Víti Boltinn fer í hönd varnarmanns Wolves í vítateignum eftir skalla frá Nemanja Vidic á Old Trafford í gær.
Víti Boltinn fer í hönd varnarmanns Wolves í vítateignum eftir skalla frá Nemanja Vidic á Old Trafford í gær. — Reuters
MANCHESTER United er komið upp að hlið Chelsea í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir 3:0-sigur á varaliði Wolves á Old Trafford í gær.

MANCHESTER United er komið upp að hlið Chelsea í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir 3:0-sigur á varaliði Wolves á Old Trafford í gær. Grétar Rafn Steinsson og félagar hans í Bolton komust upp úr fallsætinu með því að leggja West Ham að velli, 3:1, og grannaliðin Aston Villa og Birmingham eru á góðu skriði. Bæði fögnuðu góðum sigrum í gær.

Manchester United sýndi enga meistaratakta gegn nýliðum Úlfanna þrátt fyrir öruggan sigur. United-menn voru nánast í fyrsta gír og virkuðu hálfáhugalausir en Mick McCarthy, knattspyrnustjóri Wolves, gerði sér lítið fyrir og gerði tíu breytingar á liði sínu frá sigurleiknum gegn Tottenham um síðustu helgi. Aðeins markvörðurinn Marcus Hahnemann hélt sæti sínu. Það tók meistarana 30 mínútur að ná forystunni þegar Wayne Rooney skoraði úr vítaspyrnu, hans 12. mark í úrvalsdeildinni og 20. á leiktíðinni. Nemanja Vidic bætti við öðru með skalla eftir hornspyrnu undir lok fyrri hálfleiks og Antonio Valencia skoraði þriðja markið með þrumuskoti um miðjan seinni hálfleik eftir góðan undirbúning frá Dimitar Berbatov. Þetta var 900. leikurinn sem sir Alex Ferguson stjórnaði Manchester United í deildarleik og víst er að hann hefur oftast séð sína menn spila betur en þeir gerðu í gær.

Gerðu okkur erfitt fyrir

„Þetta var erfitt kvöld. Leikmenn Wolves gerðu okkur erfitt fyrir. Þeir börðust vel og tækluðu okkur út um allan völl. Það kom mér ekki á óvart að Úlfarnir tefldu fram veikara liði þar sem liðið var með hugann við leikinn á móti Burnley um næstu helgi. Um leið og fyrsta markið kom hjá okkur var þetta í okkar höndum,“ sagði Ferguson eftir leikinn en hans menn sækja Fulham heim um næstu helgi.

Bolton úr fallsæti

Grétar Rafn Steinsson lék allan tímann í liði Bolton sem vann góðan 3:1-sigur á West Ham á Rebook-vellinum í Bolton. Með sigrinum komst Bolton upp úr fallsæti en West Ham er í vandræðum og er í næstneðsta sæti deildarinnar. Chung-Yong Lee Lee, Ivan Klasnic og Gary Cahill gerðu mörkin fyrir Bolton en Ítalinn Alessandro Diamanti gerði eina mark West Ham sem hefur ekki unnið útileik síðan í fyrstu umferðinni í ágúst.

Aston Villa í þriðja sætið

Aston Villa fylgdi eftir góðum sigri á Manchester United á Old Trafford um síðustu helgi og lagði Sunderland á Leikvangi ljóssins, 2:0. Emile Heskey skoraði fyrra markið og það síðara gerði James Milner með glæsilegu skoti. Með sigrinum komst Aston Villa upp fyrir Arsenal í þriðja sætið.

Fimmti sigur Birmingham í röð

Birmingham er komið upp í 7. sætið eftir 2:1-sigur á Blackburn á heimavelli. Þetta var fimmti sigur Birmingham í röð og það er í fyrsta sinn sem liðið afrekar það í efstu deild. Bæði mörk liðsins skoraði Cameron Jarome. Nýsjálendingurinn Ryan Nelsen minnkaði muninn fyrir Blackburn.

„Ég er svo stoltur af leikmönnum mínum. Að vinna fimm leiki í röð er mjög tilkomumikið og ég er virkilega ánægður með liðið og þann kraft sem er í því um þessar mundir,“ sagði Alex McLeish, knattspyrnustjóri Birmingham.

gummih@mbl.is