Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir fæddist á Tryggvagötu 4 á Selfossi þann 6. desember 1952. Hún lést á Heilbrigðissstofnun Suðurlands á Selfossi sunnudaginn 5. apríl 2009. Hún var dóttir Guðjóns Sigurðssonar frá Seljatungu í Gaulverjabærjarhreppi, f. 26.11.1922, og Margrétar Valdimarsdóttur frá Teigi í Vopnafirði, f. 26.4. 1921, d. 13.10. 1982. Systkini Rannveigar Ágústu eru Haukur, f. 27.12. 1947, Erla Sigríður, f. 27.5. 1958, og Pétur Valdimar, f.21.1. 1961. Rannveig Ágústa giftist þann 15. febrúar 1975 Ólafi Árnasyni vélfræðingi og rafvirkja frá Akureyri, f. 15.10. 1951. Hann er sonur Árna Stefáns Helga Hermannsonar frá Látrum í Aðalvík, f. 28.7. 1929, og Önnu Aðalheiðar Ólafsdóttur, f. á Bægisá í Öxnadal 4.2. 1920, d. 17.9.1993. Rannveig og Ólafur áttu þrjú börn, þau eru: 1) Guðjón Helgi, f. 30.11 1971, kvæntur Birnu Sif Atladóttur, f. 21.12 1973. Fyrri kona hans er Sigurbjörg Vilmundardóttir, f. 03.05 1971, dóttir þeirra er Rannveig Ágústa, f. 11.07 1991. Börn Guðjóns og Birnu eru: a) Egill Helgi, f. 17.07 1999, b) Sólveig Lilja, f. 04.11 2004, c) Aðalheiður Sif, f. 06.08 2008. 2) Ari Már, f. 16.10 1974, hans kona er Guðbjörg Hulda Sigurðardóttir, f. 30.08 1976, þeirra börn eru: a) Sigurður Hrafn, f. 07.05 2001, b) Örn, f. 05.11 2007. 3) Anna Margrét, f. 30.12 1981, hennar maður er Ingi Þór Ingibergsson, f. 05.10 1981. Anna Margrét gengur með barn þeirra, en á fyrir dótturina Bergrúnu Björk Önnudóttur, f. 06.11 2007. Þegar Rannveig var á öðru ári fluttist fjölskyldan að Vegatungu í Biskupstungum, en árið 1955 fluttust þau að Gaulverjabæ í Gaulverjabæjarhreppi, þar sem hún ólst upp. Skólagöngu sína hóf Rannveig hjá Þórði Gíslasyni barnakennara í Gaulverjaskóla, en eftir barnaskólann var hún einn vetur í Héraðsskólanum á Laugarvatni. Að því loknu fór hún í Gagnfræðaskólann á Selfossi, og lauk þaðan gagnfræðaprófi. Rannveig útskrifaðist sem leikskólakennari úr Fósturskóla Íslands vorið 1992. Einnig lauk hún diplómanámi í uppeldis- og menntunarfræðum, með grunnskólakennararéttindum árið 2006. Hún starfaði sem talsímavörður á símstöðinni í Gaulverjabæ, við fiskvinnslu, í sláturhúsi, á saumastofu, við afgreiðslustörf og fleira að loknu gagnfræðaprófi. Eftir störf á gæsluvellinum við Stekkholt á Selfossi urðu leikskólar hennar starfsvettvangur ef frá eru talin árin 1981 til 1987 þegar fjölskyldan bjó við Búrfellsvirkjun þar sem Ólafur starfaði sem vélfræðingur. Rannveig starfaði á leikskólanum Glaðheimum á Selfossi eftir Búrfellsdvölina, en árið 1997 var hún ráðin leikskólastjóri á leikskólanum Árbæ og gegndi hún því starfi til dauðadags. Í apríl 2008 greindist hún með krabbamein sem varð hennar banamein þann 5. apríl síðastliðinn. Rannveig hafði alla tíð yndi af útiveru og fór sinna ferða helst á reiðhjóli eða gangandi. Tónlist var henni áhugamál, hún söng lengi með kirkjukór Gaulverjabæjarkirkju og Jórukórnum á Selfossi. Útför hennar fer fram frá Selfosskirkju, í dag, 18. apríl 2009, kl. 13.30.

Það var spenna í lofti haustið 1989 þegar við hófum nám við Fósturskóla Íslands. Við sem vorum saman í C bekk næstu þrjú árin. Við áttum mjög skemmtilegan tíma í hópi frábærra skólasystra þessi ár og Rannveig var ein af þeim. Rannveig kom keyrandi frá Selfossi í öllum veðrum og mætti hún alltaf sama hvernig verðrið var. Hún var áhugasöm og ekki síst góður félagi. Nú þegar við minnumst hennar kemur margt upp í hugann. Nestisboxið hennar sem hún mætti með hvern dag og þegar hún fékk sér smá blundi í tímum. Þetta eru minningar sem við berum í hjarta og ilja okkur, nú þegar sorgin sækir að.

Eitt sumarið buðu Rannveig og Óli okkur í heimsókn á Selfoss. Þau voru frábær heim að sækja og áttum við skemmtilegar stundir með þeim hjónum. Í minningunni var frábært veður þennan dag og þessa nótt þar sem við nokkrar höfðum tjaldað í garðinum hjá þeim hjónum. Einnig er okkur minnisstæðar sambústaðaferðir sem farnar voru bæði á meðan á námi okkar stóð og eins fyrstu árin eftir útskrift. Þar voru Rannveig og Óli hrókar alls fagnaðar þegar þau sungu færeyskar rímur af snilld.

Við erum þakklátar fyrir að hafa kynnst Rannveigu og fyrir þær góðu stundir sem við áttum með henni.
Við sendum Óla og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ásrún Vilbergsdóttir, Kristín Björk Jóhannsdóttir.