Fáir gera jafn mörg mistök í vinnunni og knattspyrnumenn. Þeir sparka fram hjá markinu þegar þeir ætla að sparka í það. Þeir gefa á andstæðinga þegar þeir ætla að gefa á samherja.

Fáir gera jafn mörg mistök í vinnunni og knattspyrnumenn. Þeir sparka fram hjá markinu þegar þeir ætla að sparka í það. Þeir gefa á andstæðinga þegar þeir ætla að gefa á samherja. Í hvert skipti, sem öðru liðinu tekst vel upp, er víst að hitt liðið brást. Engu að síður eru atvinnumenn í knattspyrnu margir hverjir með rífandi laun og urmull mistaka í vinnunni breytir þar engu. Virðist langlundargeð vinnuveitenda í þessari atvinnugrein vera meira en almennt gerist.

Víkverji hefur sjaldan séð jafn afdrifarík mistök hjá leikmönnum í knattspyrnu og í leik Borussia Mönchengladbach og Hannover 96 í þýsku knattspyrnunni um helgina. Leikmenn Hannover skoruðu sex mörk í leiknum, en töpuðu samt. Þrjú markanna voru sjálfsmörk. Það fyrsta var reyndar með slysalegri hætti því að boltanum var skotið í varnarmann og hrökk af honum í netið. Næstu tvö sjálfsmörkin voru hins vegar með ólíkindum því að í tvígang hugðust varnarmenn koma boltanum á markmanninn, en voru ekki nákvæmari en svo að þeir sendu boltann í netið. Ekki var laust við að leikmenn Borussia Mönchengladbach hefðu samúð með andstæðingum sínum eftir leikinn. Þeir ættu hins vegar að senda þeim blóm og þakkarkort því að þeir þurftu bara að skora tvö mörk sjálfir til að vinna 5-3.

Liðsmenn Hannover hafa ugglaust nagað sig í handarbökin, en það er spurning hvað leikmann Stuttgart hafa nagað eftir að markmaður þeirra, Jens Lehmann, greip til þess ráðs að stíga á rist andstæðings síns og hrinda honum í eigin vítateig. Lehmann var umsvifalaust vísað af velli og vítaspyrna dæmd. Stuttgart missti unninn leik niður í jafntefli. Lehmann hefur alltaf valdið áhangendum þeirra liða, sem hann hefur spilað með, ótta og kvíðaköstum með uppátækjum sínum. Það mun ekki breytast úr þessu.