Halldór Bjarnason fæddist á Akureyri 27. október 1959. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu þann 9. janúar 2010. Foreldrar hans voru Magnea Katrín Bjarnadóttir, f. 5. október 1929, d. 31. mars 2007, og Bjarni Benediktsson, f. 13. ágúst 1901, d. 18. apríl 1985. Halldór fór mánaðagamall í fóstur til móðursystur sinnar, Hildar Aðalheiðar Bjarnadóttur, f. 30. apríl 1922, og manns hennar, Brynjólfs Sigmundssonar, f. 11.3. 1902, d. 11.3. 1984. Hann ólst upp hjá þeim, og bjó í Hvammsgerði í Vopnafirði til 10 ára aldurs og svo í Reykjavík. Systkini Halldórs eru: 1) Benedikt Bjarnason, f. 1957. Kona hans er Hjördís Sigurðardóttir. Börn með Mekkínu Kjartansdóttur: Snorri (látinn), Bjarni og Kjartan. 2) Guðrún Stefanía Bjarnadóttir, f. 1958. Fóstursystur Halldórs eru: 1) Kristín Brynjólfsdóttir, f. 1942. Maður hennar er Arthúr Pétursson. Börn þeirra: Ásdís, Svanur, Brynhildur og Margrét. 2) Guðrún Brynjólfsdóttir, f. 1948. Maður hennar er Andrés Magnússon. Dætur þeirra: Hildur Brynja og Linda Mjöll. Eiginkona Halldórs er Elín Hannesdóttir tónlistarkennari. Þau giftust 17. júní 1989. Elín er fædd 16. apríl 1962, dóttir hjónanna Kristjönu Pálsdóttur, f. 8. maí 1934, og Hannesar Flosasonar, f. 12. mars 1931. Halldór og Elín eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Hildur, f. 13. apríl 1989, 2) Hannes, f. 3. janúar 1992, 3) Bjarni, f. 26. október 1994, og 4) Kristjana, f. 19. september 1999. Halldór varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1981, lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1987 og cand.mag.-prófi í sömu grein árið 1994. Hann lagði síðan stund á doktorsnám í Department of Economic and Social History við University of Glasgow og lauk doktorsprófi í hagsögu árið 2001. Halldór fékkst við sagnfræðirannsóknir frá árinu 1987. Hann var stundakennari í sagnfræði við Háskóla Íslands með hléum frá 1990 auk þess sem hann kenndi í Fjölbrautaskólanum við Ármúla 2000-2001. Halldór tók við starfi sem aðjúnkt í sagnfræði við Háskóla Íslands 1. júlí 2007 og gegndi því starfi fram á þennan dag. Halldór verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku bróðir.

Mikið óskaplega er veröldin einkennileg stundum, og oft ósanngjörn að manni finnst. Allt í einu og fyrirvaralaust er kippt í spotta og allt er breytt.  Að fá þá frétt að Halldór bróðir hefði látist skyndilega var eitthvað sem engum gat dottið í hug.

Við bræður ólumst ekki upp saman en mínar fyrstu minningar um Halldór eru frá sumardvöl hans heima á Bjarnastöðum. Ljós hrokkinkollur sem ávallt var tilbúinn til starfa.  Okkur bræðrum kom vel saman þó trúlega hafi ég verið oft eins og heimaríkur hundur. Hann hafði einstaklega ljúft skap sem ávallt fylgdi honum hvert sem hann fór.

Halldór átti gott með að hæna að sér skepnur. Á bænum var hundur sem hét Bliki. Þeir voru miklir félagar og léku sér oft saman og gat Halldór þá verið moldugur upp fyrir haus. Þannig háttar til að nokkur vegalengd er frá bænum upp á þjóðveg. Eitt vorið þegar Halldór kom í sveitina þurfti hann að ganga þennan spöl heim að bænum. Hundurinn gelti að gestinum eins og hann var vanur. Þegar Halldór sér hundinn kallar hann „Bliki minn“ sem þagnar um leið og hleypur á móti vini sínum.

Áhugi Halldórs á bókum vaknaði snemma. Ekki endilega unglinga- eða barnabókum, heldur miklu fremur fræðibókum. Það átti ég svolítið erfitt með að skilja á þessum árum. Hann varð snemma grúskari.  Þarna hefur hann lagt grunninn að því sem síðar varð.

Á menntaskólaárum Halldórs var minna samband milli okkar bræðra, hann á höfuðborgarsvæðinu en ég fyrir norðan. En eftir því sem við urðum eldri og sér í lagi eftir að ég flutti í næsta nágrenni við hann, urðu samskiptin nánari. Fann ég þá oft hversu ljúfur og þægilegur hann var og auðvelt að ræða við hann um hina ýmsu hluti.  Fræðimaður var hann fram í fingurgóma og vildi skila sínu með sóma og hafa allt sem nákvæmast. Mikla vinnu lagði hann í að hafa allar heimildir sem réttastar. Síðari ár kenndi hann í Háskólanum og fann ég vel að kennslan átti vel við hann.

Fyrir rúmum tuttugu árum kynntist hann indælli stúlku, henni Elínu sem síðar varð konan hans. Í Fannarfoldinni bjuggu þau sér einstaklega fallegt heimili. Þar var ávallt tekið á móti manni með bros á vör. Þau voru sérlega samhent og dugleg að hlúa að sínu. Þess fengu börnin þeirra fjögur að njóta í ríkum mæli. Samheldni og væntumþykja fjölskyldunnar var aðdáunarverð. Í Fannarfoldinni leið manni alltaf vel.

Minningin um góðan dreng lifir. Brosið sem náði ósvikið til augnanna og  hlýlegt viðmót er mér ofarlega í huga.

Elsku Elín, Hildur, Hannes, Bjarni og Kristjana, megi góður Guð styrkja ykkur á erfiðum stundum.

Þinn bróðir,

Benedikt.