Ingibjörg Jónsdóttir fæddist í Dufþaksholti í Hvolhreppi Rangárvallasýslu, 2. febrúar 1917. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Kumbaravogi á Stokkseyri 5. janúar sl. Foreldrar hennar voru Guðlín Jónsdóttir, húsmóðir, f. 23.september 1877, d. 11. maí 1974, og Jón Jónsson, bóndi, f. 15. maí 1865, d. 16. apríl 1917. Systkini Ingibjargar eru Jón Ingi, f. 8. febrúar 1911, d. 30. ágúst 1996, Elín Jónsdóttir, f. 18. nóvember 1912, d. 19. ágúst 1985, Ólöf Jónsdóttir, f. 24. nóvember 1913, d. 6. nóvember 2006. Ingibjörg giftist Gunnari Jónssyni frá Hafnarhólmi í Steingrímsfirði, f. 28. febrúar 1916, d. 24. desember 1993. Börn þeirra eru a) Ragnhildur, f. 30. júní 1962, b) Róbert, f. 7. janúar 1958, í sambúð með Lilju Sigurbergsdóttur, f. 26. desember 1960. Börn þeirra eru Ingunn, f. 10. október 1988, og Friðrik Snær, f. 11. nóvember 1997. Útför Ingibjargar var gerð í kyrrþey 12. janúar sl. að ósk hinnar látnu.

Elsku besta amma mín.
Imba amma kallaði ég þig alltaf. Breyttist þó í Íja amma þegar Friðrik Snær kom í heiminn. Hann gat ekki sagt Ingibjörg né Imba.
Ég man lauslega eftir deginum þegar við fluttum inn til þín. Minnir að ég hafi verið 6 eða 7 ára. Öll þessi ár hefur þú verið þar, ávallt til staðar. Man sérstaklega eftir því þegar ég varð veik, þá hugsaðir þú alltaf um mig. Bjóst til heitt kakó og gafst mér ristað brauð. Og þetta hefur ávallt fylgt mér. Ég geri þetta alltaf núna þegar ég verð veik. Ristað brauð og kakó.
Fórst aldrei lengra en niður til Ollu systur þinnar. Man að þú varst hrædd við vatn, réttara að segja sund. Þú sagðir mér margar sögur. Þú varst heldur þrjósk á köflum, vildir enga hjálp. Sýndi mér gamlar myndir af þér og systrum á ferðalagi. Einnig fallega steina sem þú hafðir safnað í einhvern tíma. Þú faldir pening í kommóðunni þinni og gafst mér stundum 500 kr. Þú beiðst alltaf eftir mér, þegar ég kom seint heim á kvöldin. Gast ekki farið að sofa fyrr en allir voru komnir heim.
Þú varst alltaf indæl og með þinn skemmtilega húmor. Hugsaðir ávallt vel um eldliljurnar undir stiganum.
Man þegar heyrnin þín fór að minnka. Ég var að koma heim úr prófi og gleymdi lyklunum mínum. Ég dinglaði og dinglaði bjöllunni. Enginn svaraði. Ég fór bak við og bankaði á fullu og ekki komstu til dyra. Endaði með því að brjótast inn um herbergisglugga mömmu og pabba. Um leið og ég er komin inn, kemur þú út úr herberginu þínu og varst hissa að sjá mig koma út úr herberginu þeirra.
Það kom að því að þú fórst að, ég ætla að segja eldast. Og maður sá að þú varst ekki lengur ánægð. Eftir að Olla fór, fórstu aldrei niður. Það vantaði eitthvað. Ég fylgdist með þér einn daginn. Og það eina sem þú gerðir var að stara út um gluggann. Þann dag samdi ég lítið ljóð um þig.

Amma
Gömul sál
Sem horfir út um gluggann
Í von um eitthvað nýtt.
Búin að missa alla eiginleika
Og dauðinn á næstu stráum.
Situr öllum stundum
Og gluggar í blöðin
Minnið búið að bregðast henni
Spyr sömu spurningarnar
Aftur og aftur
Og fer í taugarnar á yngri kynslóðinni.
Skilur ekki upp né niður
En vill enga hjálp frá neinum
Þrátt fyrir leiðindin
Sem virðast birtast uppúr þurru
Þá á hún samt gott hreiður
Í hjarta fjölskyldunnar.

Þetta er kannski ekki líflegt ljóð, en ég fann fyrir sorg vegna þín. Síðar hafðirðu dottið og handleggsbrotnað. Úr því varstu send á spítalann og varst þar í dágóðan tíma. Við fórum alltaf að heimsækja þig. Þú fékkst þó síðan pláss á stað sem heitir Kumbaravogur á Stokkseyri. Og með tímanum sást að það var byrjað að lifna yfir þér aftur. Við heimsóttum þig auðvitað oft, þó svo þú mundir kannski ekki eftir því.

Tók á að sjá þig þarna í lokin. Barðist við tárin sem voru að fara að myndast. Ég tók í höndina á þér og þú komst við kápuna mína. Ég kyssti þig á ennið og sagði bless. Táraðist hljóðlega í bílnum á leiðinni heim. Minningin af þér í þessu ástandi er ekki sú sem ég vil halda í. Því ætla ég ávallt að minnast þín brosandi og hressri.
Ég mun sakna þín.


Ingunn Róbertsdóttir.