Jón Sigurðsson fæddist 16. Júlí 1933 að Leirum Austur-Eyjafjöllum. Hann lést á Elliheimilinu Grund 18. September. Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson, bóndi frá Ásólfsskála, f. 10. September 1902, d. 10. Apríl 1964 og Guðrún María Ólafsdóttir frá Leirum, f. 8. Júní 1908, d. 31. Mars 2000. Systur hans: Málfríður Erna f. 14. Febrúar 1941, d. 10. Ágúst 2007. Margrét Sesselja f. 20. Nóvember 1945. Þorbjörg Fjóla f. 3. Nóvember 1949. Jón giftist Kristínu Ragnheiði Magnúsdóttur frá Flateyri árið 1966. Þau eignuðust fjögur börn: Sigurður f. 28. Ágúst 1967, d. 10. Ágúst 1969. Guðrún f. 17. Febrúar 1970, launafulltrúi og sjálfstæður dreifingaraðili, maki Magnús Már Adólfsson. Börn þeirra eru Óttar Már og Ólöf. Sigurður f. 17. Febrúar 1970, atvinnurekandi, maki Sylke Jónsson. Barn þeirra er Aaron Ra. Magnús f. 9. Nóvember 1972, rekstrarstjóri. Jón var bóndi á Leirum 1 til loka ársins 1965 og flutti þá til Reykjavíkur. Upp frá því vann hann almenna verkamannavinnu meðan heilsan leyfði. Útför Jóns fer fram frá Eyvindarhólakirkju laugardaginn 26. September kl. 14:00

Ég kveð þig Nonni frændi með þakklæti í huga fyrir það að vera góður frændi þegar ég var barn í pössun hjá ömmu og í heimsóknum á Óðinsgötuna. Þú varst svo oft hjá Margréti og ömmu. Engin breyting varð á í gegnum árin, sami hlýleiki og góðvild. Amma elskaði þig og studdi það að bera virðingu fyrir móðurástinni en ekki að dæma það sem kvöð eða skuld. Við systkinin áttum góðar stundir með ykkur ömmu á Leirum, fyrir það höfum við mikið að þakka. Eftir að þú fórst í aðgerð árið 2007 þurftir þú á aðstoð faglærðs fólks að halda. Því fórst þú í hvíldarinnlögn á Grund en innskrifaðist árið 2008. Þú varst ekki ánægður með þau málalok að þurfa að yfirgefa heimili þitt en þú taldir samt að þetta væri besta úrræðið. Á Grund starfar gott fólk sem reyndist þér vel.

Við systkinin, dætur Margrétar, börnin okkar og systur þínar, erum öll sammála að þín verður sárt saknað. En við vitum jafnframt að nú líður þér vel í faðmi fjölskyldunnar sem farin er. Hjálpsemi sem þú þáðir frá fjölskyldunni var veitt vegna væntumþykju og þakklæti fyrir þinn stuðning og aðstoð í gegnum árin. Þú varst ekki í skuld við neinn. Áfengi tekur alltaf sinn toll, bæði fyrir neytanda og fjölskyldu, en sterk tengsl bæta oft upp skaðann. Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum. Það getur verið varasamt að vera dómharður því í leiðinni dæmir maður sjálfan sig.

Kæri móðurbróðir, hvíldu í friði.

Sigurður Þorberg Ingólfsson