Björg Jósepsdóttir fæddist í Reykjavík 16. júlí 1952. Hún lést á Sjúkrahúsi Akraness 6. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Jósep Jón Þorbjörn Jóhannesson, f. 11. desember 1918, d. 15. júní 1970, og Jónína Sigríður Guðmundsdóttir Waage, f. 31. desember 1918, d. 14. október 1986. Systkini Bjargar eru Erla, f. 7. nóvember 1940, Reynir, f. 31. október 1941, og Sigurlaug, f. 25. október 1954. Hinn 26. desember 1970 giftist Björg Grími Björnssyni, f. 18. janúar 1945. Foreldrar hans voru Björn Júlíus Grímsson, f. 15. júní 1917, d. 21. júní 1968, og Soffía Björnsdóttir, f. 13. maí 1921, d. 29. mars 2007. Þau Björg og Grímur byrjuðu sinn búskap í Reykjavík, fluttust á Ísafjörð og þaðan á Akranes þar sem þau bjuggu til dagsins í dag. Börn þeirra eru 1) Jósep, f. 20. desember 1971, sambýliskona Regína Ómardóttir, f. 11. janúar 1974. Dóttir þeirra er María Sól, f. 13. janúar 2008. Börn Jóseps eru Björg, f. 21. febrúar 1992, móðir hennar er Rut Sigurvinsdóttir, f. 23. september 1974. Alexander Hugi, f. 23. janúar 1995, og Ísak Máni, f. 27. ágúst 2004. Móðir þeirra er Erna Karen Stefánsdóttir, f. 4. september 1972. Börn Regínu eru Ellen Ósk, f. 30. janúar 1998, og Þorgeir, f. 2. október 2000. 2) Soffía, f. 16. júlí 1978. Dóttir hennar er Sigríður Björg, f. 13. september 2004. Faðir hennar er Þorsteinn Emilsson, f. 24. maí 1978. 3) Björn Júlíus, f. 21. janúar 1982, kvæntur Hildi Lilju Guðmundsdóttur, f. 20. júní 1986. Sonur þeirra er Grímur Freyr, f. 31. júlí 2009. 4) Jónína Sigríður, f. 28. október 1986. Björg ólst upp í Reykjavík, gekk í Breiðagerðisskóla og síðar í Réttarholtsskóla. Björg var lengst af heimavinnandi húsmóðir og helgaði líf sitt uppeldi barna sinna ásamt heimilisstörfum. Hún hóf störf hjá Póstinum við blaðaútburð og lét af störfum þar vegna veikinda. Hún dvaldi síðasta hálfa árið á Sjúkrahúsi Akraness, þar sem hún lést. Útför Bjargar verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, miðvikudaginn 16. desember 2009, og hefst athöfnin kl. 13.

Þá er komið að kveðjustund einstaklega ljúfrar og góðrar konu.  Eftir sitja góðar minningar um hana og þá hlýju sem hún gaf ávallt frá sér.

Það voru forréttindi að fá að eiga samleið með Björgu og eiga hana að sem vinkonu.  Hún var börnum mínum yndisleg amma, mjúk og hlý og alltumlykjandi. Alltaf átti hún góðgæti fyrir þau, heimabakaðar kökur og mjólkurglas.  Ég man eftir ófáum skiptum þar sem Björg stóð við eldavélina að galdra fram veitingar fyrir gesti, á meðan sátu Alexander Hugi og Björg yngri og léku sér með dótið hennar ömmu við pilsfaldinn hennar.  Barnabörnin áttu sér dótaskúffu í eldhúsinu hjá ömmu svo þau gætu verið sem næst henni þegar hún var að matbúa. Á meðan sátum við hin við eldhúsborðið og spjölluðum, eða hvíldum okkur í sófanum og kom hún þá og breiddi yfir okkur teppi. Eftir matinn settist hún með prjónana sína og töfraði fram hvert meistaraverkið af öðru og fékk öll fjölskyldan að njóta afraksturs hennar. Metnaður hennar var mikill í handbragði og sjaldan hafa verið prjónaðar fallegri peysur. Fjölskyldan var henni Björgu það mikilvægasta í lífinu og heyrði hún oft í börnunum sínum, helst daglega. Hún gaf þeim tilveru sína og þau voru aðaltilgangur hennar.

Þannig var hún Björg og þannig mun ég minnast hennar um ókomna tíð.

Megi Guð geyma þig, elsku Björg og hafðu þökk fyrir allt.

Elsku Grímur, Jósep, Soffía, Björn Júlíus, Jónína og fjölskyldur, ég bið Guð að styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.


Þitt starf var farsælt, hönd þín hlý
og hógvær göfgi svipnum í.
Þitt orð var heilt, þitt hjarta milt
og hugardjúpið bjart og stillt.
(Höf. ók.)

Erna Karen Stefánsdóttir.