Ólafur Jóhannesson Fæddist í Arnardal, N-Ís 31.mars 1931. Hann lést á Heilbrigðistofnun Suðurnesja 05.september síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jóhannes Guðmundsson, vitavörður, Ísafirði, Norður-Ísafjarðarsýslu og Sigrún Agata Guðmundsdóttir, saumakona, Hafnarhólmi, Steingrímsfirði. Ólafur var yngstur í röð tíu systkina, tvíburi við hann lést í fæðingu. Systkini hans eru Guðmundur Líndal, látinn, Sigmundur, látinn, Sigríður Steinunn, látin, Guðbjörg, býr í Reykjavík, Guðmunda látin, Sigrún Jóhanna, látin, Ólafía býr á Akureyri og Magnús, látinn. Ólafur giftist Evu Pálmadótur 31 ágúst 1957 frá Hafnarfirði fædd 1.september 1929. Foreldrar Evu voru Jón Pálmi Jónsson og Þórlína Sveinbjörnsdóttir. Þau eignuðust eina dóttur og þrjá syni. Þau eru 1)Þórlína Jóna f.22.október 1954. Eiginmaður er Vilhjálmur Eyjólfsson f.27.12.1954. Þau eru búsett í Njarðvík. Þeirra börn eru: 1.a. Eyjólfur Kristinn. Eiginkona Þórdís Elín Kristinsdóttir búsett í Danmörku.. Eyjólfur á Unu Dís Móðir er Kristín Elfa Björnsdóttir. Með Þórdís börnin Vilhjálmur Kristinn, Regína Krista, Gabríela Rósa og Daníela Björg. 1.b. Vilhjálmur Þór maki Halldóra Jóhannsdóttir. Þau eru búsett í Njarðvík. Börn hans eru með Steinunni Ágústsdóttur, Eva Lín. Með Halldóru, Alexandra Björg. Börn Halldóru eru Íris Lea Þorsteinsdóttir og Halldóra Birta Magnusdóttir. 2) Jóhannes f.7.júní 1957,Eiginkona hans er Rósa Björk Guðmundsdóttir f. 12.11.1958. Búsett í Njarðvík. Þeirra börn eru: 2.a. Ólafur . maki Guðrún Sigríður Knútsdóttir. Búsett í Hafnafirðir Þeirra barn eru Bjarki Þór,. 2.b. Þóra maki Þorgeir Karl Gunnarsson búsett í Njarðvík. Þeirra barn er Gunnar Karl . 2.c Eva Rún. 3)Pálmi f.8.október 1961, Maki Jóhanna Malena Karlsdóttir f. 10.07.1960. Búsett í Keflavík. Barn hennar er Helga Arnbjörg Pálsdóttir. 4) Ólafur f.27.september 1964. Maki var Þórný Jóhannsdóttir. Hennar sonur alinn upp af Ólafi er Jón Bergmann Heimisson. Seinni kona Ólafs var Ásta Bjarney Hámundardóttir. Þau slitu samvistum. Þeirra sonur er Atli Jón. Ólafur ólst upp í Súðavík en flutti seinna til Ísafjarðar. Hann lauk fiskimannaprófi frá Sjómannaskólanum í Rvík 1952 og sveinsprófi í múriðn frá Iðnskólanum í Keflavík 1969. Stundaði sjó- og landvinnu víða um land fyrir iðnnám, en múrverk í Keflavík eftir það. Formaður Múrararfélags Suðurnesja í fjölda ára ásamt því að vera varaformaður Múrarasambands Íslands í mörg ár. Ólafur og Eva bjuggu lengst af á Greniteig 10 í Keflavík. Útför Ólafs Jóhannessonar verður gerð frá Keflavíkurkirkju miðvikudaginn 16.september kl.14


Ég kynntist Ólafi Jóhannessyni í gegnum vináttu við Þórlínu dóttur hans og tengdason. Það fór strax vel með á okkur vegna um margt svipaðrar sýnar á fortíðina. Ólafur var úr Djúpinu, þar sem heimsmyndin er fest í tilveru Ísafjarðardjúps. Áttir, veður, sjólag, fiskur og annað náttúrunnar, átti sér stað og stund í Djúpinu.

Ólafur var nútímamaður, en alinn upp aftan úr tíma, þar sem flest var með öðrum hætti. Það lærði ég af frásögn Ólafs um fyrri tíma, að frásögn hans var heillandi og sérstök. Fyrrum gekk ekkert hratt fyrir sig. Ef ferðast þurfti, þá var að ganga eða fara með báti eða skipi. Í yfirferð um land og sjó, þá fylgdi að taka vel eftir leggja sér á minni og geta greint frá atburðum, aðstæðum og fólki. Þetta var tími, þar sem vald á tungumálinu krafðist þess, að geta sagt myndrænt frá. Í þá daga voru frumstæðar myndavélar fyrir fólk í sparifötum eða prúðbúið vegna atburða. Tungumálið varð að geta lýst og haldið lifandi því sem hafði gerst og minni rak til. Ólafur Jóhannesson hafði vald á þessu víkjandi tungumáli okkar. Hann sagði ekki um húsakynni að þau hafi verið köld eða rök, heldur lýsti hvernig frostið lék veggi og hvernig snjóalög byrgðu og hvernig hvein í veðrum. Eins var um lýsingu á bátum, veiðarfærum og aðbúnaði.

Nú um daga eru forn húsakynni sýningaratriði, bátar á söfnum og allt til á myndum og bókum. Allt það sem nútímamaðurinn sér og skynjar í myndum og safngripum, það þurfti tungumálið bert að bera fyrr á tímum. Því var það iðulega, að við tókum tal saman við Ólafur og hann lýsti og ég meira hlustaði. Á öðrum vettvangi, þá minntist Ólafur andúðar á kröm og eymd fortíðar. Hann var, eins og margir Vestfirðingar, sem vildu til betri vegar, mjög ákveðinn félagshyggjumaður. Ekki puntsósíalisti úr bókum, heldur einn af þeim, sem hafði séð eymd á öðrum vildi frá þeim háttum víkja. Hann tilheyrði þeim sterku mönnum í Alþýðuflokknum, sem áttu svipaðan uppruna og var virkur í þeim flokki. Það fór því mjög saman þegar hann lýsti fólki fyrri tíma hverrar sýnar hann var á heiminn. Hann fann til með öðrum, en eins og þeir sem hafa einnig þekkt harðræði, þá var hann raunbetri til aðstoðar en blíðmælgi.

Ólafi var mjög annt um konu sína og börn og sinnti veikri konu sinni af alúð meðan afl hans entist. Þau hafa öll misst góðan mann. Við hjónin vottum þeim samúð okkar og kveðjum Ólaf með söknuði.

Þorsteinn Hákonarson