Jón Haukur Eltonsson fæddist í Reykjavík, 21. maí 1948. Hann lést á Krabbameinsdeild Landsspítalans við Hringbraut 9. desember. Móðir hans er Aðalheiður Jónsdóttir fædd 11. maí 1927. Eiginmaður hennar er Haraldur Sæmundsson fæddur 25. febrúar 1929. Faðir Jóns hét Elton McElwarth fæddur 12. febrúar 1923, hann er látinn. Alsystir, Elín Eltonsdóttir fædd 1946, maki Hrafn Sveinbjörnsson. Hálfsystur,1) Helga Haraldsdótir fædd 1956, maki Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson, 2) Hrefna Haraldsdóttir fædd 1958, maki Björn Brynjúlfur Björnsson, 3) Halla Haraldsdóttir fædd 1967, maki Víðir Sigurðsson. Hinn 12. desember 1968 kvæntist Jón Haukur Sigurlínu Kristínu Elíasdóttur f. 5. júlí 1950. Foreldrar hennar eru Margrét Sch. Kristinsdóttir f. 2. september 1932 og Elías Baldvinsson f. 27. nóvember 1922. Börn þeirra eru, 1) Anna Jóna Jónsdóttir f. 18. apríl 1972, maki Hilmar Einarsson f. 1. desember 1966, börn þeirra eru Kristín Heiða og Halla Margrét, 2) Jón Þór Jónsson f. 29. júní 1975, sambýliskona Anna Linda Sigurgeirsdóttir f. 11. Júlí 1966, synir hans eru Alexander Marinó og Dagur Þór, dætur hennar eru Berglind Ósk og Rakel Marín. Fyrir átti Jón Haukur dóttur, Ragnheiði f. 27. september 1967 og á hún þrjár dætur. Sonur Sigurlínu er Sigurður Kristinn Scheving f. 22. september 1966, maki Eyrún Ingvaldsdóttir f. 9.nóvember 1967, börn þeirra eru Elfa og Andri. Jón Haukur byrjaði ungur að vinna sem vinnumaður í sveit. Hann var sjómaður í mörg ár, meðal annars á varðskipi, háseti á togara og vélamaður. Um tíma rak hann vélaleigu og síðustu árin vann hann hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Elsku afi minn, það er gott að vita að þér líði betur núna og sért laus við kvalirnar. Þín er þó sárt saknað hérna af okkur öllum og munt lifa í hjörtum okkar og minningum.

Það er svo ósanngjarnt að hugsa út í að þú hafir ekki haft sama séns á að ná þér af veikindunum eins og ég hafði með mín veikindi. Það hefði verið óskandi, en þið amma voruð mér líka alltaf svo góð og studduð mig í gegnum mín. Ég vildi að ég hefði getað endurgoldið þér greiðann og aðstoðað þig í gegnum þín veikindi.

En það er léttir að þú þurftir ekki að þola lengri kvalir þó það sé sárt að sjá á eftir þér. Þú varst, ert og verður okkur öllum alltaf mikils virði.

Ég elska þig afi minn.

Hvíldu í friði.

Þín

Elfa.

Elsku pabbi minn, tengdafaðir og afi.Tárin renna niður kinnar okkar þegar við minnist þín í örfáum orðum. En þrátt fyrir alla eigingirni og tómleikan í hjörtum okkar  er gott að vita til þess að þú sért laus við allar þjáningar og ert búinn að fá hvíldina. Við minnumst þín með góðum minningum heima í Ástúni og uppi í sumó á góðum dögum þar sem við eyddum flestum okkar frítímum saman.

Þín verður sárt saknað af okkur öllum og þú skilur eftir stórt gat í hjörtum  okkar.

Þín verður alltaf minnst sem góðhjörtuðum og traustum manni sem við gátum alltaf leitað til ef eitthvað bjátaði á.

Hvíldu í friði elsku pabbi,tengdafaðir og afi. Við elskum þig öll.

Anna Jóna Jónsdóttir,Hilmar Einarsson,Kristín Heiða og Halla Margrét

Elsku pabbi minn, mikið á ég eftir að sakna þín og allra þeirra stunda sem við áttum saman. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig þegar ég þurfti á að halda, ég hef alltaf litið upp til þín og alltaf getað leitað ráða hjá þér. Það er erfitt að þurfa að kveðja þig eftir þessi erfiðu veikindi þín en núna ertu laus við allar þjáningar og þarft ekki að þjást meira, ég veit að þér líður vel á þeim stað þar sem þú ert núna. Það verður erfit að vera uppí sumarbústað án þín þar sem við eigum svo margar góðar minningar  saman, sumarbústaðurinn var þinn sælureitur og okkar allra. Þú verður alltaf ofarlega í huga mér þegar ég þarf að taka stórar ákvarðanir í lífinu  og veit ég  að þú hjálpar mér með þær ákvarðanir  frá þeim stað þar sem þú ert núna.

Ég elska þig pabbi minn.

Þinn,

Jón Þór.