Ásta Jónsdóttir lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 20. desember. Ásta er fædd 11. júlí í Reykjavík árið 1916 dóttir hjónanna Jóns Meyvantssonar sjómanns og verkamanns (1876-1956) og Guðrúnar Stefánsdóttur Húsmóður (1885-1947). Ásta var fimmta barn foreldra sinna af 9 systkinum. Elstur var Ólafur fæddur 1906 og dáinn 1995. Annar var Meyvant fæddur og dáinn árið 1907. Þriðji í röðinni var Þórður fæddur 1909 og dáinn árið 1955. Meyvant Óskar fæddur árið 1913 dáinn árið 1934. Jón Kristinn fæddur 1918 dáinn árið 2001. Unnur er sjöunda í röðinni fædd árið 1922 og lifir systkini sín. Guðbjög fædd 1925 dáin í janúar 2009 og Sigrún fædd 1928 og dáin það sama ár. Ásta giftist Sigurði M Þorsteinssyni strætisvagnabílstjóra þann 6. okt 1934 síðar aðstoðaryfirlögregluþjóni í Reykjavík og formanni Flugbjörgunarsveitarinnar fæddur 25.feb 1913 dáinn 3. janúar 1996. Ásta og Sigurður einuðust 5 börn og þau eru 1)Óskar fæddur 11.10 1935 kvæntur Brynju Kristjánsson fædd 29.05. 1941 2)Hörður Sigurðsson fæddur 22.03 1937 Fyrri kona Sif Ingólfsdóttir en núverandi kona er Svala Birgisdóttir f 19.09.1950 3)Gunnar fæddur 3.05. 1946. Fyrri kona Ella Maja Tryggvadóttir f 02.08.1948. Núverandi kona er Anne-Marie f 24.03 1948 4)Marta Guðrún fædd 18.04.1948 gift Magnúsi Sigsteinssyni f 16.04.1944 5)Jón fæddur 18.02 1952 kvæntur Margréti Einarsdóttur f 31.12.1953. Fyrir átti Sigurður soninn Sigurð f 6. júní 1929 dáinn 3.okt 2003 hans kona var Guðbjörg Óskarsdóttir f 29.5 1930 d. 17. maí 1994. Barnabörnin eru 17, barnabarnabörnin eru 28 og eitt er barnabarnabarnabarnið Lengst af bjuggu þau Ásta og Sigurður á Laugarnesvegi 43 og fluttu þaðan í Goðheima 22. Síðustu árin sín saman bjuggu þau að Aflagranda 40 og þaðan flutti Ásta í hjúkrunarheimilið í Sóltúni að eiginmanni sínum gengnum. Ásta vann ekki mikið utan heimilis eftir að hún giftist en kom við á nokkrum stöðum þar sem kraftar hennar voru vel þegnir. Ásta Jónsdóttir var hógvær foringi í eðli sínu með sjálfsvitund í lagi og hennar sterkasta hlið var hæfileiki að umgangast alla af virðingu og fá fólk til samstarfs. Hún hafði mikið að gefa og auk fjölskyldu helgaði hún krafta sína kvenfélagi Laugarnessóknar og kvennadeild Flugbjörgunarsveitarinnar þar sem hún var heiðursfélagi og Orlofsnefnd húsmæðra fékk einnig að njóta krafta hennar. Ásta var afar frændrækin og þau Sigurður voru afar samrýmd hjón og heimilið stóð ávalt opið fyrir vinum og frændfólki. Söng hafði Ásta gaman að og kunni mikið af vísum sem hún deildi með öðrum. Og síðast en ekki síst naut hún sín vel í góðra vina hópi Ásta kom í Sóltúnið árið 2002 eins og fyrr greinir og naut þar ætíð virðingar, ástúðar og umhyggju. Útför Ástu verður frá Laugarneskirkju þriðjudaginn 5. janúar og hefst athöfnin kl 15

Það var haustið 1964 að ég var kominn til Reykjavíkur til námsdvalar og var að leita mér að húsnæði. Gunnar skólafélagi minn bauð mér þá að dvelja á heimili foreldra sinna, þeirra Ástu og Sigurðar og tók ég því fegins hendi. Er skemmst frá því að segja að mér var strax tekið sem einum af fjölskyldunni og deildi ég herbergi með Gunnari. Yngstu systkinin voru ennþá heima, þau Marta og Jón en elstu bræðurnir, Óskar og Hörður voru fluttir að heiman og höfðu stofnað sín eigin heimili. Reyndist öll fjölskyldan mér afskaplega vel þennan vetur og ætíð síðan.

Ásta var heimavinnandi húsmóðir og stjórnaði heimilinu af miklum myndarskap en einnig af mikilli hlýju og fór ég ekki varhluta af henni. Má segja að hún hafi gengið mér í móður stað, passaði að ég tæki lýsið á morgnana eins og hin börnin og að ég klæddi mig í samræmi við veður hverju sinni. Ásta sinnti félagsmálum af miklum dugnaði og sópaði oft af henni ef að mikið stóð til. Bæði voru þau hjónin mjög traust og vandað fólk og er ég bæði ríkari og þakklátur fyrir hafa kynnst þeim og þeirra ágætu fjölskyldu.

Eftir þennan vetur ef ég kom ég til Reykjavíkur stóð heimili þeirra Ástu og Sigurðar mér ávallt opið og voru þær orðnar æði margar gistinæturnar sem ég dvaldi hjá þeim. Var mér ætíð tekið með kostum og kynjum og hafði Ásta brennandi áhuga á að fylgjast með hvernig mér vegnaði, hvort heldur sem var í námi eða starfi.

Það sem einkenndi Ástu mest var hversu hreinskiptin hún var, sagði skoðun sína á mönnum og málefnum umbúðalaust. Einnig var henni mjög annt um fjölskylduna og nánustu vini og bar velferð þeirra mjög fyrir brjósti. Vil ég fyrir mína hönd og fjölskyldu minnar þakka hlýhug og vinsemd alla tíð.

Börnum, tengdabörnum og öðrum afkomendum Ástu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ólafur Geir Vagnsson


Foringi er fallinn frá. Já, Ásta frænka er látin, á 94. aldursári, án efa södd lífdaga. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vera settur undir verndarvæng hennar og eiginmanns, á miklum mótunar- og þroskaárum. Að því mun ég ætíð búa og ævinlega verða þakklátur fyrir. Það var ekki síður ánægjulegt fyrir mig að á þessum tíma kynntist þessum stóra hópi skyldfólks, barna hennar, systra og fjölskyldna þeirra, sem ég áður þekkti nánast bara af afspurn og hefði ella farið á mis við.

Ásta frænka var fastur punktur í tilverunni. Hún var eins konar ættmóðir afkomenda Skothússystkinanna af Grímsstaðarholtinu. Hún fæddist ekki með silfurskeið í munni en kom sér vel áfram í lífinu eins og sagt er. Ásta var ákveðin og skipulögð, fylginn sér, gerði kröfur til annarra, en þó allra mest til sín. Hún var hamhleypa til verka, lét ekki sitja við orðin tóm, kom hlutunum í verk. Hún var húmoristi, hló mikið, hló smitandi hlátri, talaði mikið og var ævinlega hrókur alls fagnaðar og hafði unun af því að vera innan um fólk, ekki síst ungt fólk.

Já, foringi var hún, hefði eflaust orðið hershöfðingi, hefði því verið til að dreifa. Hún var mikill félagsmálafrömuður og ég satt að segja kann ekki að tilgreina öll þau störf eða félög sem hún vann fyrir. Man ég helst eftir Kvenfélagi Laugarneskirkju og Flugbjörgunarsveitinni. Ég veit að hún naut mikillar virðingar fyrir störf sín, hvar sem var. Það vill svo að öll mín fullorðinsár hef ég búið í gamla hverfinu hennar, Lauganesinu. Og þegar ég settist hér að fyrir 32 árum síðan mundu margir eftir hennar og virtu hana og störf hennar mikils. Lá við að ég væri þéraður þegar ég sagðist vera bróðursonur Ástu. Henni hefði alla vega líkað sagan þannig.

En hvað sem leið hinu veraldlega vafstri, félagsmálum og góðgerðarmálum, þá held ég að fjölskyldan hafi verið það sem skipti hana höfuðmáli, velferð afkomenda hennar, systkina hennar og þeirra afkomenda. Enda lagði hún mikla áherslu á að halda henni saman. Þegar ég kom til Reykjavíkur voru s.k. sláturveislur Ástu frænku í algleymingi. Þá bauð hún á hverju hausti skyldfólki, oft tugum fólks, í veislu þar sem boðið var upp á slátur og annan innmat. Og enginn vildi eða mátti missa af þessu. Og þegar fjölskyldumót afkomenda foreldra þeirra systkina byrjuðu var hún alltaf mætt fyrst. Og ævinlega þegar eitthvað bjátaði á hjá einhverjum, hvort sem um fjölskylduna var að ræða eða hún þekkti eitthvað til, var hún til staðar. Og ræktarsemin, hún var einstök, alla vega hvað mig varðar. Kannski naut ég þar nafnsins umfram aðra.

Að leiðarlokum eru margar skemmtilegar minningar sem maður grípur til og hlær e.t.v. með sjálfum sér. Það sem stendur þó eftir er þakklæti, þakklæti fyrir hafa fengið að kynnast henni, þakklæti fyrir það örlæti sem hún sýndi mér og mínum.  Ég sendi fjölskyldu Ástu frænku bestu kveðjur frá mér og mínum. Síðast en ekki síst langar mig sérstaklega að senda Unni systur, sem nú hefur séð að eftir öllum systkinum sínum, mínar bestu kveðjur.

Þórður Jónsson

Elsku amma okkar, loksins fékkstu langþráða hvíld.  Eitt er víst að afi, Gugga og Maggi hafa tekið vel á móti þér.

Margar minningar streyma í gegnum hugann á þessari stundina.  Þú og afi voru miklar fyrirmyndir í lífi okkar þið kennduð okkur svo margt það var alveg saman hvað það var, hvort það var í sambandi við handavinnu, að spila á spil, leggja kapal, fara á skíði við getum endalaust talið upp.    Þú og afi höfðuð endalaust þolinmæði að leyfa okkur að skottast með ykkur.  Þær voru margar stundirnar sem við eyddum upp í kofa við Rauðavant, það voru ómetanlegar stundir sem við höfðum bæði gagn og gaman og búum vel af enn þann dag í dag. Eftir að við fluttum upp í Breiðholt þá voru farnar margar strætó ferðirnar úr Breiðholtinu og niður í Goðheima í heimsókn til ömmu og afa.  Það var alltaf svo gott að koma til ykkar, þú átti alltaf handa okkur köku með bleika kreminu.  Þú varst svo dugleg að halda allri fjölskyldunni saman með sláturveislunum á haustin, kvöldkaffinu á aðfangadagskvöld, jólaboðið á annan í jólum þegar að öll fjölskyldan hittist, þá var sko kátt á hjalla hjá okkur.  Sofðu vel elsku amma okkar, við vitum að þú ert í góðum höndum. Okkur langar að kveðja þig með bæninni sem þú kenndir okkur og lifir í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Láttu nú ljósið þitt
loga við rúmið mitt.
Hafðu þar sess og sæti,
signaði Jesús mæti.
(Höf. ók.)

Minning þín lifir í hjarta okkar og Guð veri með þér.

Martha og Einar Júlíus.