Kjartan Helgason fæddist í Reykjavík 10. júní 1922, hann lést á líknardeild Landspítalans 19. maí s.l. Hann var sonur hjónanna Helga Baldvins Þorkelssonar klæðskera f. 16.12.1886 d. 8.7.1970 og Guðríðar Sigurbjörnsdóttur f. 6.10.1898 d. 3.1.1983. Systkini Kjartans voru: Sigrún símamær f. 10.9.1923 d. 2.5.1970, Einar læknir f. 25.6.1925 d. 16.2.1974 og Baldur verkamaður f. 23.12.1929 d. 23.4.2001. Kjartan kvæntist Valborgu Lárusdóttur árið 1946, þau skildu. Dóttir þeirra Kristín f. 25.4.1947 gift Sameh Sala Issa f. 1943, börn þeirra: Samieh Vala f. 7.4.1969 d. 6.8.2004, maki Izzat Dajani, dóttir þeirra Yasmin f. 27.12.2000, Nadia Issa f. 26.2.1973, maki Soheil Galal, sonur þeirra, Omar f. 24.5.2006, Salah Sameh f. 17.12.1978 og Salma Sameh f. 2.3.1985. Kjartan kvæntist 1.5.1951 Ingibjörgu Einarsdóttur f. 26.5.1926 frá Klöpp, Miðneshreppi. Foreldrar hennar voru Einar Helgi Magnússon f. 8.2.1902 d. 27.10.1985 og Ólína Jónsdóttir f. 24.9.1899 d. 27.12.1980. Börn þeirra: Björg f. 6.5.1950, giftist Sigurði Sigurðssyni, þau skildu, þeirra sonur Kjartan Sigurðsson f. 5.10.1975, var í sambúð með Rósu Kristínu Pálsdóttur, dóttir þeirra Kamilla Björg f. 7.12.1998. Er í sambúð með Dagmar Lilju Jónasdóttur f. 19.7.1970, börn þeirra: Aþena Mist f. 2.1.2005 og Viktor Snær f. 10.4.2007. Ólína Ben f. 4.7.1951 d. 29.1.2005, maki Guðjón Ben Sigurðsson f. 4.8.1947, barn þeirra Guðmundur f. 13.2.1978 d. 14.2.1978. Einar Helgi f. 22.12.1952, giftur Rakel Salóme Eydal f. 8.1.1976, dóttir þeirra, Sara Fönn f. 4.8.1995. Gunnar Bragi f. 28.2.1957 d. 15.11.2001, var í sambúð með Ragnheiði Hildi Skarphéðinsdóttur f. 15.6.1964 d. 1.11.2008, dóttir þeirra Hildur Imma f. 7.6.1987, þau slitu samvistum. Var í sambúð með Hugrúnu Auði Jónsdóttur f. 30.10.1960, dóttir þeirra Aðalheiður Björg f. 11.10.1996, þau slitu samvistum. Drengur, f. 25.5.1955 d. í júní sama ár. Kjartan lauk kennaraprófi 1942 frá Kennaraskóla Íslands. Kenndi um tíma á Siglufirði og í Lækjarskóla, Hafnarfirði. Starfaði fyrir Sósíalistaflokkinn frá 1945 til ársins 1963, þá keypti hann ferðaskrifstofuna Landsýn af Fylkingunni og rak hana til ársins 1972. Starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Samvinnuferðum - Landsýn til ársins 1977 en stofnaði þá sína eigin ferðaskrifstofu sem hann rak til ársins 1997. Vann við ýmis ættfræðistörf hjá Urði verðandi skuld og bókaforlagi Þorsteins Jónssonar.

Nú er Kjartan allur og ýmsar minningar og hugsanir koma fram. Það var alltaf gaman þegar Imma og Kjartan komu í heimsókn. Með þeim komu börnin sem voru á aldur við mig og þá var gaman og mikið brallað. Síðar höfðum við hjónin mikið af Kjartani að segja vegna ferðalaga og flugmiðakaupa. Kjartan var alltaf einstaklega hjálpfús og greiðvikinn varðandi hvað sem kom upp. Hann sýndi alltaf mikinn áhuga á hverju því sem við hjónin vorum að stússast í og öllum högum okkar. Svo var aldrei komið að tómum kofanum hjá honum varðandi menn og málefni, hann hafði ótrúlega þekkingu á ættfræði og sögu og gat hann gefið endalausar upplýsingar um ættartengsl og skyldleika svo manni fannst stundum nóg um! Kjartan gat verið alger hamhleypa til verka. Eitt sinn kom hann suður í Klöpp að hjálpa afa að moka botnefni úr tjörninni sem hafði flætt upp á tún. Atgangurinn í skrifstofumanninum var slíkur að hann var varla rólfær nokkra daga á eftir!

Kjartan gat verið þver og harður í horn að taka jafnframt því að vera róttækur í pólitík. En ég gleymi aldrei vitnisburði ömmu heitinnar um hann þegar við vorum að ræða um Kjartan og pólitíkina og trúarlega afstöðu kommúnista. Hún sagði að ekki væri hægt að finna heiðarlegri og áreiðanlegri mann en hann og mættu margir kristnir taka hann sér til fyrirmyndar í því.

Kæra Imma, Björg, Einar Helgi og aðrir ástvinir Kjartans: Við sendum ykkur samúðarkveðjur og biðjum Guð að styrkja ykkur öll.

Einar Valgeir og Karen.