Gísli Jónsson fæddist í Holtskoti í Seyluhreppi 10. september 1926. Hann lést á heimili sínu að Miðhúsum í Akrahreppi þann 1. apríl síðastliðinn. Gísli var sonur Þrúðar Aðalbjargar Gísladóttur f. 1888, d. 1928, og Jóns Sigfússonar f. 1901, d. 1989. Gísli var eina barn móður sinnar en hann á eftirlifandi hálfsystur samfeðra, Sigrúnu Jónsdóttur f. 1953. Eiginkona Gísla var Guðrún Stefánsdóttir frá Syðri-Bakka í Kelduhverfi, f. 9. nóvember 1926, en hún lést árið 2003. Börn þeirra Gísla og Guðrúnar eru Jón, f. 1950, Guðbjörg, f. 1952, Stefán f. 1954, Þrúður, f. 1961, og Gísli, f. 1969. Gísli og Guðrún eiga samtals 14 barnabörn og barnabarnabörn. Gísli var ársgamall tekinn í fóstur af afa sínum og ömmu í Miðhúsum, þeim Gísla Þorfinnssyni og Guðrúnu Jónsdóttur. Að þeim gengnum bjó Gísli hjá móðursystkinum sínum, Jóni og Aðalbjörgu, sem þá bjuggu í Miðhúsum. Hann tók seinna við búinu og bjó þar alla sína tíð. Gísli útskrifaðist sem búfræðingur frá Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal 1947. Hann stundaði alla tíð veiðimennsku af kappi, bæði skot- og stangveiði og var hann einnig virkur í kórastarfi í Skagafirði áratugum saman. Gísli verður lagður til hinstu hvílu í sinni heimasveit en útförin fer fram frá Miklabæjarkirkju í Akrahreppi, laugardaginn 18. apríl kl. 14.00. mbl.is/minningar

Skýrasta minningin um afa í Miðhúsum er hvar hann stendur einhvers staðar sunnan við efri bæinn, í brúnum jakka, með húfu sem rétt nær niður að eyrum. Það er haust og hann er að fara að eiga við fé. Tún og móar eru farin að sölna og sólin gægist upp fyrir Akrafjallið því enn er morgun. Hann er með filterslausa sígarettu í munnvikinu og hund eða tvo með sér. Amma er nýbúin að ganga frá í eldhúsinu og komin út, í vínrauðu hettuúlpunni með appelsínugula prjónahúfu. Annar hundurinn hleypur strax til hennar, hún kjassar hann aðeins, biður hann helst lengstra orða að setja sig ekki um. Hersingin gengur af stað suður eftir veginum og í hópinn slást kollótt kind með tvö lömb, gamall heimagangur, og með henni er veturgömul dóttir hennar einnig tvílembd, þau eru öll að fara í fjárhúsin.

Þau lifðu marga svona morgna, amma og afi og minningin um þau er umvafin sömu kyrrðinni og hlýjunni sem þessir morgnar bera með sér. Þau voru af kynslóð sem vílaði ekki fyrir sér erfiðisvinnu dag eftir dag og tókust á við annríki þessa fábreyttu daga með stóískri ró. Við erum svo rík að hafa kynnst þessu fólki. Þau voru ólík, og ekkert alltaf sammála. En það var allt í lagi, vegna þess að á milli þeirra var ást og hlýja sem okkur fannst geta unnið bug á ýmsum vandamálum. Amma flissaði yfir ruglinu í afa og fannst hann alltaf jafn fyndinn, sat í eldhúsinu með prjónana sína eða heklunálina og bjó til enn eitt listaverkið úr lopa og þræði. Afi stríddi ömmu og hafði gaman af því að koma henni til að hlæja. Hann var fiðrildið á meðan hún var tréð.

Við ólumst upp með Gísla Árna eins og hann væri bróðir okkar. Um jólin komu þau öll, og í neðri bæinn þegar búið var að borða og pakkarnir klárir. Amma svindlaði reyndar alltaf og opnaði bæði kortin og pakkana um leið og þeir komu með póstinum. Það var alltaf svolítið spennandi tilhugsun að maður gæti gert þetta þegar maður væri orðinn fullorðinn.

Afi var ævintýramaður, Indiana Jones síns tíma. Hann var vel liðin og greiðagóður, mikið náttúrubarn og veiðimaður af lífi og sál. Okkur var hann alltaf innan handar þótt það örlaði stundum á óþolinmæði þegar við vorum yngri. Hann bætti það alltaf upp á einn eða annan hátt. Fram til síðasta dags mátti sjá lífsgleðina í augunum, sérstaklega þegar hann sagði okkur sögur. Annað hvort frá skólaárunum á Hólum og hrekkjabrögðum sem voru stunduð þar. Eða frá ævintýraferðum með fé þegar þurfti að reka safnið á haustin frá Þverárrétt í Öxnadal og heim í Skagafjörð, þetta var oft stórt safn og gekk á ýmsu. Þá var hann í essinu sínu og það var ótrúlega gaman að hlusta á þær, því hann hafði lag á að segja sögur og var hafsjór af fróðleik.

Þau amma og afi kynntust er hann lærði til Búfræðings á Hólum en amma vann í þvottahúsinu á staðnum. Oft kom einkennilegt blik í augun á gömlu konunni þegar þessar sögur voru rifjaðar upp. Það var greinilega mikið líf og fjör á þessum árum.
Amma hræddist margt í þessum heimi en var samt sterkari en nokkur sem við höfum kynnst, alltaf róleg og hógvær. Hún reyndi að passa upp á ungana sína í öllum landshlutum með óborganlegri yfirvegun og jafnvægi, fylgdist með hvernig gekk og var svo ótrúlega stolt af því hvernig börnum og barnabörnum reiddi af í leik og starfi. Alltaf tók hún á móti okkur eins og við værum týndu börnin að koma heim og sagði oftast að þeir væru sjaldséðir hvítu hrafnarnir núorðið. Loksins komin heim, heim í öruggt umhverfi þar sem nóg var til af hafrakexi og kanelsnúðum og mjólk sem einhvern vegin bragðaðist aldrei betur en akkúrat þar.

Þessi heiðurshjón sem nú eru bæði fallin frá voru fyrirmyndir sem við gleymum aldrei. Þau voru bæði þannig þenkjandi að ekki er ólíklegt að þau fylgist ennþá með ungunum sínum um allt land. Afa gæti alveg dottið í hug að stríða, ennþá. En amma væri bara í uppbyggilegum hlutum. Við höfum alist upp við gleði og hlýju í öruggu umhverfi. Þetta eru atriði sem við höfum reynt að halda í heiðri á okkar heimilum. Því það er eftirsóknarverður hluti að sjá lífið á jákvæðan hátt glaður í bragði, eins og amma og afi gerðu þótt þau hafi vafalaust átt erfiða daga.

Takk fyrir okkur amma og afi uppfrá, og þakkir fyrir það veganesti sem við fengum frá ykkur, það endist okkur alla ævi.
Kveðja,

Garðar, Guðrún, Stefán og fjölskyldur.

Kæri frændi, mig langar til að kveðja þig með nokkrum orðum og þakka þér fyrir okkar góðu kynni. Þú varst veiðimaður og bóndi af guðs náð og ég mun sakna þess þegar ég á leið um Blönduhlíðina  að geta ekki komið við hjá þér og fengið kaffisopa og kökur (ásamt ýmsu öðru) , rætt um refaveiði og fengið nokkrar veiðisögur sem og  vangaveltum um púðurgerðir og hleðslutölum fyrir riffla.  Veiðisögurnar spönnuðu yfir marga áratugi og var gaman að heyra þig lýsa þínum fyrstu árum í refaveiðinni þar sem aðbúnaður og  vopn voru mun lakari en er nú á dögum. Einnig þeirri byltingu sem varð í grenjavinnslu þegar þú fékkst þinn fyrsta riffil.

Þar sem þú varst  aldrei fyrir neitt vol né væl þá ætla ég ekki að fara að skrifa einhverja langloku um þig, en við sem fengum að kynnast þér geymum góðar minningar um þig, húmorinn, umhyggjuna, tilsvörin, hrekkina og glaðværðina í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur.

Ég votta öllu þínu fólki samúð mína, megi guð geyma þig á hinum eilífu veiðilendum þar sem feilskot þekkjast ekki og þeir stóru sleppa ekki.

Þinn vinur og frændi,

Kristján B. Jónsson.