Þóra Kristjónsdóttir fæddist á Djúpavogi 2. júlí 1930. Hún lést laugardaginn 6. desember síðastliðinn. Þóra var dóttir hjónanna Kristjóns Sigurðssonar, f. 28.9. 1888, d. 28.6. 1975 og Hansínu Hansdóttur, f. 17.6. 1887, d. 30.9. 1958. Bræður Þóru eru Hans Kristján, f. 4.1. 1922, d. 25.9. 1995, Gunnar, f. 5.10. 1924, d. 16.7. 1974, og Guðni, f. 11.8. 1928. Fjölskyldan fluttist til Seyðisfjarðar 1932 og bjó þar upp frá því. Þóra var kvödd í Seyðisfjarðarkirkju 15. desember í kyrrþey.

Elsku Þóra mín.

Leiðir okkar lágu fyrst saman fyrir 49 árum síðan. Þú stóðst við eldhúsgluggann heima hjá þér í Framhúsinu á Seyðisfirði og sást lítið barn í vagni, eitt í fjörunni. Ekki varst þú lengi að hlaupa til barnsins áður en sjóinn flæddi að, mér til lífsgjafar og happs. Minningarnar um þig Þóra mín, bræður þína og pabba, verða mér ávallt í fersku minni, enda varst þú mér sem móðir og hefur alltaf verið.

Ástúðin, hlýjan og umhyggjan var stærsta gjöfin sem þið gátuð gefið litlu barni inn í framtíðina og hef ég búið að henni síðan. Ég og nafna þín vorum svo lánsamar að fá að vera hjá þér þína síðustu daga og vera viðstaddar þegar þú kvaddir þennan heim.

Missir okkar allra er mikill og söknuðinn fundum við svo sannarlega á Brekkuvegi núna í sumar, þar sem ilmur þinn lá í loftinu og munir þínir allir eins og þú lést eftir þig.

Mig langar til að þakka þér fyrir ástúðina, eina dýrmætustu gjöf í skóla lífsins, sem aldrei verður metin til fjár.

Hugur minn leitar líka til bræðra þinna, Þóra mín, hans Guðna okkar sem mér þykir svo innilega vænt um að fá að heimsækja og eyða tíma með, og þeirra Gunnars og Kidda heitnum.

Nafn þitt mun ávallt lifa í dóttur minni, Þóru Gunni.

Ástarþakkir fyrir mig, sjáumst öll síðar.

Kolbrún Alda.

Elsku Þóra mín.

Mér var sú gjöf gefin að fá að bera nafnið þitt, og í dag sem og alltaf ber ég það stolt enda hef ég fáar hjartahlýrri og betri manneskjur þekkt.

Þó svo blóðið hafi ekki tengt okkur, þá verður þú alltaf í mínu hjarta amma mín og langamma stelpnanna minna, rétt eins og bræður þínir gengna og gengdu afahlutverkinu. Þau bönd sem ást og væntumþykja binda verða seint slitin, og þau geymi ég í formi minninga og gleði.

Sumrin á Seyðisfirði í barnæsku eru brunnur ótal minninga frá heimili þínu og bræðra þinna ef einhverjum var spillt af eftirlæti og ást þá var það mínu barnshjarta.

Þegar ég lít til baka þá man ég vel hversu stolt þið voruð af öllum mínum litlu afrekum, hvort sem það var að hlusta á eina lagið sem ég gat glamrað á píanóið í þúsundasta skipti með ólýsanlegri þolinmæði, eða hlusta á mig syngja á einhverju óskiljanlegu erlendu tungumáli þá voru allar mínar gjörðir greinilegt merki að um hér væri ofurgáfað barn á ferð. Ég get ekki annað en brosað við minningunni, því svona stolti fyllist maður aðeins gangvart þeim sem búa í hjarta manns.

Þú varst alltaf svo tignarleg og glæsileg kona, heimilið þitt fyllt af fallegum hlutum og í hvert skipti sem matur var á borðum var veisla, enda vel fylgst með því hvort maður fengi sér ekki alveg örugglega ábót, og helst þrisvar sinnum.

Hógvær fram í fingurgóma, þú vildir allt fyrir alla gera, en ekkert mátti gera fyrir þig í staðinn. Þegar ég sat við rúmstokkinn þinn og þú svafst þínum hinsta svefni fannst mér ég loksins geta launað þér þá ástúð sem þú gafst mér í svo ríkum mæli. Það voru forréttindi að fá að eyða með þér þínum síðustu dögum í þessu lífi.

Hvíldu í friði engillinn minn!

Þóra Gunnur Ísaksen.