Ragnhildur E. Levy fæddist á Ósum á Vatnsnesi 17. september 1916. Hún andaðist á sjúkrahúsinu á Hvammstanga 21. maí sl. Foreldrar hennar voru hjónin Eggert Levy, bóndi og hreppstjóri á Ósum á Vatnsnesi, f. 30. mars 1875, d. 28. nóv. 1953, og Ögn Guðmannsdóttir Levy, f. 1. júlí 1877, d. 28. febrúar 1955. Systkini Ragnhildar voru Guðmann, f. 12. febr. 1902, d. í Vesturheimi, Hólmfríður, f. 1. mars 1903, d. 26. apríl 1994, Ingibjörg, f. 2. jan 1906, d. 18. janúar 1987, Jónína, f. 27. febr. 1907, d. 25. ágúst 1993, Jóhannes, f. 29. maí 1910, d. 26. maí 1981, Óskar, f. 23. febr. 1913, d. 15. mars 1999, og Sigurbjörg, f. 10. jan. 1915, d. 18. júní 1998. Á lífi er Alma Ágústsdóttir Levy, f. 24. ágúst 1929. Ragnhildur giftist í október 1943 Guðmundi Sigurðssyni, f. 22. júní 1918, d. 23. maí 1992. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Jónsson, bóndi í Katadal á Vatnsnesi, f. 28. maí 1888, d. í apríl 1945, og Ingibjörg Guðmundsdóttir, f. 28. júlí 1897, d. 5. febr. 1985. Börn Ragnhildar og Guðmundar eru: 1) Ögn Levy, f. 1. ágúst 1943, maður hennar er Benedikt Jóhannsson, f. 29. nóvember 1947. Börn þeirra eru, a) Ragnhildur Guðrún, f. 2. júní 1973, gift Guðmundi Tryggvasyni, f. 5. febr. 1965, sonur þeirra er Guðjón Ben, f. 7. september 2008, b) Gestur, f. 13. sept. 1976, sambýliskona Ásdís Írena Sigurðardóttir, f. 4. maí 1980, börn þeirra eru Jökull Smári, f. 21. maí 1995 og stúlka, f. 6. apríl 2009, og c) Jóhann Ingi, f. 9. des. 1981, kvæntur Hólmfríði Birnu Guðmundsdóttur, f. 27. nóv. 1981, börn þeirra eru Hafrún Arna, f. 15. október 2004 og Benedikt Aron, f. 18. desember 2008. 2) Sigurður Ingi, f. 10. maí 1945. Ragnhildur útskrifaðist frá Ljósmæðraskóla Íslands 30. september 1937. Útför Ragnhildar fer fram frá Hvammstangakirkju í dag, 30. maí, og hefst athöfnin kl. 14. Jarðsett verður á Tjörn á Vatnsnesi.

Þegar ég var lítil stelpa þá hlakkaði ég svo mikið til að fá að fara með ömmu og afa á sveitabæinn þeirra á Vatnsnesi. Við vorum yfirleitt varla búin að tæma bílinn þegar ég var farin að suða um að fara á Saurbæ! Ég elskaði að fara á Saurbæ og fá að sitja í eldhúsinu hjá henni Rögnu og borða kökur. Það besta við það var að hún leyfði mér að borða endalaust. Ég gleymi aldrei samtölum okkar yfir vænni tertusneið í hlýju eldhúsinu. Ragna þreyttist aldrei á að segja mér sögur. Hún sagði mér frá sögum af börnum sem ákváðu að fæðast í snjóstormi og hríð. Þegar hún þurfti að labba langar vegalengdir til að taka á móti þeim. Bestu sögurnar voru af pabba mínum og systur hans þegar þau voru hjá henni í sveit. Ég fékk aldrei nóg af að heyra hana segja frá.

Ég minnist Rögnu minnar með gleði í hjarta og vissu um að henni líður betur núna. Dóttir mín biður um sögu á hverju kveldi um þegar ég var lítil. þessa vikuna hef ég minnst Rögnu og sagt henni sögur af henni. Það hefur verið yndislegt að rifja upp gömul spjöll yfir tertusneið og mjólkursopa.

Með kærri kveðju til ástvina,


Sara E. Matuszak Hjaltadóttir, Bandaríkjunum.