Guðjón Anton Gíslason fæddist á Kömbum í Helgustaðarhrepp við Reyðarfjörð, 23.maí 1927. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 28. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Gísli Daníelsson frá Viðborði í Skaftafellssýslu f. 24.9 1881, bóndi á Kömbum, síðar verkamaður í Keflavík d.26.09 1969 og Sigurbjörg Jónsdóttir frá Papey f. 24.3 1885, uppalin á Rannveigarstöðum í Álftafirði d. 18.1 1960. Guðjón var yngstur í röðinni af ellefu börnum þeirra. Sex mánaðar gamall var Guðjón tekinn í fóstur að Karlskála, af Guðrúnu Jónínu Stefánsdóttur ljósmóður og manni hennar Guðna Eiríkssyni. Eftir að Stefán, sonur þeirra, og Sigríður kona hans tóku við búinu á Karlskála, dvaldi hann hjá þeim. Guðjón hefur lengst af stundað sjómennsku, fyrst frá Karlskála og síðar á sínum eigin bátum. Hann var þekktur fyrir hákarlaveiðar sínar og verkun á honum, og gekk því oft undir nafninu ,,Hákarla Guðjón“. Utan sjómennskunnar vann Guðjón lengst af við smíðar og þótti mjög handlaginn. Hann gengdi embætti hreindýraeftirlitsmanns til margra ára og tók þátt í þeim veiðum frá upphafi þeirra niðri á fjörðum. Hinn 8. september 1957 giftist Guðjón eftirlifandi eiginkonu sinni Ingibjörgu Þuríði Stefánsdóttur frá Ímastöðum í Vöðlavík, f. 6. júní 1938. Foreldrar hennar voru Stefán Jónsson og Guðrún Jónína Jónsdóttir. Þau Guðjón og Ingibjörg stofnuðu sitt heimili á Eskifirði árið 1957 og bjuggu þar alla tíð. Þeim varð 5 barna auðið. Þau eru:, 1) Gísli Hjörtur f.12. mars 1957, maki Jóhanna Lindbergsdóttir, f.26.maí 1960, þau eiga fjögur börn, 2) Stefán Ingvar, f. 2. sept. 1961, maki Kristín Sigurðardóttir, f. 25.janúar 1965, þau eiga þrjú börn 3) Jón Trausti, f.21. ágúst 1963, maki Guðný Gunnur Eggertsdóttir, f. 22. september 1964, þau eiga fjögur börn. 4) Sævar, f. 15. febrúar 1970, maki Berglind Steina Ingvarsdóttir, f. 27.september 1975, þau eiga tvö börn, fyrir á Sævar dóttur með Sigríði Kristinsdóttur 5) Guðrún Jónína, f. 4.febrúar 1976, sambýlismaður Björgmundur Örn Guðmundsson, f.29.apríl 1975, þau eiga tvö börn. Langafabörnin eru þrjú og afkomendur því orðnir 24. Útför Guðjóns fer fram frá Eskifjarðarkirkju laugardaginn 12.desember og hefst athöfnin klukkan 14:00.

Elsku langafi.

Takk fyrir að vera alltaf svona góður við okkur systurnar.

Þú lifir í hjörtum okkar að eilífu.

Við vitum að Guð og englarnir passa þig.

Láttu nú ljósið þitt
loga við rúmið mitt.
Hafðu þar sess og sæti,
signaði Jesús mæti.
(Höf. ók.)

Kveðja,

Hildur Jóhanna og Helena Dís.

Elsku afi minn er látinn.

Langar mig að kveðja hann með þessu ljóði.

Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.

/

Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Vald. Briem.)

Takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Elsku amma, pabbi, Jón Trausti, Stefán, Sævar, Jónína og fjölskyldur ykkar, megi Guð styrkja ykkur í sorginni.

Kveðja,


Berglind.