[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnór Atlason , landsliðsmaður í handknattleik, tekur út leikbann í kvöld þegar FCK mætir Bjerringbro/Silkeborg í toppslag dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik.
A rnór Atlason , landsliðsmaður í handknattleik, tekur út leikbann í kvöld þegar FCK mætir Bjerringbro/Silkeborg í toppslag dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Arnóri var sýnt rauða spjaldið undir lok fyrri hálfleiks í viðureign FCK og AaB um síðustu helgi. Arnór og Magnus Andersson , þjálfari FCK, segja dóminn hafa verið rangan. Andersson bætir við í samtali við danska fjölmiðla að þetta sé í annað sinn á leiktíðinni sem leikmaður úr hans liði fari í leikbann vegna rangs dóms.

Franska liðið Saint-Etienne rak í gær þjálfarann Alain Perrin frá störfum eftir 13 mánaða starf. Perrin, sem um tíma var knattspyrnustjóri Portsmouth og þjálfari Lyon , hefur ekki náð að gera það gott hjá liðinu en það er í fjórða neðsta sæti frönsku 1. deildarinnar.

E iður Smári Guðjohnsen og samherjar hans í Mónakó verða í eldlínunni í frönsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld þegar liðið tekur á móti Rennes . Illa hefur gengið hjá Mónakó síðustu vikurnar. Í fimm síðustu leikjum hefur það tapað fjórum sinnum og gert eitt jafntefli en Mónakó fagnaði síðast sigri gegn Boulogne hinn 24. október. Eiður hefur komið við sögu í átta deildarleikjum með Mónakó á tímabilinu og á enn eftir að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið.

Bills Shankleys , fyrrverandi knattspyrnustjóra Liverpool , verður minnst á Anfield í kvöld þegar Liverpool tekur á móti Wigan í ensku úrvalsdeildinni. Nánast upp á dag eru 50 ár liðin frá því Shankley tók við stjórastarfinu hjá Liverpool. Félagið var þá í næstefstu deild en undir stjórn Shankleys komst liðið í fremstu röð. Shankley var við stjórnvölinn hjá Liverpool í 15 ár og á þeim tíma varð liðið þrívegis enskur meistari, vann ensku bikarkeppnina tvisvar og hampaði UEFA-bikarnum.

Fimmtán leikmenn sem léku undir stjórn Shankleys á árunum 1960-1970 munu í hálfleik á Anfield í kvöld ganga út á leikvanginn og votta Skotanum virðingu sína. Meðal þeirra leikmanna sem stíga fram á völlinn eru Kevin Keegan , Tommy Smith og Phil Thompson . „Shankley er besti knattspyrnustjórinn sem hefur komið fram í sögunni ,“ sagði Smith, fyrrverandi fyrirliði Liverpool, við enska blaðið Liverpool Echo en Shankley lést árið 1981, sjö árum eftir að hann sagði skilið við Liverpool.

Arsene Wenger , knattspyrnustjóri Arsenal , segir að það komi ekki til greina að leyfa Cesc Fabregas að spila með liði Katalóníu þegar það mætir Argentínu í vináttuleik 22. desember. Katalónía er sem kunnugt er hérað á Spáni en íbúarnir þar líta flestir á sig sem Katalóníumenn en ekki Spánverja og þeir spila af og til „landsleiki“. Þjálfari liðsins er enginn annar en Johan Cruyff , gamla hollenska goðsögnin sem lék lengi með Barcelona , og hann hefur valið Fabregas í sinn hóp.