Ingibjörg Gísladóttir fæddist 10. september 1934. Hún andaðist 7. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Gísli Guðmundsson bifreiðarstjóri, f. 20.3. 1903, d. 10.1. 1983, og Pálína Þórðardóttir, f. 30.5. 1902, d. 9.9. 1935. Seinni kona Gísla var Jónína Sigurrós Scheving Hallgrímsdóttir, f. 17.7. 1908, d. 3.2. 1983, sem gekk Ingibjörgu í móðurstað og ól hana upp sem dóttur sína. Systir Ingibjargar er Pálína, f. 19.6. 1938. Ingibjörg giftist 16.9. 1955 Sigurbergi Sveinssyni viðskiptafræðingi og kaupmanni, f. 15.4. 1934. Foreldrar hans voru Sveinn Þorbergsson vélstjóri, f. 12.4. 1899, d. 10.2. 1989 og Jónína Guðlaugsdóttir húsmóðir, f. 21.10. 1904, d. 15.7. 1991. Börn Ingibjargar og Sigurbergs eru: Hjördís ljósmóðir, f. 1952, maki Ingvar S. Jónsson, f. 1951, Rósa kennari, f. 1957, maki Jónatan Garðarsson, f. 1955, Sveinn kaupmaður, f. 1960, maki Björk Pétursdóttir, f. 1962 og Gísli Þór viðskiptafræðingur, f. 1965, maki Hafdís Sigursteinsdóttir, f. 1967. Barnabörnin eru tíu og barnabarnabörnin þrjú. Ingibjörg ólst upp í Hafnarfirði og gekk þar í skóla. Hún fór ung að vinna og starfaði lengst af við verslun og var um árabil hjá Kaupfélagi Hafnarfjarðar. Hún stofnaði ásamt eiginmanni sínum og hjónunum Bjarna og Valgerði Blomsterberg verslunina Fjarðarkaup í júlí 1973 og starfaði þar fram á síðasta dag. Útför Ingibjargar fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, miðvikudaginn 16. desember, og hefst athöfnin kl. 14.

Áfall var að frétta af andláti  hennar Ingu. Ég trúði því varla, þar sem aðeins rúmri viku fyrr vorum við að fagna 40 ára afmæli Kiwanisklúbbsins Elborgar og jólafundi okkar sameiginlega, Sinawik og Kiwanis.
Inga var hrókur alls fagnaðar í okkar fégsskap, sem er Sinawik Hafnarfjörður, hún var meðal annars formaður, og í ýmsum nefndum og var boðin og búin til að gera hvern fund skemmtilegan.
Við komum til með að sakna nærveru hennar í framtíðinni.
Beggi og fjölskylda. Okkar innilegu samúðarkveðjur til ykkar og megi Guð styrkja ykkur í sorg ykkar.
Veit henni, Drottinn, þína eilífu hvíld og lát þitt eilífa ljós lýsa henni.
Hún hvíli í friði.
Amen.
Fyrir hönd Sinawik Hafnarfjörður,


Hafdís Ólafsdóttir, formaður.