Erlendur Sigurðsson fæddist á Urriðaá í Álftaneshrepp þ.19 feb.1938, hann lést á Heilbrigðisstofnun Akraness þ. 13.apríl síðastl.Foreldrar hans voru voru Hólmfríður Þórdís Guðmundsdóttir f.28.nóv.1909 d.15.feb.2000 og Sigurður Guðjónsson bóndi f.31.mars 1899 d.16.júlí 1990. Systur hans eru Jóna f.1935 maki Kjartan Magnússon og Guðrún f.1951 maki Sigurbjörn Garðarsson.Árið 1966 giftist Erlendur Guðmundu Ólafsdóttur f.8.mars 1948 d.16.nóv.1998, eiga þau eina dóttur Sólveigu Róshildi f.25.ágúst 1964, maki Ólafur Júlíusson f.1964. Börn þeirra : Guðrún Hólmfríður f.1986 maki Hrannar Markússon f.1984,Elín Rós f.1991, Thelma Lind f.1985 og Guðjón Óli f. 1987.Guðmunda og Erlendur skildu.Sonur Erlendar og Rögnu Jóhannesd.er Þórir f. 13.ágúst 1971. Með fyrri konu sinni Hörpu Júlíusdóttur á Þórir börnin: Jóhönnu Steinunni f.1993 og Björn Bjarka f.1995, maki Þóris er Berglind Ólafsdóttir eiga þau Ragnheiði Ýr f.2006.Árið 1974 giftist Erlendur Arndísi Steingrímsdóttur frá Nesi í Aðaldal f.21.sept.1931 d.11 janúar 2004.Börn Arndísar eru Sigíður Margrét f.1956, Hálfdán f. 1957 og Steingerður f. 4.okt.1971.Erlendur gekk Steingerði í föðurstað, dóttir hennar og Stefáns H Björgvinssonar f.1969 er Svandís Dögg f.1994. Erlendur og Arndís skildu. Þann 12.júlí 2003 giftist Erlendur eftirlifandi eiginkonu sinni Gunnfríði Sigurharðardóttur f.8.júlí 1953.Hennar foreldrar eru Sigurhörður Frímannsson f.1929 og Ásta Kristinsdóttir f.1925. Erlendur ólst upp á Urriðaá í Álftaneshrepp. Þar undi hann sér við bústörfin. Ungur fór hann að sýna fram á handlægni við hverskyns smíðar. Um tvítugt hélt hann suður og fór á sjóinn. Hann réð sig sem ráðsmann að Korpúlfsstöðum. Hann vann ýmis störf í landi var bílstjóri hjá Daníel Ólafssyni, og á verkstæði Strætó. Á árunum 67-71 silgdi hann aftur. Árið 1972 réði hann sig sem ráðsmann að Árnesi í Aðaldal og tveimur árum síðar fluttist hann í Nes, þar var hann bóndi næstu 15 árin. Í Nesi var kúabú en fljótlega fór Erlendur að leggja stund á hestarækt enda mikill hestamaður, seinustu árin í Nesi byggði hann minkabú. Erlendur var mikill handverksmaður og byrjaði að hanna og smíða reiðtygi. Allt handverk hans bar vott um nákvæmni og vönduð vinnubrögð og urðu reiðtygi frá honum eftirsótt um allt land. Hann var barngóður og átti auðvelt með að liðsinna ungdómnum, og eru þeir ófáir drengirnir sem nutu leiðsagnar hans í Nesi.Árið 1989 flutti Erlendur frá Nesi og næstu árin vann hann ýmis störf.Árið 1998 kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni,hófu þau búskap í Keflavík árið 2000.Það var honum hugleikið að allir gætu notið návistar við hestinn,að undirlagi Guðrúnar Fjeldsted hóf hann hönnun og smíði á hnakknum Seif sem er ætlaður fyrir fatlaða. Árið 2003 fluttust Erlendur og Gunnfríður að Galtarholti í Borgarfirði.Árið 2004 stofnuðu þau verslunina Knapann í Borgarnesi og starfaði hann þar ásamt því að smíða fyrir verslunina fram á síðasta dag.Erlendur verður jarðsungin frá Borgarneskirkju þ.18 apríl og hefst athöfnin kl. 14.

Með nokkrum fátæklegum orðum langar mig að minnast

Erlends  Sigurðssonar, Ella á Urriðaá, frænda  míns og uppeldisbróður um tíma.

Það var um miðja síðustu öld, sem ég var sendur í sveit á Urriðaá á Mýrum að ég kynnist Ella, bóndasyninum þar.   Elli var þá ungur ofurhugi sem var í fararbroddi í búskap foreldra sinna, Sigurðar og Doddu, auk systra sinna og annarra heimilismanna.  Þá voru búskaparhættir óðum að þróast úr amboðum manna  og hesta yfir í stórtækar vélar.  Elli leiddi þessa tækniþróun á heimilinu, en oft þurfti að brúa bilið milli þess nýja og gamla með heimasmíði ýmissa tækja og tóla, en þar var Elli hagur á járn sem tré.  Man ég eftir því þegar Elli keypti á brunaútsölu á Borg húsmuni sem hann gerði upp óaðfinnanlega og hafði  í herbergi sínu.  Mætti einnota-kynslóðin nú læra af þeim vinnubrögðum.

Þó nokkurra ára aldursmundur væri á milli okkar, voru samskipti okkar Ella sem um jafningja væri að ræða.  Við gátum rætt saman um heima og geyma og í mörgu var hann mér fyrirmynd í verklegum framkvæmdum sem enn nýtast mér.  Á traktorinn, gamla Grána, kenndi hann mér, hvort sem það var að láta hann renna í gang, hreinsa gruggkúluna eða skipta um viftureim.  Í hestamennskunni var hann mér góð fyrirmynd og á ég mynd uppi á vegg af Ella og Lýsingi í minni Mýramannastofu.  Já, maður var maður með mönnum þegar ég fékk 12 ára að fara ríðandi með Ella með tvo til reiðar á hestamannamót í Faxaborg.  Enn er mér það í fersku minni þegar ég rak fé á fjall inn í Hraundal með Ella og Sigga og réttarferðirnar í Hraundalsrétt.  Allt þetta á ég Ella að þakka.

Eftir fjögur sumur í sveit á Urriðaá fór ég endanlega suður og stuttu síðar fór Elli einnig suður.  Báðir héldu  hvor í sína átt og áratugir liðu.   Síðan fyrir nokkrum  árum erum við Elli aftur komir upp á Mýrar:  Hann orðinn reyðtygjahönnuður og söðlasmiður, fyrst í Galtarholti og síðar reyðtygja- og hestavörukaupmaður í  Borgarnesi  með eiginkonu sinni   -   og ég smá hestabóndi  á sveitasetri  mínu Einbúa undir Grímsstaðarmúla.  Segja má að römm sé sú taug sem rekka dregur föðurtúna til.  Árin mín á Urriðaá hjá frændfólki  mínu voru þau mótunarár sem endast mun mér ævina út.  Við Elli áttum góð samskipti  síðustu ár og hittumst oft.  Heilsu sinnar vegna náði hann ekki að heimsækja mig á sveitasetrið og sjá hvernig ég hef flutt búskap minn úr Einbúa á Urriðaá upp í Einbúa undir Grímsstaðarmúla.  Ef til vill gerir hann það þó með öðrum hætti.

Ég vil votta eiginkonu Ella, Gunnfríði, systrum hans, Jónu og leiksystur minni Guðrúnu, börnum og barnabörnum hans,  mína dýpstu samúð.

Pétur Kristinsson