Ljón Ekkert „hakuna matata“.
Ljón Ekkert „hakuna matata“. — Ljósmynd/BBC
Sumir gera þau mistök að halda með sebrahestinum, gasellunni eða gnýnum, þegar æsilegur eltingaleikur á sér stað á sjónvarpsskjánum. Lítill Bambi unir sér glaður á gresjunni og gerir engum mein. Hann bítur gras, sýgur mjólk og hoppar glaður til og frá.

Sumir gera þau mistök að halda með sebrahestinum, gasellunni eða gnýnum, þegar æsilegur eltingaleikur á sér stað á sjónvarpsskjánum.

Lítill Bambi unir sér glaður á gresjunni og gerir engum mein. Hann bítur gras, sýgur mjólk og hoppar glaður til og frá. Fólk tekur þess vegna andköf þegar vonda ljónið stekkur fram úr þykkninu og kapphlaupið hefst. Yfirleitt endar það svo með því að klær læsast í lærin á Bamba, hann fellur við og á sér eftir það ekki viðreisnar von. „Æææi, neeei,“ er þá viðkvæðið. Bambi játar sig sigraðan, hlýtur koss dauðans að launum og er svo orðinn að carpaccio fyrr en varir.

Á mánudag var í ríkissjónvarpinu sagt frá ljónunum í Ndutu í frábærum þætti frá BBC. Í lífi ljónanna skiptast á skin og skúrir, en svo vill til að skúrirnar eru blómatíminn en sólskins- og þurrkatíminn óbærilegur.

Eftir að hafa horft á þáttinn ætti enginn að álasa ljónum fyrir að breyta litlum saklausum dýrum í stróganoff í hvert sinn sem færi gefst. Á þurrkatímanum sáust ljónin vannærð, dauðvona og vansæl. Aðeins þennan stutta tíma ársins fá þau að njóta lífsins og ekki geta þau gert að því þótt þau séu svöng.

Önundur Páll Ragnarsson