Halldór Friðriksson fæddist á Látrum í Aðalvík 6. maí 1918. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 16. desember sl. Foreldrar hans voru hjónin Friðrik Finnbogason, f. 23.11. 1879, d. 29.10. 1969, og Þórunn María Þorbergsdóttir, f. 16.9. 1884, d. 9.3. 1975. Halldór var 12. í röð 17 systkina. Eftirlifandi eru Bjarni, f. 1920, Þorbergur, f. 1923, og Guðmunda, f. 1925. Halldór kvæntist 24.4. 1943 Sigríði Vilhelmsdóttur, f. 23.8. 1923. Sigríður er fædd og uppalin á Skarði í Skagafirði en fluttist ung til Keflavíkur. Börn þeirra eru: Óla Björk, f. 13.6. 1943, hennar maður var Jóhann Oddur Gíslason, f. 28.5. 1945, d. 2.1.2008. Þau skildu. Sambýlismaður hennar var Hallgrímur Gísli Færseth, f. 1936, d 6.9. 2004. Sigríður Björg, f. 7.9. 1944, hennar maður er Kristján Sigurpálsson, f. 25.4. 1943. Sævar, f. 11.3. 1947. Kona hans er Susie Ström, f. í Færeyjum 16.4. 1956. Þórunn María, f. 24.9. 1950. Hennar maður er Axel Jónsson, f. 5.3. 1950. Barnabörnin eru 10 og barnabarnabörnin eru 10 og 3 væntanleg á nýju ári. Halldór starfaði á sjó frá unglingsárum. Lengi sem kokkur á Mb. Ólafi Magnússyn og Mb. Ingiber Ólafssyni. Síðar hóf hann störf sem málari hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og fékk réttindi sem sveinn í iðngreininni 62 ára gamall. Útför Halldórs fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, þriðjudaginn 22. desember 2009, og hefst athöfnin kl. 13.

Mikið er ég þakklátur að hafa kynnst eins miklum öðlingi og góðmenni eins og þér og haft tækifæri að heimsækja yndislega heimili ykkar Siggu þar sem allir gengu út með vellíðu eftir smákökur, kaffi og skemmtileg spjöll. Í mínum kynnum við þig sá ég hvað það gefur lífinu mikil forréttindi að eiga mikið af börnum, barnabörnum, vinum og ættingjum sem heimsækja mann oft og tel ég það framar flestum auðævum lífsins, hamingja, hlýja, gleði og hlýr kærleikur sem einkenndi þína sálu. Þegar við vorum að pakka niður og koma hlutunum fyrir í gám kom það upp í mér að ég yrði að heimsækja Dóra frænda og Siggu fyrir brottför til Danmerkur. Kom í ljós að þegar ég faðmaði þig og þú óskaðir okkur velfarnaðar í nýju landi, var þetta okkar hinsti fundur á þessum fagra, sólríka ágústdegi.

Sigga, börn, tengdabörn og barnabörn, votta ykkur mína dýpstu samúð. Hugsanir til Smáratúnsins á köldum vetrardegi yljar mér um hjartarætur. Hvíl þú í friði.


Þorbergur Friðriksson, Danmörku.