Sigfús Þórðarson fæddist í Varmadal á Rangárvöllum 28. desember 1934. Hann lést á gjörgæslu Landspítalans við Hringbraut 5. maí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Þórður Bogason frá Varmadal á Rangárvöllum, f. 31. mars 1902, d. 29. nóvember 1987, og Kristín Sigfúsdóttir Thorarensen frá Hróarsholti í Hraungerðishreppi, f. 11. október 1910, d. 2. janúar 1998. Eftirlifandi systkini Sigfúsar eru Bogi Vignir, f. 1936, maki Gunnhildur Svava Helgadóttir, Stefanía Unnur, f. 1938, maki Jón Bragi Gunnarsson, Ragnheiður, f. 1943, maki Jón Ólafur Sigurðsson, og Sigrún, f. 1954, maki Þorgeir Hjörtur Níelsson. Eiginkona Sigfúsar var Þóra Björg Þórarinsdóttir, f. 28. október 1939, d. 20. nóvember 1998. Foreldrar hennar voru Þórarinn Guðjónsson frá Kvíhólma í V-Eyjafjallahreppi, f. 9. nóvember 1910, d. 25. mars 1972, og Þórný Sveinbjarnardóttir frá Ysta Skála í V-Eyjafjallahreppi, f. 2. september 1909, d. 4. mars 1995. Börn Sigfúsar og Þóru Bjargar eru: 1) Kristín Sigfúsdóttir, f. 15. apríl 1963, maki Yngvi Karl Jónsson, börn þeirra eru Þóra Björg og Þórbergur Egill. 2) Anna Þórný Sigfúsdóttir, f. 16. apríl 1967, maki Stefán Þorleifsson, börn þeirra eru Eyþór, Guðrún Lilja og Kristín Huld. 3) Þórarinn Sigfússon, f. 21. maí 1974. Sambýliskona Sigfúsar frá árinu 2000 var Erla Sigurjónsdóttir. Sigfús ólst upp á Rangárvöllum. Árið 1956 fluttist hann með Þóru Björgu á Selfoss og bjó þar nánast samfleytt til ársins 2000 er hann hóf sambúð með Erlu í Hafnarfirði. Sigfús starfaði lengst af við Landsbanka Íslands á Selfossi. Hann var mikill áhugamaður um brids og vann þar marga titla um ævina. Útför Sigfúsar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 16. maí, og hefst athöfnin kl. 11.

Það fór aldrei á milli mála þegar Sigfús var á svæðinu. Þróttmikil röddin skar sig út úr, maður heyrði hláturinn og hvernig létt varð yfir öllum nálægt honum. Sigfús sýndi fólki í kring um sig áhuga og hafði gaman af því að segja sögur. Það var unun að heyra hann segja langar sögur og hann var sögumaður af Guðs náð. Sigfús var alltaf að flýta sér en samt hafði hann tíma fyrir fólkið sitt. Sigfús og Lilla kona hans sem lést fyrir nokkrum árum, voru bæði einstaklega gestrisin, samheldin og skemmtileg heim að sækja, enda heimsóttum við systkinin þau oft með foreldrum okkar þegar við vorum yngri. Ég minnist þeirra beggja með hlýhug og söknuði og ég vil votta þeim Kristínu, Önnu, Þórarni, barnabörnum, Erlu og öðrum ástvinum mína innilegustu samúð vegna fráfalls Sigfúsar.

Svanhildur Bogadóttir