hún orðaði það sjálf. Hún var alltaf vel til höfð, og fallega klædd, og einu sinni þegar ég var í heimsókn hjá henni, þá fór hún að tala um að nú hefðu neglurnar á henni ekki verið snyrtar og lakkaðar í viku, og bað mig fyrir alla muni að kippa því í lag fyrir sig, því hún var að fara á spilakvöld, og gat ekki hugsað sér að fara með ósnyrtar neglur. Það kom aldrei neitt annað til greina,en að vera í sínu fínasta pússi, og amma lagði alltaf metnað sinn í það.

Það eru svo margar minningar sem tengjast ömmu, og ég gæti setið hér við skriftir fram á nótt, og samt fundist það sem ég skrifa svo lítilfjörlegt. Því að amma var magnaður persónuleiki, og það finnast varla nógu sterk orð til að lýsa henni. En hún lifir áfram í afkomendum sínum, sem eru margir, og ég gat ekki hugsað mér annað en að skíra dóttur mína í höfuðið á henni.  Það kom aldrei neitt annað til greina, og mikið varð hún amma glöð. Og það var yndislegt að hún skyldi ná að sjá litlu nöfnu sína, nokkrum dögum áður en hún lést. Það var í líka í seinasta skiptið sem að ég hitti ömmu og gat spjallað við hana.  Og hún vissi það sjálfsagt, því að hún faðmaði okkur svo fast, og þakkaði okkur fyrir allt saman.

Elsku amma og langamma. Vertu sæl og þakka þér sjálfri fyrir allt saman.  Þín verður svo sannarlega sárt saknað. Hvíldu í friði.

Ástarkveðja,

Kristín og Margrét Signý.

Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífs þíns nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði nú sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.
(Þórunn Sigurðardóttir.)



Kæra Signý. Ástarþakkir fyrir alla elsku og hlýju í
garð barnanna minna í gegnum árin.
Guð geymi þig,


Ólína Karlsdóttir.