María Ólína, eða Olla eins og hún var jafnan nefnd, var frá Horni í Sléttuhreppi. Þar fæddist hún þann 15. janúar árið 1921 lést þann 25.12.2009 jóladag Foreldrar hennar voru búandi hjón á Horni þau Guðný Halldórsdóttir fd. 1.sept. 1888 látin 20.feb. 1983 og Kristinn Plató Grímsson fd. 16.okt 1894 látinn 27. mai 1966. Yngri systkini Ólínu þau Guðrún Elín fædd 5.nóv.1923 og Magnús fæddur 6.jan 1933, lifa bæði systur sína. Systkini þeirra sammæðra voru Guðveig Hinriksdóttir 1909-2002 og Kristján Marías Kristjánsson 1914-1916. Með Ólínu ólust einnig upp fóstursyskini hennar Snorri Júlíusson fd. 30.ágúst 1916 látinn 8. ágúst 1995 og Gróa Alexandersdóttir, fædd 25.júlí 1924 látin 19.sept. 2002 öll eru þau fallin frá. Ólína giftist Hreiðari Guðlaugssyni þann 28. ágúst árið 1943. Hreiðar var um árabil verkstjóri hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur. Hann lést um aldur fram fyrir tæpum þremur áratugum. Heimili þeirra stóð fyrst við Ægissíðuna en lengst í Ásgarði 73, síðast fluttist hún í Árskóga 6. Synir þeirra eru Gunnlaugur Kristinn f.1943 og Helgi Már.f.1952 Gunnlaugur er kvæntur Kolbrúnu Guðmundsdóttur. Helgi er kvæntur Guðrúnu Ólöfu Sigmundsdóttur. Ættboginn telur sex barnabörn og tíu langömmubörn og fæddist yngsti afkomandinn lítil stúlka þann níunda desember síðastliðinn. Útför Maríu Ólínu fór fram frá Bústaðakirkju 6. janúar í kyrrþey.

Elsku amma.

Í fyrstu 20 köflunum ævi þinnar eyddir þú í faðmi fjölskyldunnar, í  stórbrotinni náttúru Vestfjarða í nánd við vestasta odda Evrópu, þar sem veturnir voru dimmir og langir en sumrin fögur og hlíðarnar grænar. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa ömmu í mínu lífi í nær 40 ár.

Það er margs að minnast elsku amma, bestu minningarnar mínar eru úr Ásgarðinum með þér og afa. Á hverjum sunnudegi komum við í mat til ykkar og það var ósjaldan sem við Hreiðar bróðir fengum að gista, seinna bætist svo Óli bróðir við. Þegar ég lít yfir veginn og hugsa um allt það góða sem þú hefur kennt mér, þá finnst mér vænst um minningar eins og  orðalag og frásagnir. Það hýrnaði alltaf yfir þér og mátti sjá blik í augum þínum  þegar þú fórst að tala um og segja okkur frá uppvaxtarárum þínum á Horni.

Á ævi þinni kynntist þú sjálfsþurftarbúskap, búskap í bragga hverfinu, hvernig lífið var án sjónvarps og útvarps, án allrar tækni og vísinda eins og við þekkjum í dag. Þú gast líka tekið þátt í tækniöldinni og kunnir því líka vel. Við ræddum það oft hversu miklar öfgarnar hafa verið frá því að þú leyst dagsins ljóss og til dagsins í dag. Orðalag þitt hefur alltaf glatt mig og ætla ég að varveita það vel. Orð  eins og altan, portó, opnaðu sjónvarpið, kroppalingur, skjóða, garmar, dúfurinn og mörg fleiri, eru orð sem þú notaðir í daglegu tali. Það að hafa kynnst Kana-sjónvarpinu hjá ykkur afa, fengið stundum sveskjugraut í desert eftir sunnudagssteikina, farið í ísbíltúra og niður á höfn að skoða skipin svo eitthvað sé nefnt. Þessar minningar eru svo ljúfar og gott að rifja upp nú þegar þú hefur hvatt okkur og farið á fund annarra.  Ég man líka hversu sárt það var þegar afi dó, langt um aldur fram, aðeins 59 ára gamall. En þú stóðst þig alltaf eins og hetja og hélst áfram. Seinna kynntist þú Sigurjóni og fluttuð þið saman í Árskógana, þið áttuð góðan tíma sama áður enn hann veiktist og lést svo nokkru síðar.

Þú naust þess að ferðast og fórst í margar utanlandsferðirnar, það eru ekki mörg ár síðan þú treystir þér ekki lengur erlendis. Það var sérstaklega ánægjulegt þegar þú komst með mömmu til okkar, þegar við bjuggum í Aberdeen. Það voru ófáar ferðirnar sem við fórum í búðirnar, mátuðum föt og fórum á kaffihús í þeirri ferð. Það var líka alltaf gott að koma til þín í Árskógana og aldrei fór maður svangur heim, þú varst höfðingi heim að sækja. Við gátum oft setið lengi saman og spjallað, við gátum treyst og trúað hvor annarri fyrir hlutum sem við vildum ekki viðra við hvern sem var.

Þessar minningar og svo margar aðrar geymi ég vel í hjarta mínum.

Nú hefur þú farið í þína síðustu ferð elsku amma, ég veit að það hefur verið  tekið vel á móti þér og þér líður vel.

Takk fyrir að vera til staðar á mínum stærstu stundum í lífinu, elsku amma.

Guð geymi þig kroppalingur,

Þín

Rósa G.

Rósa Gunnlaugsdóttir

Ég kveð í dag ástkæra tengdamóður mína, M. Ólínu, eða Ollu eins og hún var alltaf kölluð. Hún kvaddi á jóladag, á hátíð ljóss og friðar sem var táknrænt þar sem hún vara mikið jólabarn.

Olla var mér yndisleg tengdamóðir og reyndist mér sem besta móðir og vinkona í 45 ár. Við trúðum og treystum hvor annarri. Hún var létt og kvik á fæti, alltaf fín og vel til höfð, hárið og fötin urðu alltaf að vera í besta lagi og það var toppurinn þegar ég pússaði og lakkaði á henni neglurnar. Hún elskaði ferðalög, sól og hita. Varla komin heim úr einni ferð þegar búið var að panta þá næstu. Hún naut sýn alltaf vel í sumarbústaðnum í Grímsnesinu, úti á palli í sólbaði eða inni að spila við ömmu og langömmu börnin, Ólsen, ólsen eða Manna og það var bannað að svindla. Það varð að drífa kvöldmatinn af svo hægt væri að byrja á að spila Kana og helst langt fram á nótt. Við vöktum oft saman um Jónsmessunætur til að horfa á sólina setjast, þetta er eins og á Horni í gamla daga sagði hún og ljómaði.

Olla var mikil hannyrða kona og prýða heimili okkar og barna okkar verk hennar. Það var gaman að skoða hanndavinnusýningar með henni í Árskógum, í þeim hópi átti hún margar og góðar vinkonur.

Ég á endalausar minningar um þig, elsku Olla mín, sem ég geymi í hjarta mínu.

Með þessum orðum vil ég þakka þér allt sem þú hefur gert fyrir mig og Gulla, börnin okkar og barnabörnin. Nú hefur Hreiðar afi tekið á móti þér opnum örmum og þið dansið saman, berðu honum kveðju okkar. Blessuð sé minning góðra móður, tengdamóður, ömmu og langömmu. Guð geymi þig.

Þín tengdadóttir

Kolbrún (Kolla).

Elsku amma mín, það er sárt að hugsa til þess að fá ekki að koma oftar til þín í heimsókn, en svona er lífið. Það er auðvelt fyrir mig að segja að þú hafir verið besta amma í heimi enda varstu mín eina amma og þú varst lang besta amma í heimi.

Allar minningarnar úr Ásgarðinum sem ég geymi hjá mér eru óteljandi fyrstu minningar mínar koma margar þaðan, og sú allra sterkasta er líklega þegar ég fór með Morgunblaðið inn í herbergi til langömmu. Ég skildi ekkert í því hversvegna hún vaknaði ekki, ég fékk útskýringu á því síðar.

Að hafa fengið að fara með þér í bíltúr var viss áfangi sem ég er hreykinn af, hafa upptvötað altanið það var nokkuð gaman og fyrsta örbylgjupoppið. Svo liðu tímarnir og ég fékk bílpróf og byrjaði í Fjölbraut í Breiðholti og þú varst í Árskógunum, það var snilld. Ég get sagt það núna að þar hafa sko heilu tímarnir liðið (skólatímarnir). Það þurfti að borða mikið af osti og skinkubrauði, það smakkast ennþann dag í dag best úr gamla örbylgjuofninum. Svo var það sófinn, aðeins að glápa á sjónvarpið og svo var sofið, ég var svo glaður að fá að sofa eins og ég vildi, því þú sagðir alltaf að ég væri svo þreyttur að þú tímdir ekki að vekja mig. Leið mín lá svo í Hótel- og veitingarskólann og ekki var það verra, ég í Kópavogi og þú rétt hjá. Það var sama uppskriftin, skinku og ostabrauðið, sjónvarpið og svo sófinn, en þá gerðum við reglur, þá varðstu að vekja mig, annars hefði ég líklega aldrei útskrifast þaðan.

Svo áttum við frábærar stundir nokkra vetur á Kanaríeyjum, þar gastu sólað þig hverja einustu mínútu, hefði verið sól á nóttinni hefðirðu sofið úti á altani. Og ekki má gleyma bleiku dúkunum, staðurinn sem þú vissir ekki hvað hét, það voru á honum bleikir dúkar svo það sagði sig sjálft.

Elsku amma, svo allir hádegis verðarnir sem við fengum okkur síðustu árin, allar sögurnar sem við áttum, þér fannst svo gaman hvað ég hafði mikinn áhuga á veiði og þú sagðir mér margar sögur af afa og þér veiða. Þó aðallega af afa. Og hvað ég er fegin að síðasti laxinn sem ég veiddi á þessu sumri endaði í pottinum hjá þér.

Elsku amma, ég þér líka svo innilega þaklátur fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur Hönnu, og hvað ég er fegin að þú komst í 3ja ára afmælið hans Eyþórs Andra, núna í október.

Elsku amma mín það var erfitt að heimsækja þig á spítalann og þar lauk ferð þinni á jóladag og hefur afi tekið vel á móti þér.

Minning mín um þig mun lifa um bestu ömmu í heimi. Amma ég mun elska þig af eilífu.

Vertu yfir og allt um kring
í eilífri blessan þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.

Þinn

Óli Már.

Það koma upp í huga okkar margar yndislegar minningar við andlát Ólínar systur minnar og mágkonu, lífið verður ekki það sama við brottför hennar, svo samrýmdar vorum við, það leið varla sá dagur að við áttum ekki spjall saman.

Olla systir, eins og hún var oftast kölluð, var með afbrigðum gestrisin kona, kaffi, vöfflur og rjómi voru oftast borin á borð er gesti bar að. Það var ekki ósjaldan er við fjölskyldan komum saman um jól og aðrar hátíðar til hennar og Hreiðars heitins í Ásgarðinn, að engu var til sparað í mat og drykk.

Olla var búin að vera búsett í Árskógum 6 í 17 ár er hún lést.  Hún hafði alla tíð haft mikla ánægju að blanda geði við fólk, var mikil félagsvera í eðli sínu. Þar eignaðist hún marga vini og kunningja, féll vel inn í félagsstarfið í Félagsmiðstöðinni, eyddi þar oft hluta úr dögum við handavinnu og aðra listræna hluti, sem hún gaf ættingjum og vinafólki.

Olla hafði mikla ánægju af ferðalögum, oftast var farið í sólarlandaferðir til ýmissa landa.  Hún elskaði sólarstrendur og kom ætíð heim hress og ánægð úr þeim ferðum. Við hjónin fórum nokkrar ferðir með henni og  tókust þær allar frábærlega vel. Á þeim árum, sem við bjuggum í Kalíforníu, kom Ólína til okkar i nokkrar heimsóknir, einn daginn ákváðum við að fara í 5 daga ferðalag, við  vorum fjögur, ég, Guðrún, Olla og Kristinn sonur okkar, trailerinn gerður klár og tengdur við bílinn og ekið af stað og farið á marga þekktustu ferðamannastaði Kaliforníu, þar á meðal í Yosemite National Park, einn sá fegursti staður, sem við höfum komið á, dvöldum þar í rúman sólarhring, stórkostlegt sköpunarverk. Þessi ferð skildi eftir ógleymanlegar minningar hjá okkur öllum.   Þakklæti færum við fyrir allar þær góðu og gefandi stundir, sem við áttum með Ólínu og fjölskyldu hennar.

Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum
lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
(23. Davíðssálmur)

Guðrún og Torfi.

María  Ólína Kristinsdóttir Kær móðirsystir er fallin frá eftir stutt veikindi en langa og farsæla ævi. Þrátt fyrir háan aldur kom skyndileg veikindi og fráfall hennar okkur í opna skjöldu. Kannski vegna þess að Olla var síung, glæsileg og einstaklega höfðingleg kona sem alltaf bar sig vel. Olla frænka var fædd og uppalin á Horni í Hornsvík, dóttir hjónanna Kristins Grímssonar og konu hans Guðnýjar Halldórsdóttur. Búskapur á Hornströndum var ekki nema fyrir harðduglegt fólk.  Bæirnir sem stóðu rétt fyrir ofan fjöruborðið undir háum tindunum voru kyntir með rekaviði sem þótti gott á þeim tímum. Hornstrendingar voru afburðasjósóknarar og sóttu í bjargið eftir fugli og eggjum. Þótt lífið hafi oft verið erfitt á þessum hjara veraldar þá var alltaf nóg að borða og gestrisni og þekking Hornstrendinga annáluð. Þetta mikla og góða veganesti tók Olla með sér þegar byggð var að leggjast af á Hornströndum og hún eins og svo margir aðrir fluttust á mölina  til Reykjavíkur eftir seinni heimsstyrjöldina. Þar kynntist Olla eiginmanni sínum Hreiðari Guðlaugssyni verkstjóra hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur.  Olla og Hreiðar eignust tvo dugnaðarsyni, Gunnlaug og Helga. Af litlum efnum byggðu þau sér stóra og fallega íbúð í Ásgarðinum. Þau hjónin voru ávallt mjög dugleg og samhent. Olla vann alltaf utan heimilisins, síðast við Breiðagerðisskóla.  Meðal bestu minninga frá barnæsku minni voru heimsókinirnar og boðin hjá Ollu og Hreiðari í Ásgarðinum. Þar var alltaf vel og glæsilega veitt af veitingum og gaman að heimsækja þau hjón. Hreiðar lést langt fyrir aldur fram snemma árs 1980 og var fráfall hans mikill missir fyrir Ollu og fjölskylduna.Það var alltaf náið samband milli systrana frá Horni, Ollu og Guðrúnar móður minnar. Um miðjan sjöunda áratuginn flutti Guðrún og fjölskylda hennar til Bandaríkjanna. Þótt langt væri á milli systrana komu Olla og Hreiðar í heimsóknir til okkar í Kalíforniu og þá var glatt á hjalla. Olla elskaði að ferðast og það voru ekki ófáar ferðirnar sem hún fór erlendis allt fram að síðustu árum ævi sinnar. Eftir að foreldrar mínir fluttu til baka heim til Íslands tók Olla og fjölskylda hennar við þeim með opnum örmum og haldast þau nánu fjölskyldutengsl þótt Olla sé nú öll.Þegar við bræðurnir höfum komið í heimsóknir til Íslands var alltaf komið við hjá Ollu frænku  í heitt súkkulaði og kökur í Árskógunum. Alltaf leysti hún okkur út með gjöfum, konfektkassa og  fallegum hlutum. Við eigum eftir að sakna þessara heimsókna.Við kveðjum kæra frænku umvafna hlýjum minningum og kærleik.

Með ástarþökk ertu kvödd í hinsta sinni hér

og hlýhug allra vannstu er fengu að kynnast þér.Þín blessuð minning vakir og býr í vinahjörtumá brautir okkar stráðir þú, yl og geislum björtum.(Ingibjörg Sigurðardóttir.)  Við sendum Gulla og Kollu, Helga og Gunnu, barnabörnum og barnabarnabörnum innilegar samúðarkveðjur frá okkur.

Fyrir hönd bræðra minna Sæbjörns og Kristins

Ingólfur Rúnar Torfason

Ingólfur Rúnar Torfason.

Ó, blessuð vertu, sumarsól,
er sveipar gulli dal og hól
og gyllir fjöllin himinhá
og heiðarvötnin blá.
Nú fossar, lækir, unnir, ár
sér una við þitt gyllta hár,
nú fellur heitur haddur þinn
á hvíta jökulkinn.
(Páll Ólafsson.)

Elsku amma okkar, blessuð sé minning þín.

Eva Björk, Heiða María, Lilja Hrönn.

Eva Björk, Heiða María, Lilja Hrönn.