Gunnlaugur Halldór Þórarinsson var fæddur þann 20.ágúst 1925 og uppalinn á Ríp í Hegranesi og bjó þar ásamt foreldrum sínum þar til hann tók við búi ásamt Þórði bróður sínum. Gunnlaugur fluttist síðan að Smáragrund 12 á Sauðárkróki árið 1971 þar sem hann bjó ásamt Guðrúnu konu sinni og síðan einn eftir andlát hennar. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki að morgni 7.janúar síðastliðnum. Foreldrar hans voru þau Þórarinn Jóhannsson, bóndi á Ríp f.21.janúar 1891, d.14.júní 1985, og Ólöf Guðmundsdóttir, f. 11. mars 1898, d. 28. Desember 1985. Gunnlaugur var fjórði elsti í röð af tíu systkinum. Gunnlaugur eignaðist dóttur með Geirlaugu Ingvarsdóttur f.26.september 1932, frá Balaskarði í Laxárdal. Dóttir þeirra er Signý f. 20.október 1967, bóndi á Balaskarði. Sambýlismaður hennar er Magnús Jóhann Björnsson f. 17.júní 1969, bóndi á Syðra-Hóli. Börn hans eru Björn Elvar f.26. júní 2002 og Stefanía Dúfa f. 2. apríl 2005. Gunnlaugur giftist árið 1971 Guðrúnu Sveinfríði Jakobsdóttur f. 7 maí 1930 d. 21.janúar 2003. Foreldrar hennar voru þau Jakob Einarsson, bóndi á Dúki, f. 9. Janúar 1902, d. 18. Júlí 1987 og Kristín Jóhannsdóttir, f. 25. Október 1900, d. 10. September 1965 og áttu þau saman tvö börn. Börn Gunnlaugs og Guðrúnar eru Halldór Brynjar, f. 30.apríl 1969 búsettur í Danmörku og Þórunn Ólöf, f. 29. Apríl 1971, búsett á Sauðárkróki. Sambýliskona Halldórs er Hildur Þóra Magnúsdóttir f. 21. Október 1979. Börn þeirra eru Brynjar Þór, f. 12. Nóvember 2007 og Súsanna Guðlaug f. 2. September 2009. Sonur Hildar er Magnús Hólm, f. 28. Janúar 2000. Dætur Guðrúnar eru Jóhanna Lúðvíksdóttir f. 18. Febrúar 1959, búsett á Akureyri og Kristín Lúðvíksdóttir f. 3. September 1962, búsett á Sauðárkróki, hennar maður er Kolbeinn Sigurjónsson og eiga þau þrjú börn, Atla Frey, f. 21. Mars 1984, Guðrúnu Ásu, f. 30. Janúar 1989 og Fannar Loga f. 15. Ágúst 1992. Gunnlaugur bjó á Ríp eins og fram hefur komið til 1971 er hann fluttist á Sauðárkrók og vann þar sem verkamaður til 1995 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Gunnlaugur átti einnig áfram sinn hlut í Ríp og stundaði þar hrossabúskap áfram til dauðadags. Hann var mikill hestamaður, átti alltaf góða hesta sem hann hafði mikið gaman af. Búmanns hjartað hætti heldur aldrei að slá og hann fylgdist grannt með búskap dóttur sinnar, vina og ættingja og var alltaf tilbúinn að taka til hendinni þegar aðstoðar var þörf og gefa góð ráð. Útför Gunnlaugs verður gerð frá Sauðárkrókskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.00.

Elsku pabbi, mig langar að skrifa þér nokkur kveðju og þakkarorð og hef í þeim tilgangi sest niður annað slagið undanfarna daga og beðið þess að andinn komi yfir mig, nokkuð sem hann hefur ekki séð sér fært. Ég veit ekki hvað veldur, annað hvort er ég ekki búinn að meðtaka þetta og/eða ekki tilbúinn að kveðja. Ég kem fram á morgnana og býst við að sjá þig sitja og hlusta á fréttir og raka þig, sjá þig knúsa barnabörnin þegar þau týnast fram, heyra þig lista upp hvað þarf að gera í dag, koma með tillögur að matseld þennan daginn o.s.frv. Ég veit það hefur einnig áhrif að mér þykir verkefnið svo viðamikið að mér fallast hendur. Hvernig get ég í nokkrum línum þakkað þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér, allt sem þú hefur fyrir mig gert, allt sem þú hefur kennt mér og þakkað þér allar góðu stundirnar og minningarnar sem ég á. Sagt þér og öðrum hversu mikilvægur þú varst mér, hversu stór hluti af lífi mínu þú varst. Sagt þér að þú varst besti faðir sem ég get hugsað mér og þó þú hafir ekki verið duglegur að tjá tilfinningar þínar í orðum þá gerðir þú það þeim mun sterkar í atferli og gjörðum. Nú þegar ég sit hér og hugsa þetta, þá á ég þá ósk heitasta að börnunum mínum þyki þó ekki væri nema að hluta til jafn vænt um mig og mér hefur alltaf þótt um þig og vona ég geti verið þeim þessi styrka stoð sem þú hefur alla tíð verið mér.

En hver var hann pabbi?  Síðustu vikurnar þá hef vakandi og sofandi hugsað um hann, ég hef skoðað mikið af myndum, rifjað upp árin okkar saman og talað við fólk sem þekkti hann og sagt fólki frá honum sem þekkti hann minna og það er svo margt fallegt og gott um hann að segja.  Hann átti afskaplega létt með að kynnast fólki, á ferðalögum á sumrin, sitjandi í flugvélum, fólkið í næstu tjöldum á tjaldstæðinu, vitaverði, starfsfólk á söfnum, afgreiðslufólk í búðum, bensínstöðvum, í réttum, á hestaferðum, bændur allt í kringum landið, alveg sama hvar sem hann kom þá var hann alltaf kominn í hrókasamræður við viðkomandi. Alltaf náði hann að tengja viðkomandi við einhvern sem hann þekkti og kom til baka og sagði okkur allt um viðkomandi. Hverjum í Skagafirði hann væri skyldur, hvar hann byggi, hvernig væri að búa þar og á þeim stað sem viðkomandi var uppalinn o.s.frv o.s.frv. Alltaf kom hann til baka með áhugaverðar upplýsingar eða skemmtilegar sögur sem hann mundi svo og safnaði í sarpinn. Eins og honum fannst gaman í Danmerkurheimsóknum sínum þá saknaði hann þessa, hann vildi keyra heim á bóndabæina og tala við fólk, spyrja til dæmis hvernig á því stæði að það sæist aldrei vinnandi maður á neinu býli. Hann var ofboðslegur dugnaðarforkur og að því er virtist óþreytandi, ég man að hann sagði alltaf að hann vissi ekki hvað þreyta væri. Hann bara kláraði verkið og svo hvíldi hann sig, ef það var tími til þess, sem var ekki alltaf á hans yngri árum, annars hélt hann bara áfram. Ég veit að ég hafði aldrei roð við honum, ekki nema kannski allra síðustu árin. Ég hef einungis kynnst örfáum mönnum sem virðast hafa þessa óþrjótandi orku og hinir væru án efa á ritalíni í dag, en pabbi var ekki ofvirkur, hann var bara svona vinnusamur og duglegur.Þetta var reyndar líka galli, því hann var einhvern veginn alltaf að drífa sig, til þessa að komast í næsta verk. Ég lagði mikið á mig til þess að reyna að breyta þessu hin síðari ár og fá hann til þess að slaka á og njóta augnabliksins. Stundum fannst mér vel til takast en önnur skipti fannst mér hann vera að leika það til að þóknast mér. Þá var eins og hann biti á jaxlinn þar til hann gat ekki meir og hentist á fætur gekk frekar í hringi eða fann sér eitthvað annað að dunda á meðan aðrir slökuðu á. Pabbi varð aldrei gamall, hann sleppti alveg því skeiði lífsins þrátt fyrir að verða 84 ára. Ég man að ég skammaðist mín oft á kvöldin þegar við komum heim eftir strangan dag í hrossastússi eða girðingavinnu eða hvað það var sem var verið að fást við þann daginn. Ég fann að ég var svona þægilega dauðþreyttur og áttaði mig þá á því að pabbi hafði gert allt það sama og kominn yfir áttrætt. En málið var að ég fann hann aldrei eldast, ég reyndi að hlífa honum síðustu árin en ég fann að það fór ekki vel í hann og hann tuðaði yfir því að hann væri ekkert gamalmenni. En það voru í raun systur mínar og annað fólk sem við höfðum samskipti við sem gerðu það að verkum að ég fór að laumast til að hlífa honum án þess að það væri áberandi. Mér fyndist auðveldara að nota hnallinn einn og svona. En svo þegar ég fór að þreytast þá bættist þriðja höndin á hann, staurinn hentist niður og pabbi glotti og sagði að það væri nú eitthvað gagn í sér ennþá.

Hann hafði mikið gaman af öllum dýrum, sérstaklega hestum, hann var alla ævi viðriðinn hesta og var með hesta á húsi og á járnum fram á síðasta haust og ætlaði að halda því áfram ótrauður í ár. Hann átti alltaf góða hesta og var alla tíð vel ríðandi. Ég er reyndar á því að hann hefði verið vel ríðandi þótt hann hefði ekki átt góða hesta, því hann virtist ná ótrúlegustu hlutum útúr hestum sem var lítið spunnið í og enginn annar virtist geta náð neinu úr. Eitt af því síðasta sem hann sagði við mig var að hann ætlaði að láta fara hesta sem enginn nema hann notaði. Og þannig var það hann átti alltaf hesta sem hann hafði gaman af og voru góðir hjá honum en enginn annar náði neinu útúr. Hestarnir voru líka alltaf bestir hjá honum  og sennilega voru þeir það. Við áttum alltaf erfitt með að nota sömu hestana og það fauk oft í mig og ég skammaði hann fyrir að vera búinn að eyðileggja þennan og hinn hestinn fyrir mér þegar hann var að segja mér til. Enda fór best á því að við notuðum ekki sömu hestana. Frænka mín rifjaði það upp fyrir mér að þegar við vorum krakkar í sveit á Ríp þá hlökkuðum við alltaf til þegar pabbi kæmi eftir vinnu eða um helgar því þá var næsta öruggt að það yrði eitthvað farið að eiga við hross og þá fengjum við að vera með. Hann var ótrúlega lunkinn við að smíða bæði brokk í hesta sem ekki fengust til að brokka og smíða tölt í hesta sem allir höfðu sagt að gætu alls ekki tölt. Þannig að hann tók oft að sér vandræðahesta sem aðrir voru búnir að gefast upp á. Hann var mikill sögumaður og hafði gaman af að segja frá. Sérstaklega í reiðtúrum, hvort sem var í Hegranesinu eða á öðrum stöðum. Hann hafði gaman af að segja frá liðnum tímum og gæddi sögurnar lífi sem gerði þær ógleymanlegar og hann kunni ógrynni af sögum af nánast hverri þúfu. Það eru skemmtilegustu minningarnar sem ég á að hlusta andaktugur á pabba segja einverja sögu af einhverri svaðilför og það skipti ekki máli hvort ég hafði heyrt hana áður eða ekki ég beið alltaf jafn spenntur. Á ferðum okkar um Ísland síðustu 3 ár þá var yndislegt að hafa þennan sögumann með, því hann kunni ógrynni af sögum um staði sem hann hafði aldrei komið á áður, eins gaf hann sig á tal við fólk og sagði okkur svo sögurnar sem það sagði honum.

Pabbi var ósyndur en var þó alla ævi svamlandi á hesti fram og til baka yfir Héraðsvötnin vitandi það að ef hann missti af hestinum þá var fátt um bjargir. Alltaf fór hann þó fyrstur út í að leita að vaði og hann var ótrúlega glöggur á að sjá hvar vaðið væri best, það glöggur að ég fylgdi fyrirmælum hans út í ystu æsar og undantekningarlaust þá hitti hann á besta vaðið þannig að ef stóðið fór af slóð og lenti í hrakningum þá sluppum við sem fylgdum vaðinu sem pabbi sá. Ég vissi aldrei og veit ekki ennþá hvernig þetta mátti vera. Sennilega áratuga reynsla.  Hann sagðist tvisvar hafa verið hætt kominn í vatni, annað skipti lenti hann á hrokasundi í miklum vatnavöxtum og hesturinn sem hann var á kunni ekki að synda og sökk undan honum, kom þó loks niður á fast og kraflaði sig upp. Hitt skiptið hafði stór albínóagæs verpt úti í hólma og hann langaði að smakka egg hennar, lét sig vaða út í á hestinum og lenti á sundi sem var ekki áhyggjuefni fyrr en gæsin stóra réðst á hann og fældi hestinn, en slapp með skrekkinn og eggin heil. Hann var besti faðir sem nokkur getur hugsað sér. Eins og hans kynslóð þá var hann ekki duglegur við að tjá tilfinningar sínar í orðum en gerði það þeim mun sterkar í atferli og gjörðum. Ég hef aldrei velkst í vafa um að pabbi var 110% á bak við mig og studdi í hverju sem ég tók mér fyrir hendur. Hann reyndi lítið eða ekkert að stýra gjörðum mínum en stóð mér alltaf að baki eins og klettur. Það var einhvern veginn aldrei þannig að ég þyrfti að biðja pabba aðstoðar, heldur gerði ég meira ráð fyrir honum strax, ekki samt af tillitsleysi, heldur  var það meira þannig að reynslan hafði kennt mér það. Þannig að í raun hafi ég alltaf getað tekist á við þriggja manna verk því pabbi var alltaf á við tvo venjulega menn.Hann var endalaust greiðvikinn og hjálpsamur, á haustin stoppaði ekki síminn þegar fólk var að hringja og biðja pabba fyrir hross sem vantaði og oftar en ekki þá hafði pabbi upp á því. Haustin voru undirlögð, hann hirti fyrir Skagfirðinga einhvern tug ára í Skrapatungurétt bæði hross og kindur og rak framan af að vestan og lenti þá í allskonar svaðilförum, bæði vondum veðrum og erfiðum rekstrum en alltaf kom hann heim með jafn margt og hann lagði af stað með. Þegar göngum lauk þá tók við sláturtíð langt fram eftir hausti og úrvinnsla afurðanna og þá hjálpaði hann ættingjum og vinum eins og hann hafði tök á. Hugsa að hann hafi unnið tvöfaldan vinnudag allan september og október og langt fram í nóvember því hann sinnti jú alltaf sinni vinnu meðfram en sinnti hinu eftir vinnu og um helgar. Ég var alltaf með og ég sá yfirleitt lítið af mömmu þessa mánuði. Gerði ómögulega hluti á hestum. Það var ekkert sem var honum ómögulegt þegar hann var kominn á hestbak. Hann átti alltaf frá því ég man eftir einn hest sem var ódrepandi og var lagt á þegar á þurfti að halda eða þegar aðrir voru búnir. En ég man ótal tilvik þar sem pabbi gerði ótrúlega hluti, hvort sem það var í göngum eða smalamennsku heima á Ríp, já og í hestaferðum. Sitjandi á uppgefnum hesti og horfa í örvæntingu á hrossahóp hverfa sem ekki mátti sleppa en finna svo gustinn af pabba þeytast  framhjá og hugsa með mér "já, en hann var mér langt að baki þegar þessi eltingaleikur hófst" og horfa svo á hópinn birtast stuttu síðar og hann á eftir. Eða sjá hann ná þeim 10 hrossum sem hann ætlaði með heim úr 150 hrossa hóp í engu aðhaldi. Ég varð alltaf jafn hissa hvernig hann gat sorterað hrossin eins og hann ætlaði sér og virtist aldrei þurfa til þess neitt aðhald eða aðstöðu.  Hann var góður vinur vina sinna og hefur átt þá marga og góða í gegnum tíðina, hefur þurft að kveðja þá marga og sagði oft að það  eina sem truflaði hann við að eldast væri það að hann þyrfti að sjá á eftir og kveðja margan góðan vin.

Ég gæti endalaust haldið áfram held ég en ég held að þetta séu þeir þættir í fari pabba sem mér þykir vænst um. Hvíl í friði elsku pabbi minn, ég vona að ég geti orðið mínum börnum eins góður faðir og þú varst mér.

Þinn elskandi sonur,

Halldór Gunnlaugsson.