Ingibjörg Alda Bjarnadóttir fæddist á Sauðárkróki 2. maí 1929. Hún lést á Elliheimilinu Grund 1. ágúst sl. Hún var dóttir hjónanna Helgu Pétursdóttur saumakonu, f. 26.05. 1905 d. 02.12.1991, og Bjarna Antons Sigurðssonar sjómanns, f. 23.01.1901, d. 14.12.1935. Systkini Öldu eru Guðbjörg Sigrún, f. 26.09. 1930, Guðrún Sigurlaug, f. 06.12.1932, d. 08.04.1940 og Bjarni Anton, f. 18.10.1935, d. 24.08.2000. Systkini samfeðra er Þorsteinn Skúli, f. 19.06.1927. Árið 1952 giftist Alda Stefáni Skaftasyni, lækni frá Siglufirði en þau skildu árið 1961. Dóttir þeirra er Hauður Helga rekstrarfræðingur, f. 10.06.1958 gift Hermanni Ragnarsyni múrarameistari, f. 22.08.1955. Fyrir átti Hauður dóttirina Eddu Maríu Vignisdóttur nema, f. 06.08.1975, hennar maður er Jón Árni Kristinsson smiður, f. 15.01.1975. Dóttir Eddu og Jóns er Snæfríður, f. 13.01.2006. Dóttir Hauðar og Hermanns er Helga Sigrún, f. 28.07.1997. Seinni manni sínum, Magnúsi E. Guðjónssyni, f. 13.09.1926, d. 17.05.1990, kynntist Alda á Akureyri og giftu þau sig árið 1962. Dætur þeirra eru; 1) Kolfinna Snæbjörg grunnskólakennari, f. 28.03.1963 gift Stefáni Friðriki Einarssyni matreiðslumeistara, f. 17.12.1956. Dætur Kolfinnu eru; a) Þórunn Katla Tómasdóttir leikskólakennari, f. 09. 08.1983, hennar maður er Jón Ragnar Ástþórsson meistaranemi í viðskiptafræði, f. 20.12.1976. Þeirra börn eru; Tómas Freyr, f.12.06.2004, Haraldur Daði f. 30. 03. 2006 og Bjarni Dagur, f. 10.05.2009; b) Alda Karen Tómasdóttir, f. 12.10. 1989; c) Júdit Sophusdóttir nemi, f. 28.11.1993. 2) Alda Magnúsdóttir sálfræðingur, f. 06.06.1967 gift Ármanni Jónssyni viðskiptafræðingi, f. 22.08.1972. Fyrir átti Alda soninn Magnús Ellert Bjarnason nema, f. 16.10.1990 en sonur Öldu og Ármanns er Viktor, f. 12.12.2006. Alda missti föður sinn ung að árum en eftir að faðir hennar lést fluttist móðir hennar frá Sauðárkróki til Akureyrar. Alda þurfti að hætta skólagöngu í Menntaskólanum á Akureyri sökum þess að hún fékk berkla. Árið 1954 fór Alda í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og kláraði próf þaðan árið 1955. Alda bjó með fyrri manni sínum bæði í Þýskalandi og Svíþjóð en eftir að þau skildu fluttist hún aftur til Akureyrar og bjó þá hjá móður sinni. Á Akureyri kynntist Alda síðari manni sínum, Magnúsi, þar sem hann starfaði sem bæjarstjóri. Bjuggu þau hjónin á Akureyri til ársins 1967 en fluttu þá suður. Alda og Magnús fluttu í Kópavoginn og bjuggu þar allt fram á dánardag Magnúsar. Alda sinnti húsmæðrastörfum af kostgæfni og bar heimili þeirra vott um smekkvísi og alúð hennar. Eftir að Magnús lést fluttist Alda nokkrum árum síðar til Keflavíkur þar sem hún bjó sér huggulegt heimili í sambýli við dóttur sína og mann hennar. Alda bjó síðustu þrjú árin á hjúkrunardeild A2 á Elliheimilinu Grund. Alda átti í baráttu við krabbamein síðustu árin. Hún lést 1. ágúst sl. Útför Öldu fór fram í keyrrþey 10. ágúst frá Háteigskirkju.

Konungsríki

Ó, amma mín ... ó, drottningin mín.

Ég lofa að vera alltaf litla prinsessan þín.

Þú varst besta drottning sem ríki gat óskað sér,

því þú elskaðir ríkið þitt og þú hugsaðir um það.

Núna færðu loksins að hitta kónginn þinn.

Og þú mátt vita að fókið þitt elskaði þig heitt,

ó, drottningin okkar við munum sakna þín rosalega

því þú fékkst að sofna endanlega.

Helga Sigrún Hermannsdóttir.