Sigurey Guðrún Lúðvíksdóttir fæddist í Reykjavík 20. nóvember 1957. Hún lést að morgni annars dags jóla, 26. desember 2009. Faðir hennar, Lúðvík Björnsson, f. 26.10. 1928, lifir dóttur sína, en móðir hennar, Jóhanna Ásdís Sophusdóttir, f. 23.12. 1931, lést þann 19. ágúst 2004. Systkini Sigureyjar eru Björn, f. 27. nóvember 1960, og Fjóla, f. 25. ágúst 1965. Sigurey giftist 4. september 1977 í Hallgrímskirkju í Hvalfirði Þorsteini Kristni Jóhannessyni, f. 27. júní 1953. Hann er ættaður frá Patreksfirði og starfaði lengi sem sjómaður er síðar hjá Sementsverksmiðjuni á Akranesi. Foreldrar hans eru Jóhannes Páll Halldórsson, f. 24. júlí 1924, og Guðrún Þórunn Árnadóttir, f. 9. febrúar 1923. Börn Sigureyjar og Þorsteins eru: 1) Lúðvík, f. 12. júlí 1977. Eiginkona Nanna Sigurðardóttir, f. 11. nóvember 1974. Börn þeirra eru Katrín Lind, f. 12. ágúst 1999, og Kristinn, f. 6. maí 2004. Að auki á Lúðvík fósturbörnin Sigurrósu, f. 8. júlí 1991, og Inga Þór, f. 13. apríl 1994. 2) Jóhann, f. 24. desember 1987. Sambýliskona Kristín Halla Stefánsdóttir, f. 27. desember 1985. Barn þeirra er Sigurey Björg, f. 2. apríl 2009. 3) Rúna Dís, f. 25. nóvember 1990. Unnusti Hilmar Smári Sigurðsson, f. 26. september 1987. Sigurey útskrifaðist sem sjúkraliði árið 1987 og starfaði eftir það á Sjúkrahúsi Akraness. Sigurey og Þorsteinn byrjuðu sinn búskap á Patreksfirði árið 1975 en fluttust til Akraness árið 1983 þar sem þau byggðu sér hús að Jörundarholti 4. Útför Sigureyjar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 7. janúar 2010, kl. 14.

Elsku besta Eyja mín.

Sárt og erfitt er að sætta sig við að þú skulir vera búin að kveðja okkur, þú sem varst  á besta aldri aðeins 52 ára.

Kynni okkar hófust um 1974 þegar þú komst á Patró og þið Steini urðuð ástfangin og hefur sú ást og samheldni  haldist hjá ykkur í  36 ár.

Gaman  var að koma í heimsókn til ykkar á Skagann og alltaf vel  tekið á móti öllum sem þangað komu.   Þið hafið verið einstaklega góð í gegnum tíðina við Vallý og Georg  og eins fékk Inga Rós mikla hjálp og hlýju frá ykkur þegar hún bjó á Skaganum, enda hefur  heimili ykkar alltaf verið opið og vel tekið á móti öllum og aldrei gerður mannamunur.

Þú ert búin að vera algjör hetja síðastliðin 8 ár, sama hvað dundi  á þér, alltaf varst þú  jákvæð og lést ekkert buga þig og viljinn að sigra þennan sjúkdóm  var svo sterkur.

Ekki lést þú aftra þér að koma á Patró á bekkjarmót með Steina, þá nýbúin í einni aðgerðinni, eða þegar við fórum til Eyja að kveðja Gísla og þegar þið  Steini fóruð í Karabíska hafið, endalaust væri hægt að telja upp því krafturinn í þér var svo ótrúlegur þó alltaf væri að koma eitthvað nýtt upp á hjá þér.

Símtal okkar  viku fyrir jól verður mér ætíð í minnum en þá varst þú heima og nokkuð hress og þú varst svo bjartsýn á að fá að njóta jólanna heima hjá fjölskyldunni.

Því miður rættist sú ósk ekki og sorgarfréttin kom að morgni annars  í jólum, en notaleg tilhugsun var að þú hafir sofnað í faðmi Steina,  þar sem þú vildir vera.

Steini hefur staðið með  þér í einu og öllu og verið kletturinn í lífi þínu.

Þið voruð einstaklega dugleg að nýta tímann ykkar vel  undanfarin ár og ferðuðust mikið bæði  utanlands og á húsbílnum ykkar og auðvitað var Týra ykkar alltaf með í þeim ferðum.

Þið hafið verið sérstaklega samheldin í gegnum árin og hlúð vel að börnunum ykkar og barnabörnum sem þú naust þín svo vel með.

Elsku Eyja mín.  Kærar þakkir fyrir alla hlýju og góðvild, þú varst yndisleg kona sem verður sárt saknað og ég  geri það sem ég get fyrir fjölskylduna.

Elsku Steini, Lúlli, Jóhann, Rúna Dís, Lúðvík, Fjóla, Bjössi og fjölskyldur.

Megi guð gefa ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Minning þín er ljós  í lífi okkar.

Nína og Guðný María