Ása Linda Guðbjörnsdóttir fæddist í Reykjavík 1. janúar 1955. Hún andaðist á heimili sínu í Svíþjóð 5. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar eru Guðrún R. Pálsdóttir, f. 29. janúar 1937, og Guðbjörn N. Jensson, f. 16. júlí 1934, d. 7. nóvember 2009. Systkini Ásu Lindu eru Gunnar Páll, f. 10. mars 1956, Björgvin Jens, f. 16. júlí 1957, og Rafnar Þór, f. 21. apríl 1959. Ása Linda giftist 31. desember 1975, Stefáni Karlssyni, f. 2. september 1952, þau skildu. Ása Linda giftist 19. júní 1984, Ragnari H. Ragnarssyni, f. 18. nóvember 1955. Foreldrar Ragnars eru Guðný K. Pétursdóttir, f. 15. mars 1928, d. 21. mars 2004, og Ragnar J. Ágústsson, f. 12. september 1926. Börn Ásu Lindu og Ragnars eru: 1) Guðbjörn Hilmir, f. 24. maí 1985. 2) Sveinn, f. 25. desember 1989, d. 25. desember 1989. 3) Guðný Björg, f. 11. apríl 1990. Fyrir átti Ása Linda, Arnar Geir Stefánsson, f. 7. mars 1975. Fyrir átti Ragnar þau Önnu Katrínu, f. 10. mars 1979, sambýlismaður Vilhjálmur S. Eiríksson, og Þorstein Lár, f. 9. september 1983, sambýliskona Íris Ósk Ólafsdóttir, barn þeirra er Daníel Breki. Ása Linda fæddist í Reykjavík og ólst upp í foreldrahúsum, fyrst í Bræðraparti við Engjaveg í Laugardalnum, síðar í Ásgarðinum. Ása Linda lauk prófi úr Verslunarskóla Íslands og fór fljótlega að vinna hjá Ríkissjónvarpinu við útsendingar fréttastofu sjónvarpsins og síðar hjá Stöð 2. Ása Linda og Ragnar hófu búskap sinn í Reykjavík, fyrst á Hofteig og síðar í Efstasundi. Árið 1990 fluttu þau til Bollebygd í Svíþjóð og hafa búið þar síðan. Eftir að þau fluttu til Svíþjóðar starfaði Ása Linda við fréttaútsendingar við Stöð 2 í Gautaborg. Bálför Ásu Lindar fór fram í Bollebygd í Svíþjóð 17. desember. Útför Ásu Lindu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, þriðjudaginn 22. desember, og hefst athöfnin kl. 13.

Sárt er að kveðja þig elsku vinkona mín. Ég vil þakka fyrir allar góðu stundirnar sem við höfum átt saman í gegnum árin. Við Linda vorum afar nánar og höfðum verið vinkonur til fjölda ára eða frá því við vorum börn og ólumst upp í Bræðraparti við Engjaveg. Vinskapur okkar hélst allar götur síðan. Ég lít á það sem forréttindi að hafa alist upp í Bræðraparti og átt svona yndislega vinkonu. Samfélagið í Bræðraparti var mjög sérstakt, þar bjuggu einungis fimm fjölskyldur. Það var eins og að búa í sveit í miðri Reykjavík. Á þeim árum voru tveir bændur með búskap í Laugardalnum og vorum við í nánum tengslum við náttúruna og allt sem dalurinn hafði uppá að bjóða. Þetta var nú einu sinni dalurinn okkar. Linda átti þrjá yngri bræður og var eina stelpan. Ég var líka eina stelpan og átti þrjá eldri bræður og einn yngri. Við vorum eins og systur innan um alla þessa stráka og vorum nefndar Nína og Linda eða Linda og Nína. Oftast réðum við okkur saman í vinnu yfir sumartímann og fórum þá sem kaupakonur í sveit eða unnum við nánast hvað sem er, alltaf var gaman hjá okkur og ævintýrin óteljandi. Tvö sumur réðum við okkur til starfa á sjúkrahúsið á Ísafirði þar sem við fengum herbergi og bjuggum á sjúkrahúsinu. Það var góður tími og kynntumst við frábæru fólki sem við höfum verið í tengslum við síðan. Linda kom til Íslands ásamt fjölskyldu sinni til að kveðja pabba sinn sem lést 7. nóvember síðastliðinn,  þá var Linda orðin langt leidd og heilsuveil og óskiljanlegt hvernig henni tókst að leggja upp í þessa ferð eins máttfarin og hún var orðin. Linda lést að heimili sínu í Svíþjóð 5. desember. Þau feðgin voru borin til grafar saman 22. desember. Blessuð sé minning þeirra. Elsku hjartans Linda mín ég veit að vel hefur verið tekið á móti þér af pabba þínum og öðru góðu fólki sem er farið yfir móðuna miklu. Ég kveð þig í hinsta sinn elsku besta vinkona mín. Hvíl í friði og ég á allar góðu minningarnar um þig. Kærar þakkir fyrir allt og allt.

Elsku Raggi guð gefi þér og fjölskyldunni styrk í ykkar sorgum og elsku Gunna mín guð veri með ykkur öllum og styrki.

Nína Sólveig Jónsdóttir.