Jónína Margrét Egilsdóttir Jónína Margrét Egilsdóttir fæddist í Múla, Biskupstungum, 25. maí 1939. Hún andaðist á Ljósheimum, Selfossi, 15. desember s.l. Foreldrar hennar voru Egill Geirsson, bóndi Múla, f. 11. júlí 1906, d. 5. desember 1990 og Stefanía Valdimarsdóttir, húsfreyja Múla, f. 14. mars 1904, d. 9. október 1986. Systkyni Jónínu Margrétar eru: Geir Sigurður, f. 4. ágúst 1931, d. 17. desember 1931, Geir, f. 2. maí 1936, Anna Sigríður, f. 2. maí 1936, Guðbjörg, f. 1. ágúst 1937 og Páll Haukur, f. 20. mars 1944. Eiginmaður Jónínu Margrétar var Eiríkur Ásgeir Þorleifsson, f. 6. ágúst 1938, d. 14. apríl 2008. Foreldrar hans voru Þorleifur Þorleifsson, f. 9. júlí 1895, d. 18. júní 1984 og Stefanía Marta Guðmundsdóttir, f. 27. júlí 1907, d. 16. júní 1983. Börn Jónínu Margrétar og Eiríks Ásgeirs eru: 1) Ásgeir, f. 26. mars 1975. Sonur hans og Elísabetar Óskar Magnúsdóttur, f. 5. júní 1984, er Róbert Máni, f. 25. ágúst 2002. Sambýliskona Ásgeirs er Rósa Hildur Bragadóttir, f. 13. janúar 1984; 2) Svala, f. 11. maí 1977, sambýlismaður hennar er Smári Björn Stefánsson, f. 23. ágúst 1981. Fyrir átti Eiríkur Ásgeir soninn Erling, f. 4. desember 1964, eiginkona hans er Kristín Gísladóttir, f. 15. júlí 1966. Börn Erlings og Gróu Margrétar Sigurðardóttur f. 14. ágúst 1966 eru: Elín Rut, f. 19. apríl 1991 og Eðvarð Ingi, f. 29. desember 1994. Útför Jónínu Margrétar fór fram frá Kotstrandarkirkju 22. desember síðastliðinn í kyrrþey.


Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum
lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
(23. Davíðssálmur)

Nú er ævisólin hennar Jónínu Margrétar systur minnar sest. Hún kvaddi þetta líf að kvöldi 15. desember síðastliðinn. Það er alltaf sárt að missa ástvini sína, ekki síst svona rétt fyrir jólin. Þá er einmitt tíminn til að hittast og gleðjast saman. En við ráðum ekki för. Gréta hafði átt við veikindi að stríða fyrir nokkrum árum en við vonuðum að hún væri komin yfir þau. Þegar svo leið á þetta ár sáum við að þar var meir en lítið að.

Hún greindist svo með krabbamein síðla sumars og var lögð inn á Heilsustofnun Suðurlands í lok ágúst. Þar með voru örlög hennar ráðin. Ég mun aldrei gleyma því hugrekki sem hún sýndi þegar læknirinn staðfesti mein hennar. Ekki æðruorð af hennar vörum.

Hún kvartaði aldrei en ég veit að hún hugsaði sitt. Fyrir aðeins hálfu öðru ári missti hún Geira sinn. Hann var okkur öllum harmdauði.

Börnin þeirra, Ásgeir Stefán og Svala, hafa því misst báða foreldra sína rétt rúmlega þrítug að aldri. Þá var gæfa Grétu að dóttirin bjó aðeins nokkrum húslengdum frá heimili hennar. Hún umvafði móður sína í veikindum hennar, var hjá henni öllum stundum sem hún gat. Þar til yfir lauk.

Það voru örlög okkar systra að við bjuggum oftast nærri hvor annarri.

Nú þegar komið er að leiðarlokum er okkur systkinum hennar og fjölskyldum efst í huga þakklæti og söknuður. Það er margt sem þakka ber eftir langa samfylgd.

Og ég er sannfærð um að eitt það dýrmætasta í lífinu eru samferðamennirnir góðir vinir og bara gott fólk sem maður umgengst daglega.

Hvað er ljós

ef ekki er myrkur?

Hvað er mótlæti

ef enginn er styrkur?

Hvað er sorg

ef ekki er gleði?

Hvað er söknuður

ef ekki er minning?

(Óþekktur höfundur.)

Ég hlakka til endurfunda.

Anna Sigríður.

Gréta mágkona mína er fallin frá eftir erfið veikindi.

Ég man eftir því er ég kom í fjölskylduna að hún tók mér með mikilli varkárni til að byrja með og vorum við lengi að kynnast hvor annarri, en með tímanum urðum við góðar vinkonur.  Við bjuggum ekki langt frá hvor annarri eftir að við fluttum til Hveragerðis og hittumst því nánast daglega.  Börnin okkar hjóna hændust mjög að henni og var hún mikil uppáhaldsfrænka.

Í nokkur ár var hún símstöðvarstjóri í Aratungu í Biskupstungum og sáu þau hjón meðal annars um félagsheimilið á staðnum.  Það kom fyrir oftar en einu sinni er við komum til þeirra að dansleikur stóð yfir í félagsheimilinu og fengu krakkarnir okkar að kíkja niður í sal í gegnum litla glugga sem voru á efri hæð hússins og fannst það ekkert smá spennandi.  Eins bjuggu þau hjón í nokkur ár í Múla í Biskupstungum og var þá oft farið í heimsókn til þeirra.

Gréta mín, hafðu þökk fyrir samveruna í gegnum tíðina.

Elsku Ásgeir, Svala, Erling og fjölskyldur, megi góðar minningar græða sárin og guð geymi ykkur.

Sóley.

Gréta systir mín hefur kvatt þennan heim eftir erfið veikindi um nokkurn tíma og langar mig að minnast hennar með nokkrum orðum.

Hún var trygg og vinaföst og hafði ákveðnar skoðanir á málefnum er hún lét sig varða og ekki er því að neita að hún var talsvert stjórnsöm.

Við ólumst upp við hefðbundin störf í Múla í Biskupstungum hjá foreldrum okkar.  Eitt þeirra haustverka sem féllu í okkar hlut var að svíða kindahausa og lappir í sláturtíðinni.  Notaður var prímus til verksins og þótti okkur vinna þessi leiðinleg og seinunnin.  Eitt sinn stakk Gréta upp á því að við fengjum okkur vindil að reykja á meðan á þessari athöfn stæði, en gestir höfðu verið daginn áður sem skildu eftir nokkur stykki sem átti að nota við góð tækifæri til að fá hátíðarlykt í húsið.  Brösuglega gekk að kveikja í þessum forláta vindlum en tókst þó um síðir og hófust þar með reykingarnar.  Þegar hætta stafaði á að einhver óboðinn væri á ferðinni, var tekið á það ráð að láta ósviðinn haus á prímusinn sem framkallaði megna lykt.  Var reykingum og vinnu síðan haldið áfram um hríð, eða allt þar til ég varð fárveikur með uppköst og ótrúleg vanlíðan fylgdi með.  Gréta kenndi sér einskis meins og skildi ekki þennan aumingjaskap og spurði hvort ég gleypti reykinn eins og ég væri að borða.  Ég býst við að ég hafi gert það, svaraði ég.  Ekki datt mér í hug að þú værir svona vitlaus Geir minn svaraði hún og þar með var ekki talað meira um þetta atvik.

Til Grétu leituðu ýmsir aðilar er ekki fóru troðnar slóðir, hvorki í tali né gjörðum.  Ég hef grun um að hún hafi haft ánægju af sérkennum þeirra og veit ég með vissu að hún gerði þeim ýmsan greiða sem á hennar færi var.  Einnig veit ég að henni þótti vænt um þessa skjólstæðinga sína og vildi veg þeirra sem bestan.

Að leiðarlokum vil ég þakka Grétu systur fyrir samfylgdina.

Ásgeir, Svölu og Erling, ásamt fjölskyldum þeirra, sendi ég innilegar samúðarkveðjur

Geir.