[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einhvers staðar verða menn að byrja og einhvern tímann verða menn að ákveða um hvað líf þeirra skuli snúast. Í tónlistinni er það oft svo hjá einum að hljóðfærið verður hluti líkamans;

Einhvers staðar verða menn að byrja og einhvern tímann verða menn að ákveða um hvað líf þeirra skuli snúast. Í tónlistinni er það oft svo hjá einum að hljóðfærið verður hluti líkamans; án þess ekkert. Hjá öðrum er tónlistin skemmtileg vinna með skemmtilegu fólki og hjá þeim þriðja er hún skemmtun fyrst og síðast. Allt á þetta rétt á sér; en það er aðeins þeir í fyrst talda flokknum sem skapa listaverk – verk sem bregða nýrri sýn á líf okkar í núinu og lifir jafnframt í framtíðinni. Það þýðir ekki að önnur tónlist sé lítils virði – hún er oftast góð til síns brúks.

Matthías Baldursson, eða Matti sax eins og hann er jafnan nefndur, er duglegur músíkant, eldhugi og sagður frábær kennari. Hann stjórnar nú Lúðrasveitinni Svani og Stórsveit Svansins og fetar þar í fótspor Sæbjörns heitins Jónssonar. Hann hefur nú gefið út aðra plötu sína, en hin fyrri var afrakstur burtfarartónleika hans í Tónlistarskóla FÍH. Matti er kröftugur saxisti með dálítið frumstæðan tón, sem minnir á fyrstu saxista djassins, kalla eins og Don Readman og jafnvel Frankie Trumbauer, og er dálítið sér á báti í flóru nútímadjassleikara. Fyrsta lagið á nýju plötunni, „Tengdapabbablús“, er stórskemmtilegur „djömpblús“ og hefði platan verið mun betri ef sú stefna hefði markað hana alla, en Matti hleypur úr einum stíl í annan og þarf að koma öllu til skila. Það verður ekki gert á heildstæðri plötu. Sólistar auk hans eru fyrst og fremst Pálmi Sigurhjartarson, sem minnir í mörgu á Ingimar Eydal; firnafær og músíkalskur en djasssóló hans dálítið grautarleg, og ungi gítaristinn í hópnum, Rafn Emilsson, sem spinnur ágæt sóló á rafgítarinn sinn.

Rafn hefur gefið út fyrstu plötu sína, Eftir 8 , þar sem finna má níu frumsamin lög eftir hann. Þetta er ljúf plata, tilvalin við kertaljós á síðkvöldi. Rafn á margt ólært sem gítaristi en mörg laganna eru vel samin. Óskar Guðjónsson blæs í tenórsaxófón á plötunni og það er sama hvar sá maður kemur við sögu – alltaf verður sagan betri.

Aftur á móti er gjá milli blásarans mikla og hrynsveitarinnar sem enn hefur yfir sér skólabraginn. Rafn gerir margt vel hér og vonandi halda hann, Ingólfur Magnússon bassisti og Þorvaldur K. Ingólfsson slagverksleikari áfram upp brattann. Leiðin liggur alltaf upp á við séu menn trúir hlutverki sínu.

VERNHARÐUR LINNET