Ragnheiður Egilsdóttir læknaritari fæddist í Reykjavík 20. júlí 1946. Hún lést á heimli sínu 12. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Egill Gestsson tryggingamiðlari, f. í Reykjavík 6.4. 1916, d. 1.11. 1987, og Arnleif Steinunn Höskuldsdóttir húsmóðir, frá Djúpavogi, f. 5.2. 1915, d. 7. 12. 1986. Systkini Ragnheiðar eru: Örn, f. 15.11. 1937, Höskuldur, f. 18.1. 1943, d. 26.3. 1999 og Margrét Þórdís, f. 1.10. 1955, d. 19.6. 2005. Hinn 30. nóvember 1963 giftist Ragnheiður Lárusi Svanssyni skósmið, f. 18.11. 1942. Foreldrar hans eru Svanur Lárusson, f. 28.5. 1913, d. 3.10. 1995, og Gunnþórunn I. R. Stefánsdóttir, f. 11.3. 1915, d. 23.5. 1961. Systkini Lárusar eru Sonja og Halldór. Ragnheiður og Lárus eignuðust þrjá syni og þeir eru: 1) Egill framkvæmdastjóri, f. 9.6. 1964, í sambúð með Rúnu Pétursdóttur nuddara, f. 23.7. 1965, þau eiga þrjú börn, Jökul Alexander, f. 17.3. 1989, Ragnheiði Þóru, f. 7.11. 1991, og Heklu, f. 22.2. 1993. 2) Höskuldur Örn margmiðlunarfræðingur og tónlistarmaður, f. 30.11. 1969, sonur hans er Sævar Leon, f. 21.11. 1996. 3) Svanur Sævar húsvörður, f. 24.7. 1972, kvæntur Ragnhildi Erlu Hjartardóttur, f. 6.11. 1973, dóttir þeirra Margrét Rós, f. 11.7. 1998. Ragnheiður ólst upp í Reykjavík og lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum við Lindargötu. Árið 1971 fluttust Ragnheiður og Lárus á Rangárvelli og seinna hóf Ragnheiður störf við mötuneyti Hagvirkis ásamt því að vera trúnaðarmaður starfsmanna í Hrauneyjafossvirkjun, við Sultartanga og Kvíslaveitu 1979-86, en það ár fluttust þau aftur til Reykjavíkur þar sem Ragnheiður starfaði sem læknaritari við Krabbameinsdeild Landspítalans 1986-94 en flutti þá til Breiðdalsvíkur. Þar var hún forstöðumaður dagvistar aldraðra í tæpt ár en tók við starfi læknaritara við Heilsugæslustöð Breiðdalsvíkur. Einnig tók hún við starfi verslunarstjóra Kaupfélags Stöðfirðinga á Breiðdalsvík ásamt því að sinna formennsku Lionsklúbbsins Svans á Breiðdalsvík um skeið. Árið 2005 fluttust Ragnheiður og Lárus aftur til Hellu á Rangárvöllum. Útför Ragnheiðar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 21. ágúst, kl. 15.

Dagur er að kveldi kominn í Rómarborg, góður dagur þar sem ég hef notið þess ríkulega að fara aftur í tímann, já upplifa söguslóðir og rifja upp það sem eitt sinn var. Síminn hringir og mér berst sú frétt að hún Didda frænka hafi þá fyrr um daginn skilið við eftir erfið veikindi. Fréttirnar grípa inn í líðandi stund, ósjálfrátt færist raunveruleikinn og liðin saga frá Íslandi yfir hafið til mín og hugur minn leitar til Ragnheiðar Egilsdóttur, sem ég kallaði alltaf Diddu frænku.

Dillandi hlátur hennar er þagnaður, en áfram bergmálar hann í höll minninganna. Þessari tignarlegu höll sem er svo fagurlega skreytt með óteljandi myndum minninga, myndir sem kalla fram aftur stundirnar góðu sem ég naut með henni. Í persónu Diddu frænku kristallast kímni, lífsgleði og þrjóska Egils afa, en þó ekki síður þolgæði, umburðarlyndi, styrkur og kærleikur Arnleifar ömmu minnar. Ég minnist góðra stunda úr Miðstræti 5 hér syðra sem og úr Bolholtinu við Rangá sem var sumarbústaður þeirra afa og ömmu. Hún Didda frænka átti alltaf opinn og hlýjan faðm sem hægt var að leita í þegar eitthvað bjátaði á og skipti þá engu hvað hún var að sýsla, allt var lagt til hliðar til að veita manni aðgang að örygginu sem þar var að finna. Þetta öryggi og þessi mikli kærleikur sem hún veitti ávallt svo ríkulega af, voru forréttindi sem allir í stórfjölskyldunni nutu, enda Didda frænka mín einlæg kona sem lét fólkið sitt skipta sig öllu máli. Skipti þá engu hvort samskiptin voru strjál eða tíð, ávallt fylgdist hún með manni og þegar ég hitti hana undanfarin ár reyndar alltaf of sjaldan þá opnaðist faðmurinn góði og mér leið líkt og að við hefðum ekki verið lengi aðskilin. Þannig var hún Didda frænka mín. Einstök manneskja og einstakur mannavinur.

Ég er kominn heim aftur, búinn að leggja leið mína austur að Hellu þar sem hún Didda frænka bjó síðustu árin. Kominn til að kveðja hana hinsta sinni við kistulagninguna, kyssa hana og þakka aftur fyrir allt sem nú er liðið. Hún hvílir órjúfanlegum svefni, andlitið fullt af kyrrð og friði, þrautirnar að baki og framundan eru langþráðir endurfundir hennar með afa og ömmu sem og systkinum, Höskuldi og Margréti. Guð blessi endurfundi þeirra.

Megi góður Guð einnig blessa eftirlifandi eiginmann hennar, Lárus, syni þeirra Egil, Höskuld Örn og Svan sem og fjölskyldur þeirra. Ég bið Guð að vaka yfir þeim og styrkja öll á þessum erfiðu tímum.

Sjáumst síðar Didda mín.

Egill Örn Arnarson (Bói).