Stefán Ásberg Jónsson bóndi á Kagaðarhóli í Austur-Húnavatnssýslu lést á Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi 29. júní. Stefán fæddist 4. nóvember 1930 á Kagaðarhóli, hann ólst þar upp og bjó alla sína ævi. Foreldrar hans voru Jón Stefánsson, bóndi og oddviti á Kagaðarhóli og Guðrún Steinunn Jóhannsdóttir húsfreyja á Kagaðarhóli. Bróðir Stefáns er Maggi Jónsson arkitekt f. 28.5.1937. Kona hans er Sigríður Soffía Sandholt kennari. Dóttir þeirra er Sólrún Melkorka. Stefán kvæntist 20.ágúst 1966 Sigríði Höskuldsdóttur ljósmóður frá Vatnshorni í Skorradal, f. 19.5.1933. Börn þeirra eru: 1) Guðrún Jóhanna f. 20.6.1967, maki Víkingur Þór Gunnarsson f. 21.3.1963. Börn þeirra eru a) Sigríður Vaka f. 9.2.1999 og Ari Óskar f. 23.10.2001. 2) Sólveig Birna f. 20.6.1967, barnsfaðir Hans Magnus Ryan Noregi (slitu sambúð). Sonur þeirra er Óttar Húni Magnusson f. 20.3.1997. 3) Jón Stefánsson f. 4.4.1972. 4) Berghildur Ásdís f. 4.4. 1972, maki Þorkell Magnússon f. 9.3.1964. Synir þeirra eru a) Baldur f. 31.1.2007 og Bjarni Ásberg f. 16.1.2009. Börn Þorkels úr fyrra hjónabandi eru Þóra f. 30.4.1990 og Kári f. 26.1.1998. Stefán var stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1952 og stundaði sagnfræðinám við Háskóla Íslands, þar sem hann lauk 1.stigi í sögu 1959. Hann tók einnig námskeið í ensku í Aberdeen í Skotlandi 1961. Stefán kenndi á árabilinu 1956-1969, fyrst sem farkennari í Svínavatnsskólahverfi en síðar á Blönduósi til 1966, síðast í Torfalækjarskólahverfi 1969 og var þá einnig skólastjóri. Stefán hóf búskap á Kagaðarhóli 1956, fyrst í sambýli við foreldra sína og síðan með konu sinni frá 1966. Stefán var alla tíð mjög virkur í félagsmálastarfi og sinnti ótal trúnaðarstörfum. Hann sat í sýslunefnd Austur-Húnavatnssýslu 1966-1988, í hreppsnefnd Torfalækjarhrepps 1990-2006 og var hreppstjóri í Torfalækjarhreppi 1969-1998. Stefán var ritstjóri ársritsins Húnavöku frá stofnun þess 1961 til 2008. Hann var einn af stofnfélögum Lionsklúbbs Blönduóss 1959 og var félagi allt til dauðadags. Hann var virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins meðal annars formaður kjördæmisráðs flokksins á Norðurlandi vestra auk þess að vera í miðstjórn. Hann var í stjórn Sölufélags Austur-Húnvetninga 1972-1980. Hann var lengi fulltrúi Austur-Húnvetninga í Stéttarsambandi bænda. Hann var í stjórn Landsbyggðarinnar lifi, í stjórn Norðurlandsskóga, Landssamtaka skógareigenda og Félags skógarbænda á Norðurlandi. Útför Stefáns fer fram frá Blönduóskirkju í dag 11.júlí og hefst athöfnin kl. 14.

Frændi minn Stefán Ásberg Jónsson frá Kagaðarhóli er látinn.  Stefán fæddist að Kagaðarhóli og bjó þar alla sína ævi, en það er nú orðið sjaldgæft að menn séu svo tryggir heimahögunum.  Stefán var því  nær alltaf kenndur Kagaðarhól.

Ég var ekki  nema 5 ára snáði þegar ég fyrst réði mig sem kúasmali  að Kagaðarhóli hjá foreldrum Stefáns þeim Guðrúnu ömmusystur minni og hennar manni Jóni.  Ég var þá á ferðalagi með foreldrum mínum og til stóð að ég fengi að vera í nokkra daga á meðan þau færu áfram norður.  Mér líkaði hinsvegar dvölin svo vel að þegar þau svo komu til baka og ætluðu að taka mig með suður, þá hafði ég samið við þau um að fá að dvelja fram á haust þar til skólinn tók við.  Þar með var grunnurinn að minni sveitamennsku lagður og mörg næstu sumur var skólanum vart lokið þegar ég fór norður að Kagaðarhóli og kom ekki til baka fyrr en að hausti.

Tengsl okkar fjölskyldunnar við Kagaðarhól eru sterk en þar fæddist móðir okkar Ólafía Ásbjarnardóttir og dvaldist þar langtímum saman við sveitastörf í æsku hjá móðursystur sinni.

Þegar ég hóf sumardvöl mína að Kagaðarhóli bjó Stefán þar með foreldrum sínum og var þá einhleypur.  Hann var mikill félagsmálafrömuður og í minningunni var hann alltaf að skjótast niður á ÓS, til Akureyrar eða þá til Reykjavíkur á fundi.  Þótti mér mikið til koma hversu oft hann fór af bæ því á þeim tíma voru menn ekki eins ferðaglaðir og nú til dags.  Stefán var mjög pólitískur og fór ekki í grafgötur með skoðanir sínar og hafa Sjáfstæðismenn nú misst öflugan liðsmann.  Stefán var góður námsmaður á sínum yngri árum, vel lesinn og frábær penni.  Hann ritstýrði Húnavökunni frá upphafi og var einnig hreppstjóri Torfalækjarhrepps í nokkur ár.  Þegar til stóð að fara í framkvæmdir við Blönduvirkjun höfðu heimamenn eðlilega skiptar skoðanir um ágæti slíkrar framkvæmdar og áhrif hennar á byggðarlagið.  Stefán var framsýnn maður og fór í fararbroddi stuðningsmanna Blönduvirkjunar og er mér minnisstætt þegar hann mætti í broddi fylkingar í Alþingishúsið til að kynna málstað heimamanna sem studdu framkvæmdina.  Öll þessi störf ynnti hann af hendi ásamt því að stunda búskap að Kagaðarhóli.

Stefán gekk að eiga eftirlifandi eiginkonu sína, Sigríði Höskuldsdóttur einn fallegan sumardag árið 1966 og er sá atburður mér enn minnisstæður.  Fljótlega efir að þau giftust tóku þau við búskapnum af þeim Guðrúnu og Jóni sem bjuggu áfram að Kagaðarhóli allt til dauðadags.  Sigríður var sem klettur við hlið Stefáns í bústöfunum að Kagaðarhóli.  Stefán og Sigríður eignuðust fljótlega tvíbura og svo aftur tvíbura skömmu seinna, þ.a. það breyttust fljótt heimilisaðstæður að Kagaðarhóli.  Flest sumrin sem ég dvaldist þar voru auk mín 3-4 unglingar í kaupavinnu þ.a. það var mikið um að vera á stóru heimili.

Stefán átti alltaf góðan tækjakost til bústarfanna og var ávallt fljótur að fjárfesta í nýjungum auk þess sem hann var alltaf vel keyrandi.  Hann fór afskaplega vel með sín tæki og voru þau ávallt sem ný.  Hann var einnig varkár og lét engan keyra traktorana nema hafa til þess aldur og reynslu.  Það var ekki laust við að okkur strákunum fyndist hann full strangur á þessu sviði enda allir með mikla tækjadellu og löngun til þess að fá að keyra traktorana.  Stefáni var hinsvegar ekki hnikað í þessum efnum sem og fleirum.

Eftir að ég hætti í sveit að Kagaðarhóli kom ég þar oft í heimsókn, ýmist í réttir eða til að renna fyrir silung í vatninu nú eða bara að fá smá nostralgíu frá æskuárunum.  Alltaf var mér jafn vel tekið af þeim Stefáni og Sigríði.  Þá var oftar en ekki tekin umræða um þjóðfélagsmálin við Stefán og þar kom maður sjaldnast að tómum kofanum.  Hann hafði mjög ákveðnar skoðanir og urðu því oft miklar rökræður við eldhúsborðið.  Þau hjónin hættu búskap fyrir nokkrum árum en bjuggu áfram að Kagaðarhóli og gerðust Þá skógarbændur.

Fyrir nokkru veiktist Stefán og dvaldist hann undir það síðasta á Héraðssjúkrahúsinu á Blönduósi þar sem hann lést þann 29. Júní síðastliðinn.

Ég vil að lokum fyrir mína hönd og systkina minna þakka Stefáni fyrir góðar samverustundir og sendum við Sigríði, börnum og barnabörnum mínar innilegustu samúðarkveðjur.  Megi minning hans lifa um ókomin ár.

Ásbjörn Björnsson