Tala nr. 34 Eljusöm í eigin markaðssetningu. Kom líka upp á laugardaginn.
Tala nr. 34 Eljusöm í eigin markaðssetningu. Kom líka upp á laugardaginn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Auglýsingagerð er list, list sem oft misheppnast en heppnast líka stundum mjög vel. Mér finnst auglýsingar yfirleitt leiðinlegar og nota tækifærið þegar tími þeirra er í sjónvarpinu til að gera eitthvað annað en að horfa.

Auglýsingagerð er list, list sem oft misheppnast en heppnast líka stundum mjög vel. Mér finnst auglýsingar yfirleitt leiðinlegar og nota tækifærið þegar tími þeirra er í sjónvarpinu til að gera eitthvað annað en að horfa. Auðvitað er auðvelt að skrifa um leiðinlegu, háværu og hallærislegu auglýsingarnar en í þetta skiptið verð ég að hrósa auglýsingum sem eiga það skilið, nefnilega nýju Lottó-auglýsingunum.

Í þeim eru lottókúlurnar, eða lottótölurnar væri nær að segja, persónugerðar.

Fyrst birtist fyrirsætan Ásdís Rán sem talan 21. 21 er sú tala sem hefur oftast komið upp í íslenska lottóinu, frægasta lottótalan og með tilheyrandi stjörnustæla. Ásdís Rán er tilvalin í hlutverk kúlu nr. 21 enda fræg eins og talan og veit hvernig það er að vera í kastljósinu.

Mér finnst Ásdís Rán frábær í hlutverki lottókúlunnar og sýna þar óvænta leikræna hæfileika. Því varð ég undrandi þegar frétt þess efnis birtist að auglýsingastofan Fíton, sem gerir auglýsinguna, hafi þurft að taka við símtölum þar sem kvartað er yfir því að Ásdís Rán leiki í auglýsingunni. Væru það helst konur úti í bæ sem hringdu inn og kvörtuðu. Reyndar gæti þetta verið auglýsingatrix hjá Fíton því ekkert er betra fyrir vöru en umfjöllun. Ásdís Rán er umdeild fyrir og því ekki að búa til smá fjaðrafok? En hvað sem líður lífi Ásdísar Ránar og skoðunum fólks á hlutverki hennar í auglýsingunni þá finnst mér hún góð sem kúla 21.

Nýlega birtist önnur Lottó-auglýsing, Siggi Sigurjóns í hlutverki kúlu nr. 34.

34 er sú tala sem hefur komið sjaldnast upp og á það örugglega til að gleymast þegar Lottóspilarar handvelja tölurnar, það á t.d enginn afmæli 34 mánaðarins. Talan þarf því að vera öflug í sinni markaðsherferð til að vera valin. Siggi stendur sig vel í hlutverki hinnar eljusömu tölu sem er dugleg að minna á sig.

Talan 34 kom upp í Lottóinu á laugardaginn var og var að vonum ánægð með það. Þakkaði meira að segja stuðninginn í tölvubréfi; „Með samstilltu átaki stuðningsmanna um allt land tókst okkur í sameiningu að gera #34 að einni af þeim 5 tölum sem komu upp í sexföldum Lottópotti á laugardaginn. Sem er frábær árangur!

Slíkur árangur er að sjálfsögðu ekki einvörðungu byggður á heppni. Að baki liggur þrotlaus vinna og kynningarstarf, sem skilar sér með þessum hætti,“ segir í þakkar- og baráttubréfi 34.

Þessar Lottóauglýsingar eru ekki flóknar, frekar einföld hugmynd sem virkar vel. Allir taka eftir þeim, nenna að horfa á þær og tala um þær. Þá er tilganginum náð og líklegt er að fleiri spili í Lottóinu í kjölfarið.

Að baki flestum sjónvarpsauglýsingum stendur hópur fólks, stundum tekst vel til, eins og með Lottóið, en það er ótrúlegt hvað margar þeirra eru slæmar. Kemur þá sérstaklega upp í hugann; hreinlætisefni, Dominos-pitsa og bankar.

Í hreinlætisefnis-, dömubindis-, bleyju- og klósettpappírsauglýsingum er farið svo í kringum raunverulegan tilgang vörunnar að auglýsingarnar verða yfirleitt hallærislegar og pempíulegar. Dömubindi taka við tíðarblóði ekki bláum vökva, þetta vita allir og sérstaklega markhópur auglýsinganna, hvers vegna að fara leynt með það?

Dominos-auglýsingarnar eru svo háværar, leiðinlegar og æstar að það eru ekki hægt að horfa á þær nema áhorfandinn vilji hækka blóðþrýstinginn. Bankaauglýsingar eru síðan svo falskar að maður fær smá velgju af því að sjá dregna upp mynd af trausti og þjónustulund þegar maður veit betur.

Ef fleiri auglýsingastofur fara að gera „Lottó“-auglýsingar gæti auglýsingatíminn orðið besta sjónvarpsefnið. Stefnið að því.

Ingveldur Geirsdóttir