Jóhann Pétur Halldórsson fæddist á Siglufirði 14. mars 1946. Hann lést á heimili sínu 14. janúar síðastliðinn. Móðir Jóhanns Péturs er Sigríður Júlíusdóttir, f. 16. ágúst 1930. Faðir hans var Halldór Pétursson, f. 21. janúar 1926, d. 22. mars 1991. Jóhann Pétur ólst upp hjá föðurömmu sinni Björgu Andrésdóttur og fósturafa Guðjóni Jónssyni á Siglufirði. Jóhann Pétur var elstur sex systkina en þau eru Júlíus Einar, f. 1950, Ingibjörg, f. 1952, Rafn, f. 1954, Björg Guðný, f. 1960 og Sigurður f. 1965. Jóhann Pétur giftist Ingileif Hafdísi Björnsdóttur, f. 17. desember 1951, í Hallgrímskirkju 2. júní 1973. Móðir hennar er Anna Halldórsdóttir, f. 16. október 1923. Faðir Ingileifar var Björn Stefánsson, f. 11. mars 1917, d. 2. júní 1989. Jóhann Pétur og Ingileif eignuðust saman fjóra syni: Halldór Guðjón, f. 6. ágúst 1971. Sambýliskona hans er Sigurlín Jóna Baldursdóttir, f. 28. febrúar 1964. Sonur Halldórs er Óskar Ingi, f. 26. júní 2000. Börn Sigurlínar eru Daniel Þór og Ingibjörg Petrea Ágústsbörn, f. 9. október 1997. Davíð Freyr, f. 10. desember 1976. Sambýliskona hans er Pálína Þorgilsdóttir, f. 8. apríl 1976. Dóttir þeirra er Ásdís María, f. 11. október 2004. Ingvi Karl, f. 2. mars 1980. Sambýliskona hans er Þórdís Ólöf Viðarsdóttir, f. 26. maí 1983. Jóhann Ingi, f. 30. júní 1983. Sambýliskona hans er Sólveig Lára Kjærnested, f. 3. nóvember 1985. Einnig er von á tveimur barnabörnum til viðbótar í næsta mánuði og var mikil tilhlökkun hjá Jóhanni Pétri. Jóhann Pétur gekk í gagnfræðiskóla Siglufjarðar og lærði síðar vélvirkjun við Iðnskólann á Siglufirði. Hann vann síðan við vélvirkjun hjá Síldarvinnslu ríkisins á Siglufirði og Reyðarfirði þar til hann og Ingileif fluttust til Hafnarfjarðar 1971 þar sem þau hófu búskap. Þar vann hann við ýmis störf. Árið 1973 fluttust þau til Reyðarfjarðar og þar vann Jóhann hjá Síldarvinnslu ríkisins. Á níunda áratugnum stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, Véla- og bifreiðaverkstæði JPH og vann síðar sjálfsætt þar til hann hóf störf hjá Vegagerð ríkisins. Haustið 1998 fluttust Jóhann Pétur og Ingileif til höfuðborgarinnar og settust að í Kópavoginum. Þar vann hann hjá Vegagerðinni og við ýmis önnur störf þar til hann lét alfarið af störfum. Útför Jóhanns Péturs fer fram frá Digraneskirkju í dag, föstudaginn 22. janúar 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Síðast þegar ég sá Jóa bróður, sat hann við eldhúsgluggann heima hjá mömmu í Keflavík, í svörtum hlýralausum bol, brúnn og sællegur að drekka kaffi og borða vöfflur og flatkökur með hangikjöti ... og náttúrlega að gera grín að okkur sem hann hafði svo sannarlega gaman af. Þá setti hann upp þennan sakleysissvip sem bara hann gat sett upp. Og við féllum alltaf á prófinu og trúðum honum út í eitt, þar til hann fór að hlæja og þá vissum við að hann var að stríða okkur. Hann var alltaf með  prakkaraglampann í augunum þannig að maður vissi aldrei hvort að sagan var sönn eða ekki.

Jói ólst upp hjá afa og ömmu á Siglufirði. Þó hann væri töluvert eldri en ég, var ég samt nógu gömul til að stelast í plötusafnið hans ef hann var ekki heima. Hann hafði svo gaman af öllum þessum gömlu íslensku lögum og sat oft og hlustaði á gamla grammófóninn sem var inni í stofu hjá ömmu. Hann átti líka Volkswagen bíl og fékk ég stundum að fara í bíltúr með honum og keyra um bæinn. Síðan þá minna þessir bílar alltaf á hann.

Ég  er svo heppin og glöð að hafa verið heima síðastliðið sumar og átt margar yndislegar stundir með allri fjölskyldunni. Einn daginn tók mamma mín sig til og skipaði öllum strákunum sínum fjórum að fara í klippingu, raka sig og mæta í jakkafötum suður í Keflavík, því nú áttum við öll sex systkinin að fara í alvöru myndatöku á alvöru myndastofu. Ingibjörg systir og ég þurftum ekki að láta segja okkur það tvisvar. Bræðurnir komu einn og einn, fínir og velgreiddir. Og svo kom Jói, í stuttbuxum og bol með hárið svolítið upp í loftið. Hann sagðist ekki vita um nein jakkaföt, það hafði enginn minnst neitt á það við hann. Allt fjörið í eldhúsinu hjá mömmu stoppaði en við áttum að vera mætt eftir hálftíma. En þá byrjaði hann að hlæja og kom með jakkaföt sem voru í plastpoka í plasti og á herðartréi. Hann var að sjálfsögðu skammaður í bak og fyrir þangað til við vorum öll farin að hlæja og flissa eins og litlir krakkar. Myndatakan heppnaðist alveg frábærlega og mikið gaman haft. En hún var síðasta myndatakan af okkur systkininum öllum og mömmu.

Jói hafði alltaf gaman af og vildi endilega vita hvernig lífið gengi hjá mér úti á Nýja Sjálandi. Hann hafði mikinn áhuga á veðurfarinu og hvað klukkan væri. Hvað væri mikill tímamunur. Við vorum oft búin að tala um hvað þetta væri skrýtið og hlæja að þessu öllum saman, þegar sumar var hér, var vetur heima. Og svo snérist þetta allt við, nótt og dagur, sumar og vetur.

Jói bróðir var góður maður. Aldrei heyrði ég hann segja neitt níðandi um aðra menn eða æsa sig úr hófi fram um mál sem bar á góma. Ekki það að það skipti hann ekki máli, heldur var hann með sínar skoðanir og hvað sem gekk á skipti hann ekki um skoðun en þurfti ekki að sannfæra aðra. Ég held að það sé merki um innri frið og skilning og líka það að vera sáttur við lífið.

Hann var elsti bróðir minn og ekki gamall þegar kallið kom, aðeins 63 ára gamall. Það er eitthvað sem brestur þegar bróðir manns deyr og þessi brestur er svo sársaukafullur og ótrúlegur og sérstaklega ósanngjarn einhvern veginn. Komið er skarð í hópinn. En ég hef þá trú að Jói Pétur sé hérna einhversstaðar nálægt okkur, í hjarta mínu, sem er mér styrkur og stoð og leyfi ég mér líka að brosa þegar ég hugsa um hvernig hann hló, þessum hlátri sem hann gat bara hlegið sem ég geymi og gleymi aldrei. Hann verður alltaf með okkur. Hann er hluti af okkur. Hann er bróðir minn.

Það er ekki skrýtið að Jói skuli hafa átt og á enn yndislega fjölskyldu. Fjóra frábæra syni, Dóra, Davíð, Ingva og Jóhann Inga. Þeir eru sko strákar sem við öll hefðum viljað eiga, skemmtilegir, innilegir og ekki síst ... stór myndarlegir. Inga móðir þeirra, elsku Inga sem hefur alltaf tekið mér og fjölskyldu minni opnum örmum. Það vantaði aldrei gestrisnina og umhyggjuna. Við Nigel, Egill, Anna og Henry, vottum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur á þessum sorglegu tímamótum. Þó við séum svona langt í burtu, eruð þið öll í huga okkar og hjarta. Hvíl í friði elsku bróðir.

Björg systir Nýja Sjálandi