Reidun Gustum fæddist í Sör-Fron í Gudbrandsdal í Noregi 29. september 1941. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi fimmtudaginn 21. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Alva Gustum, f. 11. febrúar 1914, d. 2. nóvember 1995, og Oddvar Gustum, f. 29. maí 1922, d. 21. janúar 1989. Systkini Reidun eru Astrid Amundsen, f. 17. september 1937, og Oddmund Gustum, f. 6. september 1954. Eiginmaður Reidunar er Hjörtur Jónasson kennari, bóksali og leiðsögumaður, f. í Ásseli í Sauðaneshreppi 27. júlí 1931. Þau giftust á gamlárskvöld 1962 í Sör-Fron í Noregi. Foreldrar Hjartar voru Jónas Aðalsteinn Helgason, f. 13. ágúst 1896, d. 29. júní 1977, og Hólmfríður Sóley Hjartardóttir, f. 29. ágúst 1910, d. 20. mars 1983. Börn Reidunar og Hjartar eru: 1) Sturla bílstjóri, f. 16. október 1965. Sonur hans og Lindu Óskar Wiium, f. 31. október 1970, er Hjörtur Símon, f. 4. ágúst 1988. Dóttir Sturlu og Sonju Berglindar Hauksdóttur, f. 23. ágúst 1974, er Birta Júlía, f. 10. júlí 1998. 2) Hermann margmiðlunarfræðingur, f. 23. ágúst 1969. Sonur hans og Klöru Egilson, f. 11. mars 1971, er Ingólfur Máni, f. 31. október 1992. Dætur Hermanns og Lísu Bryndísar Matthews, f. 10. október 1971, eru Alva Lena, f. 19. mars 1996, og Lilja Sóley, f. 1. júli 1997. 3) Hólmfríður Sóley bókasafnsfræðingur, f. 2. júlí 1971, í sambúð með Axel Blöndal viðskiptafræðingi, f. 28. september 1965. Dætur þeirra eru Ester Elísa, fædd og dáin 22. febrúar 2008, og Sigrún Björt, f. 14. febrúar 2009. 4) Oddvar Örn ljósmyndari, f. 4. febrúar 1977. Fyrir átti Hjörtur tvo syni, þeir eru: 1) Þórður, f. 26. júlí 1956, móðir hans er Helga Þórðardóttir, f. 14. júlí 1925. Dóttir Þórðar og Sifjar Konráðsdóttur, f. 4. desember 1960 er Helga Österby, f. 18. júlí 1995. 2) Jón Helgi, f. 20. ágúst 1960, d. 19. janúar 1999, móðir hans er Kristín Þórarinsdóttir, f. 24. janúar 1928, d. 25. maí 1996. Reidun og Hjörtur skildu árið 1977, en hófu sambúð að nýju árið 1979, og giftu sig aftur 15. júní 2001. Reidun lauk verslunarprófi frá Haugens handelsskole í Otta 1958, eftir það fer hún að vinna hjá Mesna Bruk í Lillehammer við almenn skrifstofustörf og vinnur þar þar til hún fer til Íslands 1962, til starfa sem au pair-stúlka hjá hjónum í Reykjavík. Reidun og Hjörtur kynnast fljótlega eftir komu hennar til Íslands, og trúlofa þau sig í maí 1962. Reidun starfaði hjá bókabúð Kron í Reykjavík frá 1963 og vinnur þar fram að þeim tíma er Sturla fæðist, og er eftir það að mestu heimavinnandi húsmóðir ásamt því að aðstoða við bóksölu Hjartar. Reidun tók virkan þátt í félagsstörfum um ævina, meðal annars sem gjaldkeri fyrir Nordmannslaget, félagsskap Norðmanna á Íslandi. Útför Reidunar fer fram frá Lágafellskirkju í Mosfellsbæ í dag og hefst athöfnin kl. 15.

Ég var stödd erlendis er lát Reidunar bar að, og vissi því ekki af því fyrr en ég kom til landsins að hún hafði kvatt þessa jarðvist, tveimur vikum eftir jarðarför. Mér brá, því við höfðum talað saman í síma skömmu áður, þar sem við ræddum ýmislegt eins og gengur. Ég man að hún talaði um að hún væri búin að vera hálf kraftlaus að undanförnu, sem var óvenjulegt, því þessi einstaka kona var ætíð geislandi af lífsgleði og krafti. En svona er lífið, kallið kemur yfirleitt þegar minnst varir og við alltaf jafn óundirbúin!

Þessari fögru norsku konu, og fjölskyldu hennar tengdist ég órjúfanlegum böndum, árið 1992 er Klara, eldri dóttir mín, og Hermann, sonur hennar, rugluðu saman reitum, og eignuðust frumburð sinn, Ingólf Mána, og gerðu okkur Reiduni að ömmum!

Reidun fluttist búferlum frá Noregi til Íslands fyrir um það bil 40 árum er hún giftist eigimanni sínum Hirti Jónassyni kennara og fræðimanni og eignaðist með honum 4 mannvænleg börn, sem öll hafa gengið menntaveginn, og lagt sitt af mörkum til þjóðfélagsins. Ekki furða að Hjörtur skyldi falla fyrir þessari fögru norsku fegurðardís, sem alla heillaði, og sem reisti með honum ógleymanlegt menningarheimili að Bugðutanga í Mosfellsbæ .... menningarheimili sem ekki átti neinn sinn líka á Íslandi. Þetta heimili var ekki hægt að toppa í myndarskap. Að standa við hlið mannsins síns í blíðu og stríðu, standa með börnunum sínum í erfiðu námi og skila þeim út í þjóðfélagið, með sóma,  útbúa dýrindis krásir af öllum tegundum leikandi létt, og halda sínu fagra útliti og viðmóti til hinstu stundar, sem engan veginn var tímabært, það var Reidun!

Guð blessi minningu þessarar einstöku norsku konu, sem öllum vildi vel, og sem allir dáðu og virtu er kynntust henni.

Elsku Hjörtur, Hemmi, Stulli, Sóley, Oddvar og fjölskylda! Guð blessi ykkur.

Rósa Ingólfsdóttir.