Halla Einarsdóttir frá Kárastöðum fæddist í Reykjavík 18. nóvember 1930. Hún andaðist á líknardeild Landspítalans á Landakoti 30. desember sl. Foreldrar hennar voru Einar Halldórsson bóndi og hreppstjóri á Kárastöðum í Þingvallasveit, f. 18. nóv. 1883, d. 19. des. 1947, og k.h. Guðrún Sigurðardóttir húsfreyja, f. 7. júlí 1892, d. 25. febr. 1955. Systkini Höllu eru: 1) Halldór, f. 6. des. 1913, d. 15. des. 1981, kvæntur Margréti Jóhannsdóttur, f. 29. des. 1918, d. 10. apríl 1996. 2) Sigurður, f. 2. ágúst 1915, d. 25. júní 1992, kvæntur Ellen Svövu Stefánsdóttur, f. 24. mars 1922. 3) Jóhanna, f. 21. nóv. 1916, d. 1. júlí 1978, gift Pétri Ottesen Ámundasyni, f. 22. sept. 1911, d. 28. des. 1999. 4) Guðbjörn, f. 2. nóv. 1918, d. 17. jan. 2000, kvæntur Elínu Steinþóru Helgadóttur, f. 19. okt. 1916, d. 1. okt. 2007. 5) Björgvin, f. 8. maí 1921, d. 16. des. 1985, kvæntur Guðrúnu Guðlaugsdóttur, f. 7. okt. 1926. 6) Elísabet, f. 8. júní 1922, gift Jóhannesi Arasyni, f. 15. mars 1920. 7) Guðbjörg, f. 10. maí 1925, d. 7. maí 1927. 8) Geir, f. 9. jan. 1927, d. 8. sept. 1942. 9) Guðbjörg, f. 20. mars 1928, d. 24. des. 2004. 10) Stefán Bragi, f. 12. mars 1933, kvæntur Hallveigu Þorláksdóttur, f. 29. sept. 1934, d. 30. maí 2007. Fósturbróðir Höllu var Árni Jón Halldórsson, f. 23. des. 1923, d. 21. maí 2004, kvæntur Grétu Maríu Ámundadóttur, f. 12. júní 1926. Um árabil naut Halla samfylgdar góðs vinar, Guðbrands Guðjónssonar bankamanns í Reykjavík og útibússtjóra Landsbankans á Hvolsvelli, f. 10. sept. 1935, d. 9. des. 1999. Halla ólst upp á Kárastöðum og dvaldi þar fram um tvítugsaldur er hún fór til Reykjavíkur að vinna fyrir sér. Hún starfaði á prjónastofunni Malín á Grettisgötu og síðan í Áfengisverslun ríkisins. Árið 1971 hóf hún störf hjá Landsbanka Íslands og vann þar þangað til 1993 er hún lét af störfum. Útför Höllu fór fram frá Fossvogskapellu föstudaginn 8. janúar, í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Aska hennar verður jarðsett í Þingvallakirkjugarði.

Elsku Halla mín nú ertu sofnuð eftir hetjulega baráttu við erfiðan sjúkdóm. Ég dáðist að styrk þínum og æðruleysi í þeirri baráttu. Þú varst einstök manneskja, lifðir að mörgu leiti einföldu og látlausu lífi en samt varstu heimsborgari, vel lesin og talaðir einstaklega einstaklega fallega íslensku. Mér fannst aðdáunarvert hversu óhrædd þú varst að tjá þínar skoðanir á mönnum og málefnum á skeleggan hátt, jafnvel þó einhverjir gætu verið ósammála. Þú varst ákaflega trú þínum skoðunum og gast sett þær fram á beinskeyttan hátt en þú hafðir líka hlýtt hjarta, varst mikill dýravinur og réttir hjálparhönd til þeirra sem minna máttu sín. Kímnigáfa þín var líka snörp.

Það var einstakt í fari þínu hvað þú hafðir gaman af börnum og varst minnug á á nöfn og aldur barna í fjölskyldunni og það breyttist ekki þó afkomendur systkina þinna væru orðnir fjöldamargir. Ég á  yndislegar minningar um heimsóknir þínar og Guðbjargar systur þinnar á bernskuheimilið mitt til að aðstoða mömmu við annast litla bróður minn sem var hjartveikur fyrsta árið eftir að hann fæddist. Þið systurnar sýnduð einstaka alúð litlu fjölskyldunni okkar sem var okkur mjög dýrmæt. Ég er þakklát fyrir stundirnar sem við áttum saman elsku frænka.Guð geymi þig.

Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum
lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.

(Davíðssálmur.)

Anna María Jónsdóttir