Hellisskógur Horft frá Hellisskógi við Ölfusá yfir á golfvöll Selfyssinga.
Hellisskógur Horft frá Hellisskógi við Ölfusá yfir á golfvöll Selfyssinga. — Ljósmynd/Björgvin Eggertsson
„VIÐ höfum bara lesið um þessi áform í blöðunum.

„VIÐ höfum bara lesið um þessi áform í blöðunum. Fengum einhverja kynningu á þessu í fyrstu en síðan hefur ekki heyrst múkk, hvorki frá Vegagerðinni né bæjaryfirvöldum,“ segir Björgvin Eggertsson, formaður Skógræktarfélags Selfoss, um þá tillögu Vegagerðarinnar að leggja nýjan Suðurlandsveg gegnum athafnasvæði félagsins í Hellisskógi við Ölfusá. Vísar Björgvin þá til veglínu 2, sem sagt var frá í blaðinu í gær og myndi liggja um gamla ferjustaðinn yfir Ölfusá.

Björgvin segir að þegar skógræktarfélagið fékk umrætt land, sem er í eigu Árborgar, til ráðstöfunar á sínum tíma hafi verið gert ráð fyrir svæði undir nýjan Suðurlandsveg og brú yfir Efri-Laugardælaeyju í Ölfusá. Þá hafi ekkert verið rétt um vegarstæði ofar við ána og í gegnum Hellisskóg, enda telur Björgvin að ekki sé vilji fyrir því innan sveitarfélagsins Árborgar að tillaga Vegagerðarinnar verði fyrir valinu.

„Við komum til með að gera okkar athugasemdir en það eru takmörk fyrir því hvað svona lítið félag getur gert,“ segir Björgvin.

Hann bendir einnig á að heimamenn á Selfossi hafi margir hverjir viljað að Suðurlandsvegur yrði færður suður fyrir Selfoss. Komið yrði yfir Ölfusá á svipuðum slóðum og flugvöllur Selfyssinga er.

Á þetta hafi Vegagerðin ekki viljað hlusta þar sem þjóðvegurinn myndi lengjast um of. „Þetta yrði að mörgu leyti besta veglínan, hún kæmi lengra frá Ingólfsfjalli og minna rask yrði á umhverfinu.“